Hvort Guð sé til

P1020898

 

Að undanförnu hefur verið tekist á um hvort Guð sé til eður ei. Sýnist sitt hverjum. Fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík segir að Guð sé ekkert einkamál presta í ágætri grein í Fréttablaðinu sem hefur yfirskriftina Guð©.

Undir það tek ég. Guð er ekki einkamál presta og heldur ekki kirkna.

Guðleysi og vantrú er heldur ekki einkamál trúlausra eða samtaka sem stofnuð hafa verið um slíka afstöðu til trúar.

Þetta er ekki þannig, að annarsvegar höfum við þau sem trúa og hinsvegar þau sem trúa ekki.

Í langflestum okkar takast á trúin og vantrúin, sannfæringin og efinn. Sá sem efast getur verið trúaður og trúuð manneskja þarf ekki endilega að vera svo sannfærð að hún eigi ekkert rými fyrir efa í hjarta sínu.

Ég held að heiðarlegur efi sé Guði þóknanlegri en blind trú sem einskis þarf að spyrja. Slíkur efi getur nært trú manns og dýpkað.

Það getur verið mjög gefandi að skiptast á skoðunum við fólk sem efast um sig hvort sem það er trúað eða trúlaust.

Á hinn bóginn finnst mér oft að hægt sé að verja tíma sínum betur en í að rökræða við þau sem eru svo sannfærð í trú sinni eða trúleysi að þau eru hætt að leita og velta fyrir sér tilverunni.

Ég þekki hugsandi trúleysingja. Mikið getur verið gott og gaman að spjalla við þá. Ég þekki líka hugsandi trúmenn. Sjaldan verða umræðurnar dýpri en þegar slíkt fólk er annars vegar.

Þá fer stundum svo að að umræður þagna og menn horfa saman ofan í það hyldýpi, að þeir vita ekki allt og eiga engin svör þótt spurningar brenni á vörum.

Myndina tók ég nýlega hjá Old Sarum við borgina Salisbury á Englandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

"Það þurfa alltaf að vera til miðjur til að skilja heiminn. Finnir þú miðjuna þá öðlast þú helgan frið". (Máltæki).

Spurningin ætti alltaf að vera; að hverskonar "GUÐI" fólk sé að leita að?

1.GUÐ sem setur reglur eins og boðorðin 10 og fordæmir sambönd fólks af sama kyni.

2.Er það einhverskonar guðsmaður sem að faðmar alla, strýkur blýtt um vangann hjá öllum?

3.Er það einhverskonar guðsmaður sem að getur gert kraftaverk og læknað fólk?

4.Guðsmaður sem að réttir þér peninga?

Eða hvað?

http://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/1381770/

Jón Þórhallsson, 26.2.2015 kl. 10:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband