Þagnarskylda og kynferðisbrot

DSC_0227 

Allnokkur umræða hefur orðið um þagnarskyldu presta og kynferðisbrot.

Á aðalfundi Prestafélags Íslands árið 2007 voru siðareglur presta á dagskránni.

Þar  „var lagt til að hefðbundin þagnarskylda presta gagnvart skjólstæðingum sínum, leysti presta aldrei undan ákvæðum barnaverndarlaga um tilkynningaskyldu. Tillagan var felld - en prestar voru hins vegar ekki á eitt sáttir um afgreiðsluna" eins og segir í frétt RUV af málinu.

Af þeirri frétt og mörgum öðrum má skilja að prestar telji sig ekki bundna af lögum í þessum efnum.

Mér finnst gott hjá fjölmiðlum að taka þetta mál upp því það er svo sannarlega mikilvægt.

Og Ríkisútvarpið á þakkir skildar fyrir að sýna umræðum á aðalfundi Prestafélagsins árið 2007 þennan áhuga.

En vilji RUV upplýsa fólk um hvar það hafi kirkjuna og þjóna hennar í þessum efnum er illskiljanlegt að stofnunin hafi kosið að þegja um Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar sem samþykktar voru á Kirkjuþingu, æðstu stofnun kirkjunnar, í fyrra.

Í einni af þeim reglum segir að vígðir þjónar og starfsfólk kirkjunnar eigi alltaf að vera „upplýst um lög og reglur sem gilda um börn og unglinga og að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla má að barn búi við óviðunandi aðstæður eða er þolandi ofbeldis." (nr. 14)

Á sama þingi voru samþykktar Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar.

2. grein þeirrar reglugerðar hljóðar þannig:

Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Ríkisútvarpið hefði gjarnan mátt segja frá þessum starfsreglum í fréttum sínum af málinu.

Starfsreglurnar og siðareglurnar geta varla talist aukaatriði í því.

Aðalatriðið er þó að hvorki prestar né aðrir starfsmenn kirkjunnar eru undanþegnir barnaverndarlögum eða öðrum lögum.

Ég fagna áhuga RUV á siðareglum fagfélaga. Umræður um þær geta verið hinar forvitnilegustu.

Fróðlegt væri til dæmis að heyra góða umfjöllun um þagnarskyldu blaðamanna en fáar stéttir á Íslandi hafa lagt meiri áherslu á hana en einmitt blaðamenn.

Þar mætti velta því fyrir sér hvort þeir blaðamenn teldu sig yfir lög hafna sem segjast frekar vilja fara í fangelsi en rjúfa trúnað við heimildarmenn.

Myndin er tekin einu sinni á ágústkvöldi í Fiskilækjargili vestur yfir Fiskilækjarhverfið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú skautar merkilegt nokk framhjá tilvitnunum í kollega þína sem sýna hreint út að þeir telji sig ekki bundna af þessum lögum.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 15.8.2010 kl. 21:28

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Óli Gneisti, þótt einhverjir kollegar mínir hafi aðrar skoðanir á þagnarskyldu en fram kemur í siða- og starfsreglum kirkjuþings eru þeir samt bundnir af þessum reglum - og landslögum. Framhjá því verður ekki skautað.

Svavar Alfreð Jónsson, 15.8.2010 kl. 21:43

3 identicon

Þannig að þú hlýtur að vera sammála mér um að prestar sem vilja ekki hlýta lögum eigi ekkert með það að gera að vera í prestsembættinu?

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 09:56

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Erum við alla vega ekki sammála um að refsa beri þeim sem brjóta lög? Og að þyngd refsingarinnar hljóti að ákvarðast af eðli og umfangi afbrotsins?

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 10:26

5 identicon

Embættismaður sem segist ekki bundinn af lögum hefur ekkert að gera í sínu embætti.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 10:53

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Embættismenn eiga að fara að lögum eins og aðrir.  Og þó að einhverjir kollegar mínir hafi aðrar skoðanir á þagnarskyldu en fram kemur í siða- og starfsreglum kirkjunnar breytir það því ekki að þeir eru bundnir af þeim reglum ekkert síður en aðrir. Brjóti þeir reglurnar hlýtur kirkjan að grípa til aðgerða og löggjafinn, því það kemur skýrt fram í barnaverndarlögum að tilkynningarskyldan gangi framar ákvæðum laga og siðareglna um þagnarskyldu stétta.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 11:53

7 identicon

Finnst þér það ekki skjóta skökku við að það virðist sem sama þöggun eigi sér stað hjá ríkiskirkju og kaþólsku kirkjunni... já og öllum kirkjum/moskum um heim allan þegar barnaníð og ofbeldi er annars vegar.
Alltaf er sagt að það sé þagnarskylda....

doctore (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 12:10

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvar í guðsorðinu er mæst til slíkrar skyldu?  Þetta er annars allt í samræmi við þetta liggaliggalá og þykistuleik, sem þið stundið. Svona eins og smáguttar í leynifélagi.

Hvert er hlutverk presta annars?

Jón Steinar Ragnarsson, 16.8.2010 kl. 13:24

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ef menn vilja halda sig við þetta bull, þá legg ég til að þið haldið þarnareiðinn aðeins útávið en prestar verði opinberaðir, ef þeir sýna ekki þau fordæmi, sem þeim ber. Það er sjálfsögð krafa.

Þessi þagnarskylda er hinsvegar eingöngu diktuð upp til að breiða yfir guðsmennina sjálfa.  Annars hefði hún aldrei komið til tals á einhverri þykjóráðstefnunni og drag parade-inu hér forðum.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.8.2010 kl. 13:28

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mig langar svo að spyrja: Hvað myndi kirkjan gera við þann þjón, sem bryti þagnarskylduna ykkar í tilfelli barnaníðs?

Myndi hann missa kjól og kall?

Fá sekt eða áminningu?

Mun hann missa trúnað sóknarbarnanna?

Jón Steinar Ragnarsson, 16.8.2010 kl. 13:31

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í læknalögum segir að þagnarskylda þeirra gildi ''ekki bjóði lög annað eða sé rökstudd ástæða til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.''

Þetta er bein yfirlýsing læknastéttarinnar  um að þeir telji að landslög séu siðareglum þeirra æðri þegar svo ber undir, réttara sagt þegar um heill þriðja aðila er að ræða. Þau tilvik eru auðvitað mikil undantekningartilvik. 

Ljóst er að prestastefnan hafnaði að setja sambærilegt ákvæði inn í siðareglur presta. Hvers vegna? Var ekki höfnunin á að setja þetta í siðareglurnar einmitt  vegna þess að sjónarmið Þóris Jökuls og Geirs Waage njóta mikils fylgis meðal prestastéttarinnar, kannski meirihlutafylgis? Ef þeir  væru bara fáeinar hjáróma raddir hefði tillagan flogið í gegn. Það segir mér almenn skynsemi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.8.2010 kl. 14:36

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæri Sigurður, í pistlinum hér fyrir ofan er tilvitnun í siðareglur fyrir presta og annað starfsfrólk kirkjunnar.

Þar segir að skylt sé að tilkynna barnaverndaryfirvöldum ef ætla megi að börn búi við óviðunandi aðstæður eða séu þolendur ofbeldis.

Í þessum sama pistli er ennfremur tilvitnun í starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku kirkjunnar. Þar segir, svo það sé nú endurtekið:

"Ef meint kynferðisbrot varðar barn, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002."

Bæði siðareglurnar og starfsreglurnar voru samþykktar á kirkjuþingi í fyrra.

Meirihluti þingfulltrúanna var með öðrum orðum samþykkur reglunum sem eru býsna afdráttarlausar í þessum efnum.

Kirkjuþing er æðsta stofnun kirkjunnar, ekki prestastefna og þaðan af síður aðalfundur Prestafélags Íslands, en þar urðu held ég umræðurnar sem þú ert að vísa til.

Fulltrúar á kirkjuþingi eru bæði úr hópi presta og leikmanna.

Ekki hef ég orðið var við óánægju með reglurnar hjá prestum sem þó hefði mátt búast við, sé meirihluta þeirra á móti þeim, en kannski veist þú eitthvað sem ég veit ekki.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 15:53

13 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

Ég veit ekki til þess að í landinu séu til nein þau lög sem banna að birta nöfn niðinga.  Barnaníðingar mega eiga það frá mínum bæjardyrum séð að vera einn sá mesti sori sem á jörðu gengur. Persónulega vil ég að nöfn allra slíkra séu birt opinberlega úr hvað stétt sem þeir koma. Mér er svo hjartanlega sama þótt tilveru þessara viðriðna yrði settur þröskuldur með því.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 16.8.2010 kl. 15:55

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, hvað myndir þú segja ef það kæmi í ljós á aðalfundi kennarafélags Íslands væru kennarar sem teldu sig ekki þurfa að tilkynna stjórnvöldum ef þá grunaði að barnaníð ætti sér stað?

Myndir þú endurtaka aftur og aftur að það væri ljóst að þeir ættu að gera það lögum samkvæmt? 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.8.2010 kl. 16:01

15 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er alveg ljóst, Hjalti, bæði innan skólakerfisins og kirkjunnar, að tilkynna ber barnaverndaryfirvöldum leiki grunur á að börn búi við óviðunandi aðstæður eða ofbeldi.

Séu einhverjir ósáttir við þá tilhögun breytir það því ekki að þeir eru bundnir af gildandi lögum og reglum, hvort sem þeir eru kennarar eða prestar eða annað starfsfólk á þessum stöðum.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 16:13

16 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

En hvað ef það væru kennarar sem myndu segja: "Ég mun ekki tilkynna barnayfirvöldum neitt, þó svo að mig gruni að börn búi við ofbeldi."? Hvað fyndist þér um það?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.8.2010 kl. 16:21

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þegar menn greinir á um hlutina er auðvitað best að byrja á því að ræða þá, er það ekki?

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 16:32

18 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jújú, en er það ekki vafasamt að hafa kennara í starfi sem segist ekki vilja fara eftir barnaverndarlögum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.8.2010 kl. 16:58

19 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Jú, Hjalti, og prestar eiga heldur ekki að komast upp með að sniðganga sömu lög.

Þess vegna er gott að búið sé að taka af allan vafa hvar kirkjan stendur í þessum efnum með ofangreindum siðareglum og starfsreglum.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 18:04

20 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, það er gott og blessað að yfirstjórn kirkjunnar hafi tekið þessa ákvörðun, en það breytir því ekki að einstaka prestar virðast segja að þeir muni ekki fara eftir þessum lögum. 

Það eru þessir prestar sem er aðalatriðið, ekki yfirstjórn kirkjunnar. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.8.2010 kl. 18:13

21 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þarna er ég ekki sammála þér, Hjalti.

Mér finnst kirkjuþing, sem er lýðræðislega kjörin æðsta valdastofnun þjóðkirkjunnar, vega þyngra í þessu máli.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.8.2010 kl. 19:51

22 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, hvað áttu við með því að það "vegi þyngra"? 

Ef þú átt við að það væri alvarlegra ef að kirkjuþing myndi segja að prestar ættu ekki að fara eftir barnaverndarlögum, þá væri það vissu alvarlegra.

En það sem ég var að segja að aðalatriðið, það sem skiptir máli í þessum fréttum, er ekki sú sjálfsagða staðreynd að æðstu stofnanir Þjóðkirkjunnar skuli vilja fara eftir barnaverndarlögum, heldur það að sumir prestar virðast ekki telja sig þurfa að fara eftir þeim. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 16.8.2010 kl. 19:55

23 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Tillagan var felld af því að meirihluti viðstaddra var í hjarta sínu sammála þessum fáu sem mest höfðu sig í frammi gegn henni . Annars hefði hún verið samþykkt. Þetta liggur í augum uppi. Tillögur eru felldar þegar meirihluti fundarmanna er andvígur hugsuninni í henni. Orð þeirra presta sem mest höfðu sig í frammi gegn tillögunni, um að þagnarskylda víki vegna barnaverndarsjónarmiða, Geirs Waage, Þóris Jökuls og Úlfars Guðmundssonar, er ekki hægt að skilja öðru vísi en svo að þó þeir muni ekki hlýta 16. gr. barnaverndarlaga. Og ekki bara þeir heldur mjög sennilega meirihluti þeirra presta sem var á fundinum. Annars hefði tillagan flogið í gegn. Meirihluti presta er því sennilega andvígur yfirstjórn kirkjunnar í þessum efnum. Þetta er borðleggjandi og er það sem menn ættu að furða sig á. En kannski hafa viðhorfin breyst á þremur árum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2010 kl. 14:36

24 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sigurður, ég þori að fullyrða að mikill meirhluti presta er samþykkur þeim siða- og starfsreglum sem kirkjuþing hefur samþykkt.

Séu einhverjir prestar ósammála reglunum þurfa þeir engu að síður að fara eftir þeim og landslögum.

Það er alveg borðleggjandi.

Svavar Alfreð Jónsson, 17.8.2010 kl. 14:58

25 Smámynd: Jakob Ágúst Hjálmarsson

Ég tek undir með sr Svavari í þessari umræðu en finnst vanta þá hugsun sem liggur að baki þagnarskyldu starfstétta, nefnilega það að jafnvel sakamenn þurfa að geta opnað hug sinn og sótt sér ráðleggingar, og ef þeir vissu að þar með hefðu þeir opinberlega játað glæp sinn kæmu þeir ekki fram úr því myrkri sem umlykur þá og héldu sig við iðju sína. Skynsöm og ábyrg manneskja gæti komið málum til betri vegar og jafnvel hlutast til um að brotum linnti án þess að rjúfa trúnað. Er rétt að loka alveg fyrir þessa leið?

Jakob Ágúst Hjálmarsson, 20.8.2010 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband