Blessaðar fermingarnar

Gluggi12neðstNú eru fermingarnar að hefjast. Í síðustu viku vorum við með munnleg próf í fermingarfræðslu Akureyrarkirkju. Þegar ég kom í Safnaðarheimilið mátti heyra nokkra fermingardrengi æfa sig á því að syngja "Heims um ból". Það var fagur söngur og munaði engu að ég kæmist í jólaskapið.

Fermingar eru töluvert á milli tannanna á fólki. Talað er um gjafaflóð, óþarfa veislutilstand, óhófleg fjárútlát og hræsni. Spjótunum er einkum beint að fermingarbörnunum. Þó eru það ekki þau sem gjafirnar kaupa, veislurnar halda eða peningunum eyða.

Ég man vel eftir fermingardeginum mínum. Ég vaknaði til hans fullur tilhlökkunar. Mér fannst athöfnin í kirkjunni heldur löng en leið furðuvel í henni. Það voru kökur í veislunni. Ég fékk leðurlíkisjakka og stereógræjur. Mér fannst ég hafa fullorðnast töluvert þegar fermingardagurinn var að kvöldi kominn. Samt var ég seinþroska og er enn. Stelpurnar voru yfirleitt miklu þroskaðri en strákarnir, andlega og líkamlega. Þó að ég muni ekki mikið úr kverinu mínu, "Kristin trúfræði", fékk ég aldrei á tilfinninguna að ég væri að hræsna með því að láta ferma mig.

Mér finnst ósanngjarnt að ætlast til þess að fermingarbörnin verði að hálfgerðum englum við ferminguna. Og verði þau það ekki þykir mörgum fínt að gefa í skyn að þau séu að hræsna.

Er ekki sjálfsagt að halda unglingum veglegar veislur? Hverjir hafa ekki gaman af því að fá góðar gjafir? Af hverju er aldrei óskapast yfir því að fólk haldi upp á sextugsafmæli og sagt "hann er nú bara að þessu gjafanna vegna"?

Þegar boginn er spenntur of hátt við fermingarnar held ég að sjaldnast sé við fermingarbörnin að sakast. Nær væri að beina spjótunum að okkur, fullorðna fólkinu og þeirri neysluhyggju sem tröllríður öllu hér á landi.

Ég er líka svo undarlega innréttaður að ég lít ekki á borgaralega fermingu sem samkeppni við kirkjulega. Miklu frekar að ég sjái hana sem samherja. Án þess að ég hafi kynnt mér mikið það sem börnin læra í undirbúningi borgaralegrar fermingar sé ég ekki annað en að þar fræðist börnin um mikilvæg siðfræði- og heimspekileg efni. Ég er viss um að þau sem fermast borgaralega verða fyrir hollum áhrifum og góðum og veitir ekki af því nóg er um skaðlega áhrifavalda í samfélagi okkar.

Auðvitað er munur á kirkjulegri og borgaralegri fermingu. Í kirkjunni viljum við leiða börnin til Jesú Krists og glæða með þeim vitundina fyrir góðum Guði, sem ætíð er til staðar fyrir þau. Aðalatriðið er að það takist.

Fyrir nokkrum árum hitti ég æskuvin minn á Laugaveginum í Reykjavík. Hann sagði sínar farir ekki sléttar. Hafði lent í dópi og var svo langt leiddur að ekkert blasti við nema sjálfstortíming. Vinur minn dreif sig í meðferð. "Þar fann ég dálítið sem ég hélt að ég ætti ekki," sagði hann við mig. Þetta sem hann fann varð honum til bjargar, að hans sögn. Það var trúin.

Hann hélt að hann ætti hana ekki en hún var búin að vera þarna alla tíð, gegnum öll þessi ár og allar hans hremmingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Ég held að það sannist þarna í þessari stuttu sögu af vini þínum, að lengi býr að fyrstu gerð. Þess vegna þarf að vanda fermingarfræðsluna, og ekki endilega að einbeita sér að því að þau læri einhver ósköp utan að, heldur að þau upplifi kirkjuna og samfélagið við Krist á sem jákvæðastan hátt. Þá um leið erum við auka líkur á því að fólk finni sér farveg í trúnni þegar framí sækir og við lendum í raunum.

Guðmundur Örn Jónsson, 26.3.2007 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband