Tveir veitingastaðir og kaffihús

DSC_0287

Þungur straumur túrhesta til Íslands veldur vandræðum. Þessa dagana er vinsælt meðal Íslendinga að láta stússið í kringum ferðafólkið fara í taugarnar á sér – enda vandfundin sú atvinnugrein hér á landi sem ekki er á milli tannanna á fólki hvort sem um er að ræða sjávarútveg, landbúnað, verslunarrekstur, ferðamennsku eða stóriðju.

Meira að segja strangheiðarlegir sundlaugarverðir fá sinn skammt af ónotum og aðfinnslum fyrir þá óskammfeilni að reka fólk úr fötunum og í sturtu áður en það stingur sér til sunds í laugunum eða sest í heitu pottana.

Þótt deila megi um hversu marga ferðamenn landið þoli njóta landsmenn með ýmsum hætti góðs af heimsóknum þeirra hingað upp. Nú er til dæmis fádæma gróska í rekstri veitingastaða. Þessa vikuna hef ég heimsótt þrjá slíka sem eiga það sammerkt að vera á heimsmælikvarða.

Fyrstan tel ég Tjöruhúsið á Ísafirði. Þar er boðið upp á spriklandi nýjan fisk sem reiddur er fram í rjúkandi pönnum. Er steikt án afláts ofan í gesti og boðið upp á það sem bátar í nágrenninu fiska þann daginn, steinbít, þorsk, ýsu, kola og lúðu, svo nokkuð sé nefnt. Allt er þetta sælgæti og hvorki sparaður rjóminn né smjörið. Kvöldið sem við snæddum á Tjöruhúsinu stóð Jóhann nokkur Hauksson við eldavélina. Eldamennska hans var ekki síðri en blaðamennskan og hefur hann þó unnið til viðurkenninga fyrir það síðarnefnda.

Á leiðinni heim frá Ísafirði stoppuðum við í Litlabæ í Skötufirði. Bærinn var reistur 1895 af tveimur vinafjölskyldum. Mynd af honum prýðir þessa færslu. Þegar mest var voru yfir tuttugu mannstil heimilis í Litlabæ þótt húsið sé ekki nema rétt rúmir þrjátíu fermetrar að grunnfleti. Bæjarheitið er því réttnefni. Var búið þar til ársins 1969. Þrjátíu árum síðar var hafist handa við að gera við bæinn en þá komst hann í umsjá Þjóðminjasafnsins. Nú er Litlibær skemmtilegt og fróðlegt safn. Þar er hægt að kaupa sér kaffi og nýbakaðar vöfflur. Þær eru frambornar með stífþeyttum rjóma og sultutaui úr tröllasúrum og bláberjum. Vinalegur hundur liggur fyrir bæjardyrum og haggast ekki þótt ferðalangar þrammi að á gönguskóm sínum. Eiga þeir ekki um annað að ræða en að klofast yfir seppa.

Þriðja veitingastaðinn heimsótti ég nú í hádeginu. Sá er hér á Akureyri og heitir því óþjála nafni Rub23. Akureyringar tala gjarnan um að fara á Röbbið. Virka daga er þar í boði hádegishlaðborð sem kostar ekki nema tæpar 3.000 krónur á mann. Fyrir þær fær maður sannkallaða veislu. Röbbið er þekkt fyrir alveg fádæma ljúffengt sushi. Það er meðal kræsinga á hlaðborðinu, en einnig bláskel, lax, silungur og allskonar annað hnossgæti sem allt smakkaðist unaðslega.

Ég fagna sívaxandi úrvali veitingastaða á Íslandi og gef Tjöruhúsinu á Ísafirði, Rub23 á Akureyri og Litlabæ í Skötufirði mín bestu meðmæli.

Myndin er af Litlabæ í Skötufirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband