Lýðræði og heiðarleiki?

DSC_0059

Færsla mín í fyrradag þar sem ég birti svar Evrópusambandsins við spurningu minni um aðildarferlið vakti töluverða athygli. Margir lásu hana og höfðu sumir ýmislegt við hana að athuga. Ég þakka viðbrögðin og áhugann.

Nú langar mig að hugleiða svarið.

Í umræðunni hér á landi hef ég stundum undrast hvað margir af stuðningsmönnum aðildar að ESB kunna illa að meta skýringar ESB á aðildarferlinu, draga í efa að þær séu réttar og telja sig jafnvel vita betur en sambandið hvernig gerast eigi aðili að því.

Eitt af því sem einkennt hefur umræðuna fyrir komandi kosningar er spurningin um trúverðugleika stjórnmálamanna. Sú umræða var þörf og ekki tilefnislaus.

Sumir íslenskir stjórnmálamenn hafa gefið í skyn, að með því að sækja um aðild að ESB sé einungis verið að kanna hvað sé þar í boði fyrir Ísland. Einarðlega hefur því hefur verið haldið fram, að þjóðin geti ómögulega tekið afstöðu til aðildar nema fyrir liggi aðildarsamningur.

Ég set tvö stór spurningamerki við þær fullyrðingar.

Í fyrsta lagi starfa hér bæði stjórnmálaflokkar og samtök, sem vilja að Ísland gerist aðili að ESB. Þeim hefur einhvern veginn tekist að mynda sér skoðun á aðild án þess að samningur um aðild hafi verið gerður.

Af hverju ættu aðrir ekki að geta það líka?

Í öðru lagi snúast aðildarviðræður við ESB ekki um að skoða hvað sé í boði eins og fram kemur í svarinu frá sambandinu sem ég birti í gær. Aðildarviðræður við ESB felast í því að komast að samkomulagi um hvernig og hvenær umsóknarríkið lögleiði og hrindi í framkvæmd lagabálki ESB. Í svarinu er skýrt kveðið á um að sá lagabálkur sé sem slíkur óumsemjanlegur.

Ég leyfi mér að efast um að heiðarlegt sé af íslenskum stjórnmálamönnum að segja að með því að sækja um aðild að ESB sé einungis verið að skoða í pakkann, svo notaður sé gamall frasi. Fyrir liggur hvað í þeim pakka er að finna; allan lagabálk Evrópusambandsins, heilar 100.000 síður, sem sambandið sjálft hefur margítrekað að sé ekki hægt að semja um.

Hinar svonefndu samningaviðræður um aðild að ESB – sem sambandið hefur bent á að geti verið villandi heiti á aðildarferlinu – eru ekki könnunarviðræður. ESB lítur þannig á að ríki sem sækir um aðild að ESB vilji ganga í sambandið. Viðræðurnar hafa þess vegna aðild að sameiginlegu markmiði.

Framgangur og lyktir aðildarviðræðnanna velta á því hversu vel umsóknarríkinu gengur að taka upp hinn óumsemjanlega lagabálk ESB og laga stjórnkerfi sitt að kröfum sambandsins. Þess vegna er ekki út í hött að tala um aðildarferlið sem aðlögun. Þótt það sé hálfgert bannorð í vissum kreðsum á Íslandi reynir Evrópusambandið ekki að fela þann hluta ferlisins. Sambandið býður meira að segja umsóknarríkjum aðstoð við aðlögunina og það mikilvæga verkefni að glæða skilning almennings á henni.

Takist að selja landsmönnum þá hugmynd, að aðildarviðræður við ESB séu einungis skoðunarferð gæti farið svo, að Ísland hefji á ný aðildarferli að sambandi sem meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í, undir því yfirskyni að verið sé að semja um það sem er óumsemjanlegt.

Það hlýtur að vera hvort tveggja lýðræðislegt og heiðarlegt, er það ekki?

Myndin er af haustsól í Ólafsfirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Kærar þakkir fyrir þessa tvo síðustu pistla. Undarlegt hve illa gengur að upplýsa landslýð um raunveruleikann, þega kemur að "kíkja í pakkann"ruglið.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 28.10.2016 kl. 00:34

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

 Í þessu máli er ekki verið að kljást við landslýð Halldór Egill, heldur óvenju óforskammaða alþingismenn og þeirra áhangendur sem dyggilega eru studdir af óþjóðhollu RUV og nokkrum vangefnum álitsgjöfum þess, sem titla sig háskólamenn. 

Þó er hér nokkur vansmíð á og það þarf að hækka kosningaaldur, því nútíma unglingar eru svo vanþroskaðir að þeim finnst miklu meira spennandi að vera í sjóræningjaleik með vælukjóanum Birgittu heldur en að sinna alvöru verkum. 

Þakka þér tækifærið, Svavar Alfreð.

Hrólfur Þ Hraundal, 28.10.2016 kl. 08:33

3 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Heilar þakkir séra minn. Báðar greinar þínar um téð efni eru mjög upplýsandi og ættu að vera skyldulesning fyrir þá sem halda að um skoðunarferð sé að ræða þegar kemur að umsókn um ESB-aðild.

Það vekur furðu hversu stjórnmálamönnum, vísvitandi eða óafvitandi, hefur tekist að blekkja marga með -kíkja í pakkann- áróðrinum, en ég tel að þessir sömu stjórnmálamenn viti nákvæmlega sjálfir að það eru blekkingar einar.

Nú var vinstri stjórnin sáluga búin að vera að kíkja í pakkann alllengi, en aldrei fengum við að vita hvað þau sáu í pakkanum, hvorki gott né slæmt. Hvernig ætli standi á því? Ætli pakkinn hafi verið tómur eða var ekkert áhugavert að sjá í honum fyrir okkur landsmenn?

Tómas Ibsen Halldórsson, 28.10.2016 kl. 10:17

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þetta hefur legið fyrir lengi að það séu engir samningar og þetta svar sem þú fékkst er raunar að finna í glansbæklingi um inngöngu í sambandið.

Það er allt klabbið tekið upp en þó hægt að semja um hve langan frest men hafa til aðlögunarinnar á hinu og þessu. Það eru tímabundin ákvæði eða frestur til aðlögunnar.

Þetta hefur Samfylkingin selt sem undanþágur, sem er alrangt og viljandi blekking.

Ef við förum þetta ferli, þá er hætta á að hægt verði að blekkja þjóðina til að samþykkja inngönguna með því að segja að það sem verður samþykkt sé samningurinn og hitt og þetta á serkjörum. Þ.á.m. Framsal fullveldis í ýmsum málum.

Það blasir annars við nú að hvorki gamla né nýja stjórnarskráin leyfir framsal ríkisvalds. Á meðan svo er, eru það hrein landráð að opna kafla er framsal varða, hvað þá loka þeim með timabundnu samþykki um frestun.

Þessvegna er nú ennþá þessi hasar um stjórnarskránna. Mál sem er í raun sama mál og umsóknin og á sér uppruna í byrjun árs 2009 þegar ákveðið var að "sækja um".

Er ansi oft búinn að pósta eftirfarandi link á upphaf stjórnarskrármálsins.

http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

Þær fyrirætlanir sem voru þarna á lofti voru að breyta þessum nauðsynlegu framsalsákvæðum og varnöglum, senda þingið heim og kjósa strax aftur til að svindla sér framhjá fyrirvörunm um stjórnarskrárbreytingar. Þ.e.a.s. með klækjum. 

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2016 kl. 11:26

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

http://prakkarinn.blog.is/blog/prakkarinn/entry/2178138/

Hér fjalla ég nánar um þessi órjúfanlegu tengsl stjornarskrármálsins og umsóknarinnar, bæði í hraðferð í pistli sem og i svörum í athugasemdum.

Ástæðan fyrir að ekki tókst að breyta stjórnarskrá áður eða samhliða umsókninni voru einfaldlega þær að Framsóknarflokkurinn stöðvaði óðagotið með því að setja skilirði fyrir stuðningi þess efnis að sett yrði Stjórnlagaþing til að meta þessi mál. Þannig fór forgangurinn forgörðum. Það þarf nefnilega að breyta stjórnarskránni og leyfa framsal áður en lengra var haldið. Það var ekki gert hlé. Það var sjálfhætt þegar Feneyjarnefndin gaf stjórnarskrárdrögunum dauðadóm í áliti 2013. M.a. vegna of margra fyrirvara um framsal ríkisvalds.

Blekkingaspilið er dýpra og víðtækara en margir halda á yfirborðinu. Í hugum flestra eru þessi mál enn aðskilin. Það þarf að leiðrétta og hrópa af fjallstindum.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.11.2016 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband