Biskup okkar tíma

DSC_0005

Tvennu þurfum við að spyrja okkur að sem stöndum frammi fyrir vali á næsta biskupi Íslands. Annars vegar er það spurningin um hvernig biskup þurfi að vera, óháð tíma og rúmi og hins vegar hvernig biskup við þurfum í okkar tíma og rúmi. Biskup þarf alltaf að hafa ákveðnar grunnforsendur til að virka í starfi. Hann þarf að eiga einlæga trú sem snertir við fólki og vekur til umhugsunar auk þess að þekkja innviði kirkjunnar vel og samhengi hennar í samfélaginu. Þetta er grundvallarkrafa sem eðlilegt er að gera til biskupa á öllum tímum. Að þessu sögðu bætast við fleiri þættir sem við teljum mikilvægt að næsti biskup Íslands, kjörinn árið 2012, hafi.

Fyrst skulum við samt aðeins gera okkur grein fyrir því hvers konar tíma við lifum í dag. Við lifum sannarlega velmegunartíma í þeim skilningi að við búum í landi auðlinda og fegurðar, ósnortinnar náttúru og tærleika í lofti, á láði og legi. Við búum í landi tækifæra þar sem framtíðin er björt en við búum líka við tímabundna erfiðleika sem stafa af mannlegum mistökum og blindu. Það gerir það að verkum, að traust til margra rótgróinna stofnanna hefur hrunið.

Hinu megum við ekki gleyma að við búum líka við gríðarlegan mannauð og hátt menntunarstig, meira jafnrétti en víðast þekkist í veröldinni og gagnsæi í mörgum mannréttindamálum. Við höfum sýnt hugrekki á mörgum sviðum. Hér á landi hafa t.d. gagnkynhneigðir og samkynhneigðir sama rétt til hjúskapar. Við getum verið býsna hugrökk. Gagnrýnin hugsun er víðast hvar í hávegum höfð, fólk er alla jafna vel upplýst og þolir illa að talað sé niður til þess af valdhöfum og öðrum háttsettum embættismönnum. Það er vel. Í okkar landi leynist bæði gull og grjót.

Inn í þetta samhengi kjósum við nú biskup. Það er vandi, ekki af því að góða kandidata vanti, heldur vegna þess að þjóðfélagið þráir öfluga, einlæga og hreinskiptna kirkju eftir sársaukatíma og langa fæðingu uppgjörs og sannleika. Kirkjan gegnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu en hún hefur ekki lengur þá forréttindastöðu að vera ein á sviðinu. Þjóðin er þróast jafnt og þétt í átt til fjölmenningar. Í fjölbreytileikanum felast mörg tækifæri og fyrir kirkjuna hefur hann þær afleiðingar, að hún verður að vanda sig enn meira en áður. Nýir tímar þýða ný viðmið, þó að gildi kirkjunnar séu alltaf þau sömu, að ganga fram í kærleika með augu Jesú Krists á lífinu.

Framundan eru spennandi tímar. Kirkjan og samfélagið ganga saman hlið við hlið áfram veginn með það markmið að græða sár, efla mannsandann og læra af fortíðinni, því hvort sem litið er til bankahruns eða kirkjukreppu þá er markmiðið það sama; að vera manneskjur og mæta manneskjum.

Nú viljum við gera grein fyrir því hvern við styðjum nú til embættis biskups Íslands. Við teljum að dr. Sigurður Árni Þórðarson prestur í Neskirkju hafi til að bera mannlega eiginleika sem séu vissulega mikilvægir á öllum tímum en ekki síst nú. Sigurður Árni er samræðumaður, hann hefur fölskvalausan áhuga á fólki og þá ekki síst því fólki sem velur aðrar leiðir en hann. Hann kann að hrífast með og læra. Sigurður Árni er vel lesinn guðfræðingur og þekkir sögu kirkjunnar í þaula. Hann er hvort tveggja í senn, forn og nýr, virðulegur og afslappaður, yfirvegaður og glaður. Hann er faðir uppkominna og ungra barna, brennandi í áhuganum fyrir hinni ungu kirkju, börnunum og foreldrum þeirra. Sigurður Árni er líka frábærlega kvæntur. Það skiptir máli þegar tekist er á við vandasamt embætti að eiga traustan lífsförunaut. Hann er lífsreyndur maður sem þekkir bæði gleði og sorg. Sigurður er prýðilegur ræðumaður, ljóðrænn en skýr, einlægur í dýptinni og hefur sinn sérstaka stíl.

Vissulega hefur Sigurður Árni margt fleira til brunns að bera en þessir kostir henta að okkar mati þeim manni sem gegnir embætti Biskups Íslands á okkar tímum.

Þessa grein birtum við kollegarnir, vinirnir og samherjarnir, sr. Hildur Eir Bolladóttir og sr. Svavar Alfreð Jónsson, prestar við Akureyrarkirkju, í Mogganum fyrr í þessari viku.

Myndin: Vor 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar og gleðilega páska. Góður pistill hjá ykkur séra Hildi. Ég hef ekki verið í messu eða neinni þjónustu hjá þessum umrædda presti en þekki betur aðra kandídata eins og Kristján Val Ingólfsson sem bæði er einkar vel gerður, fróður og góður prestur, vel giftur og tónar ofurvel.
Einnig hefði verið gaman að sjá sr. Gunnar  Sigurjónsson taka á þessu embætti. Hann er sterkur maður og sterkur karakter held ég líka með gott jarðsamband og góða nærveru. Ef á að fara að velja eftir kynferði fólks, eins og sumir tala um,  finnst mér kirkjan vera orðin full markaðsvædd m.v. að vera ríkiskirkja en auðvitað geta konur komið jafnt til greina, skárra væri það nú.  Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 5.4.2012 kl. 09:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband