Auðvaldið og sanngirnin

CSC_0458

Þeir ráða Íslandi sem eiga peningana.

Þannig var það fyrir hrun og þannig er það eftir hrun.

Auðvaldið átti þingmennina, þingið og ríkisstjórnina. Það átti eftirlitsstofnanirnar. Embættismennina. Það var búið að tryggja sér fjölmiðlana og akademíuna.

Og enn er þetta óbreytt.

Skjaldborgin margumtalaða felst í því að verja hagsmuni auðvaldsins. Passa að það eigi fyrirtækin áfram, fjölmiðlana og peningana.

Þegar lán almennings bólgnuðu út talaði enginn um sanngirni. Fólk átti bara að borga margfalt það sem það hafði fengið lánað. Og þegja.

Og bæta síðan ísklafanum á sig hljóðalaust.

Nú þegar hæstiréttur hefur úrskurðað myntkörfulánin ólögleg og segir að fólk hafi í raun borgað margfalt það sem átti að borga, rísa upp hagfræðingar, heimspekingar og pólitíkusar og uppgötva allt í einu, að til er nokkuð sem heitir sanngirni.

Auðvaldið virðist hafa eignast hana líka.

Sanngirnin var ekki til þegar fólkið eyddi öllu sínu í að borga ólögleg lán og átti ekki fyrir mat. Sanngirnin var ekki til þegar óhófleg skuldabyrðin sligaði heimilin og varð til þess að fjölskyldur krömdust í sundur. Sanngirni fyrirfannst engin þegar fólk svipti sig lífi í vonleysi vegna útbólgnaðra lána.

En þegar auðvaldið á í hlut er sanngirnin snarlifandi og jafnvel hæstaréttardómar geta verið svo ósanngjarnir að ekki er hægt að fara eftir þeim.

Myndin er af Vestmannsvatni í Aðaldal


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Minn kæri sr.Svavar: Amen!

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 17:49

2 identicon

Takk fyrir þetta.

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 20:38

3 identicon

Falleg mynd og fallegur stadur.

Islendingur (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 21:07

4 Smámynd: Dingli

Mæltu manna heilastur! Sannleikurinn þarf ekki að vera flókinn.

Dingli, 30.6.2010 kl. 23:43

5 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Heyr, heyr..

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.7.2010 kl. 00:44

6 Smámynd: Kristinn Pétursson

Vel ritað, engu við að bæta - en spurningin verður  sífellt áleitnari...

 ...hvers vegna þróaðist þjóðfélagið svona???

Hver kenndi alla þessa vitleysu - frá veðsetningu aflaheimilda (sem eru í raun bönnuð skv 1. gr lga um stjórn fiskveiða - (fyrstu og síðustu setningunni)) og niðrúr.........

Kristinn Pétursson, 1.7.2010 kl. 02:59

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður og kröftugur síra Svavar!

Verður kraftaprestur með þessu áframhaldi.

Jón Valur Jensson, 1.7.2010 kl. 03:10

8 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Tek undir þetta, séra Svavar.

Ég hefði hins vegar haft aftasta pistilinn í nútíð, þar sem fólk er sífellt að eyða öllu eða miklu af sínu í auðvaldið, eins og þú kallar það, á einhvern hátt.

Kristinn P. fórnar höndum, sem von er, og spyr hvernig þetta ástand hafi eiginlega komið til og nefnir í því sambandi hrópandi dæmi sem hefur viðgengist í næstum tvo áratugi, þ.e. sjálftekna einkagjöf ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar (þá í Sjálfstæðisflokki) á kvóta Íslands til fárra útvaldra með því að heimila framsal aflaheimildanna, í stað þess að taka viðeigandi leigugreiðslu fyrir aflaheimildir hvers árs sem rynni í ríkissjóð en ekki bara vasa kvótahafa.

Það er með þetta eins og annað, að fulltrúar almennings sem eiga að gæta hagsmuna almennings fremur en sérhagsmuna hafa ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi.
Almenningur hefur að því er virðist látið sér nægja að vinna sína vinnu í sveita síns andlitis og greiða sína skatta og laun til embættismannakerfis ríkisins í blindu trausti þess að allir þessir aðilar, alþingismenn og embættismenn, væru að gæta hagsmuna almennings og þjóna almenningi.
Þetta traust beið hrikalegt skipbrot við bankahrunið, en þá kom upp á yfirborðið hversu slælega allir þessir aðilar sem heild hafa unnið fyrir launagreiðendur sína, skattþegna landsins og almenning.

Fulltrúar almennings sem heild brugðust við gæslu- og þjónustustörf sín og nú neyðist almenningur að taka til sinna ráða og endurskoða stjórnmálakerfi landsins og veita því beint aðhald.
Það gerist m.a. með lifandi þátttöku í daglegri umræðu um landsins gagn og nauðsynjar og uppbroti á sérhagsmunakerfi því sem endurspeglast hefur í svokölluðu "fjórflokkakerfi" á vettvangi stjórnmála.
Vonandi er hreinsunin sem átti sér stað með tilkomu Besta flokksins í Reykjavík, íbúaflokknum á Akureyri og fleiri slíkum í nýafstöðnum sveitarstórnarkosningum aðeins byrjunin á slíkri hreinsun á landsvísu. Það eru þjóðþrif að því og þau eru bráðnauðsynleg.
Ég held að þetta sé bara byrjunin.

Nú er komið að íbúum þessa lands að taka í taumana og velja sér raunverulega og réttvísandi fulltrúa sína á Alþingi og með því sjá til þess að embættismenn séu ráðnir eftir hæfni fremur en kunningskap og flokksböndum sem hafa áhuga á því að vinna landi sínu og þjóð vel, ekki bara kunningjum sínum, ætt og styrkveitendum.

Það ætti að segja öllum sjáandi og heyrandi mönnum hvers konar siðferði ræður ríkjum í þeim flokkum sem lýða það að þingmenn, sem orðið hafa uppvísir að því að þiggja stórfé af fyrirtækjum sem háð eru ákvörðunum Alþingis og sveitastjórna, sitji áfram eins og ekkert hafi í skorist. Viðkomandi fulltrúi verður alltaf tortryggilegur í því hlutverki sínu, sama hvað hann ber fyrir sig. Hann verður að segja af sér strax og taka þá upp þráðinn aftur í næstu kosningum ef honum hugnast að bjóða sig fram aftur sem fulltrúi almennings.

Kristinn Snævar Jónsson, 1.7.2010 kl. 11:41

9 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll sr. Svavar. Allt of langt síðan ég hef heimsótt þessa síðu sem alltaf skartar gullfallegum myndum, oftast af okkar undurfagra landi. Pistillinn er ekki að mínu skapi , þessi sami væll og tröllríður öllu í dag. Ég er sammála Kristni P eins og oft áður. Lögleysa og vitleysa eru ekki að birtast okkur í dag. Víst voru margir sem mótmæltu verðtryggingarákvæðunum og mælieiningum sem notaðar voru, en þá nenntu menn ekki að hlusta. Mér finnst brýnt að breyta embættismannakerfinu og æviráðningum þeirra til að auðvelda stjórnun í kerfinu. Held að ráðherrar ráði ekki við sterkar starfsmannablokkir þegar þeir koma inn í ráðuneytin. Sjáið bara borgarstjórann sem Reykvíkingar kusu yfir sig, glaðir í sinni, sem segir nú að hann viti bara ekkert um málin og geti því ekki tjáð sig um þau  Hvernig skyldi honum ganga að hafa stjórn á sínum mannvitsbrekkum? Hættum bara að taka lán, látum bankana fyllast af peningum og gáum hvað gerist þá. kveðja, í guðs friði. (hvar var hann annars blessaður   2004-8)  Kolla 

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.7.2010 kl. 22:41

10 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Er eiginlega nokkuð sammála greiningu í þessari bloggfærslu en vildi þó aðeins bæta við eftirfarandi:

Sorglegast er þó að þjóðin lætur þetta sama auðvald telja sér trú um að útlendingar eigi stóran hlut í hruninu og að krónan sé bjargvættur út úr kreppunni.

Hver heilvita maður ætti þó að sjá að útlendingar voru í algjöru aukahlutverki í hruninu og að krónan margfaldaði skellinn sem almenningar fékk út af hruninu.

Síðan heldur þetta sama auðvald að áfram að rýja þjóðina inn að skinni í gegnum okurvexti krónunnar og gengisfellingum eftir hentugleikum til að lækka laun fólks á einu bretti.

Finnur Hrafn Jónsson, 2.7.2010 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband