Festuþörf á umbrotatímum

DSC_0056

Þegar forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti nú í vikunni að hann gæfi kost á sér til endurkjörs gaf hann m. a. þá skýringu á þeirri ákvörðun, að enn væri ástandið á Íslandi viðkvæmt og óvissa framundan. Margir hefðu því hvatt hann til framboðs og vísað til reynslu hans og þekkingar. Hvort tveggja væri dýrmætt forseta á slíkum tímum.

Síðan ákvörðun hans varð ljós hefur maður gengið undir manns hönd við að bera brigður á þá skýringu Ólafs Ragnars. Fáir hafa dregið í efa reynslu sitjandi forseta og þekkingu heldur hafa menn efast um þá greiningu hans, að ástandið nú kalli með sérstökum hætti á forseta sem búi yfir slíku.  

Einn þeirra var Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Reykjavík. Hún benti á að festan í stjórnskipuninni eigi að vera í regluverkinu en ekki ákveðnum einstaklingum.

Sú ábending prófessorsins er í sjálfri sér alveg rétt. Eins og hún tók fram  hefur íslensk stjórnskipun að mörgu leyti staðist álag síðustu vikna ágætlega. Lýðræðið hér virkar.

Ég skynja á hinn bóginn mikla þörf fyrir festu hér á landi. Sú festuþörf hefur skapast vegna þess að hér hefur grafið um sig mjög djúpstætt vantraust sem beinist í allar áttir, að öllum helstu stofnunum þjóðfélagsins og atvinnuvegum þótt menn greini á um að hve miklu leyti ástæður þeirrar tortryggni séu raunverulegar.

Í nokkur ár hafa Íslendingar nær daglega heyrt og lesið tíðindi um vanhæfa ríkisstjórn, þjóðþing rúið trausti, fjórflokk í rústum, svikult fjármálakerfi, arðrænandi útgerð, mergsjúgandi bændur, gróðasjúkan ferðabransa, ónýtt heilbrigðiskerfi, spillta dómstóla, mengandi stóriðju, lata listamenn, stórhættulega flóttamenn og fjölmiðla sem gæta hagsmuna auðmanna.

Auk þess hafa Íslendingar mátt heyra þann dóm um sig sjálfa að þeir kunni ekki að kjósa rétt og að þeim sé hlegið vítt og breitt um veröldina. Íslendingum sé því ekki treystandi fyrir forræði í eigin málum.

Þegar við allt ofagreint bættust þær fréttir, að forsætisráðherra landsins hafi orðið uppvís að þvi að reyna að fela auðæfi sín fyrir landsmönnum og myndir af honum flæddu um heimsbyggðina þar sem honum var stillt upp við hliðina á mörgum af helstu hrottum og harðstjórum heimsins var það nú ekki til að fegra sjálfsmynd þjóðarinnar, efla sjálfstraustið eða minnka upplausnina.

Enn voru Íslendingar hafðir að háði og spotti og orðspor þeirra að engu orðið í útlöndum. Eitt fremsta skáld þjóðarinnar skrifaði grein í þýskt stórblað þar sem hann teiknaði upp frekar nöturlega mynd af því iðandi spillingarbæli sem hann telur Ísland vera og hæddist um leið að persónu og útliti nýs forsætisráðherra landsins, svona til að þýska þjóðin fái innsýn í hina málefnalegu þjóðfélagsumræðu sem stunduð er á Íslandi.

Saga mannsins sýnir, að stundum reyna lýðskrumarar og öfgamenn að nýta sér þá festuþörf sem skapast í upplausnarástandi.

Mýmörg dæmi eru líka um að sama tegund fólks sjái sér hag í því að skapa upplausnarástand eða hella olíu á elda þess.

Það eru umbrot á Íslandi og í veröldinni. Að sjálfsögðu geta umbrot verið bæði þörf og góð en ekki er óeðlilegt að í slíkum aðstæðum kvikni þörf fyrir festu. Sú þörf getur svo sannarlega beinst að einstaklingum eins og ótal dæmi eru um í veraldarsögunni.

Myndin: Vorhret


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aztec

Eitt fremsta skáld þjóðarinnar? Ertu að tala um Hallgrím Helgason? Hahahaha!

Kaldhæðni þín er virkilega áþreifanleg, Svavar.

Aztec, 21.4.2016 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband