Forseti nýrra tíma

DSC_0283

Í forsetakosningunum síðar í mánuðinum eru margir góðir kostir í boði, alls konar fólk úr ýmsum áttum. Lýðræðið stendur í þakkarskuld við það allt því ekki er að öllu leyti álitlegt eða þrautalaust að vera forsetaframbjóðandi á Íslandi.

Frambjóðendur geta búist við að farið verði að gramsa í fortíð þeirra og ýmislegt rifjað upp sem ef til vill hefði betur verið geymt í þeim mikla þarfagrip, glatkistunni. Slíkt grúsk getur haft óþægindi í för með sér en er eðlilegt þegar um er að ræða fólk sem sækist eftir æðsta og virðulegasta embætti þjóðarinnar. Enginn frambjóðandi má vera það heilagur að hann þoli ekki skoðun á fortíð sinni, orðum og gjörðum.

Hitt er líka rétt að lengi hefur verið þjóðarsport á Íslandi að snúa út úr orðum fólks, slíta þau úr samhengi og útleggja á versta veg. Hefur frammistaða helstu afreksmanna í íþróttinni ekki valdið aðdáendum hennar vonbrigðum í aðdraganda þessara forsetakosninga.

Þegar þjóðin velur sér forseta er þó ekki síður mikilvægt að líta til framtíðar en róta í fortíðinni. Nýr forseti er yfirlýsing þjóðarinnar um hvernig hún ætli að ganga til móts við nýja tíma. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrst kvenna í heiminum til að ná kjöri sem þjóðhöfðingi í lýðræðisríki. Íslendingar sendu sjálfum sér og öðrum mikilvæg skilaboð um jafnréttismál þegar þeir kusu hana og gáfu tóninn inn í framtíðina.

Umhverfismál eru eitt stærsta mál samtíðarinnar. Vægi þeirra á eftir að aukast enn því með lífsháttum sínum og umgengni við náttúruna er mannkynið á góðri leið með að gera jörðina óbyggilega.

Ég er þeirrar skoðunar að í komandi forsetakosningum hafi íslenska þjóðin einstakt tækifæri til að sýna hvaða stefnu hún vilji taka inn í framtíðina og senda umheiminum skilaboð um málefni sem er svo brýnt fyrir okkur öll að það er hafið yfir hin hefðbundnu átök á milli stjórnmálaflokka.

Meðal frambjóðenda er gegnheill umhverfissinni sem nýtur virðingar og hefur hlotið viðurkenningar fyrir skrif sín um þau mál, bæði hér heima og erlendis. Með því að kjósa hann erum við Íslendingar að segja okkur sjálfum og umheiminum, að við viljum skila Íslandi til komandi kynslóða ekki síður byggilegu en það var þegar við tókum við því og að íslenska þjóðin ætli að leggja sitt af mörkum til að mannkynið nái sáttum við umhverfi sitt, loft, láð og lög.

Ég ætla að byrja framtíðina með því að kjósa Andra Snæ Magnason.

(Grein þessi birtist  fyrst í Morgunblaðinu 14. 6. 2016)

Myndin er tekin í Kjarnaskógi norður yfir Akureyri og út Eyjafjörð með gamla og trausta útvörðinn Kaldbak í fjarðarkjafti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Ég hélt í upphafi lesturs þessarar ágætu greinar (til að byrja með), þá myndi hún ekki hrynja til grunna þegar þú varst í raun að smjaðra og endaðir á að auglýsa lævíslega ÞINN frambjóðanda. - Þetta kennir manni að oft eru fyriheitin fölsk.- "Forseti nýrra tíma..." er nefnilega nærsti forseti, hver sem hann er.

Már Elíson, 15.6.2016 kl. 22:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband