Fjötrar staðalímynda

DSC_0166

 

Þökk sé morgunútvarpinu á Rás tvö sem minntist nýliðins sjómannadags með viðtali við stýrimanninn Aríel Pétursson. Hann samsvarar að mörgu leyti illa staðalímyndum af sjómönnum. Aríel er t. d.  úr Reykjavík en samkvæmt almennt viðurkenndri staðalímynd situr fólk úr því ágæta plássi helst inni á kaffihúsum sullandi lattei niður á lopatreflana sína. Reyndar kom fram í viðtalinu að stærstu verstöð landsins sé að finna í Reykjavík – enda hef ég hvergi fengið betri plokkfisk en á veitingastaðnum Höfninni við smábátahöfnina þar í borg.

Þegar ég var strákur hlustaði ég oft á óskalög sjómanna. Þátturinn gaf þjóðinni mjög skýra mynd af tónlistarsmekk stéttarinnar. Í viðtali RÚV við Aríel Pétursson kom ekki fram hvort hann hefði dálæti á tónlist sem fullnægir skilyrðum þeirrar staðalímyndar. Hlustendur voru á hinn bóginn upplýstir um að Aríel væri flinkur fiðluleikari eins sennilega og það nú hljómar þegar í hlut eiga stirðir frystitogarajaxlar með fingur eins og SS-pylsur.

Víða leynast staðalímyndirnar og máttur þeirra er mikill. Fleiri en sjómenn búa við það að fólk hefur skýrar hugmyndir um hvernig þeir eigi að vera; um klæðaburð, vaxtarlag, hugsun, orðaforða, lífshætti, drykkjusiði og tónlistarsmekk. Fjölmiðlar eru löðrandi í staðalímyndum. Ótrúlega margar manneskjur eru alveg með það á hreinu hvernig við prestarnir eigum að vera – og ekki nóg með það, prestabörn og prestamakar fá oft mjög afgerandi skilaboð um hvað sé þeim sæmandi og hvað ekki.

Einu sinni þegar heimiliskötturinn var staðinn að verki við að murka líftóruna úr þrastarunga hér fyrir utan raðhúsið missti einn nágranni minn út úr sér – sennilega þó meira í gríni en alvöru: „Og þetta gerir prestskötturinn.“

Vinkona mín vann um tíma á bókasafni í sjávarplássi úti á landi. Það var meðal annars í hennar verkahring að tína til bækur í kistur miklar fyrir frystitogarana þegar þeir fóru í sína löngu túra. Eitt sinn hringdi yfirmaður á einum togaranna á bókasafnið og bar fram óskir um bækur í kistuna handa áhöfn sinni. Bókmenntasmekkur sjómanna reyndist nokkuð fjölbreyttur en höfundar á borð við Alistair Maclean, Desmond Bagley og Sven Hassel voru þó iðulega nefndir í þessu símtali eins og við var að búast. Þegar því var að ljúka og kistan orðin barmafull af bókmenntum kom hinsta óskin eins og þruma ofan í staðalímyndir hins nýútskrifaða bókasafnsfræðings:

„Hurðu, áttu eitthvað eftir Nietzsche?“

Myndina tók ég nýlega af því dásemdarsjávarplássi Þórshöfn á Langanesi. Pistlinum fylgja síðbúnar hamingjuóskir til sjómanna þar og annars staðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Nietzsche boðaði komu OFURMENNISINS!

Það gæti alveg eins átt við James Bond eða annan KRIST.

(það þarf ekki að vera bundið við hitler eða hans stefnu).

----------------------------------------------------------

=Að sá vitrasti ætti að leiða þjóðina.

Jón Þórhallsson, 6.6.2016 kl. 10:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband