Óvinir ESB og karlakóra

DSC_0116

Enn er fólk að bregðast við svari ESB við spurningu minni um eðli aðildarviðræðna við sambandið.

Að sjálfsögðu ber engum skylda til að taka mark á því svari en að gefnu tilefni skal áréttað, að svarið er frá ESB en ekki mín kenning:

Ríki sem vilja fá aðild að ESB verða að taka upp allan lagabálk sambandsins. Um hann sem slíkan er ekki hægt að semja. Aðildarviðræður snúast um hvernig og hvenær umsóknarríkin taka upp lög og reglur ESB og hrinda þeim framkvæmd.

Þannig kýs ESB að lýsa aðildarferlinu en það hefur vakið athygli mína að sumir þeirra sem mestan áhuga hafa á að Ísland gangi í ESB sjá sérstaka ástæðu til að efast um að sambandið svari rétt um ferli aðildar að sér sjálfu.

Það eru mjög einkennilegar aðstæður, þegar hvatt er til atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB en því jafnframt haldið fram, að þeir sem taka eiga þátt í þeirri atkvæðagreiðslu geti ekki treyst upplýsingum frá ESB.

Þó að einhverjir telji sig vita betur en ESB hvernig gengið sé í sambandið hlýtur það að eiga fullt erindi í umræðuna hér hvernig sambandið skilgreinir aðildarferlið.

Þegar rætt er um að ljúka eigi aðildarviðræðum Íslands og ESB má benda á að þær viðræður eiga sér ramma.

Eigi að taka upp viðræðurnar aftur sem einhvers konar könnunarviðræður gætu kviknað efasemdir um að það sé innan gildandi viðræðuramma. Þar kemur skýrt fram að markmið viðræðnanna sé aðild og að Ísland verði að innleiða og hrinda í framkvæmd lagabálki ESB – sem er í fullu samræmi við hið umrædda svar ESB sem ég birti hér á bloggi mínu.

Styttra er til Reykjavíkur en Brüssel en um leið er oft óþægilega stutt á milli manna í íslenska fámenninu. Umræðan um hvort Íslands eigi að ganga í ESB ætti að fjalla um þessa og aðra kosti og galla aðildar því það liggur fyrir í öllum megindráttum hvað í henni felst, alla vega ef menn telja óhætt að treysta því sem ESB segir sjálft um hana.

Ég er þeirrar skoðunar að eins og er mæli fleira gegn aðild Íslands að ESB en með henni. Það gæti þó hæglega breyst þegar fram líða stundir.

Í umræðunni hér á landi hafa þeir sem setja fram efasemdir um aðild að ESB stundum verið kallaðir andstæðingar sambandsins. Ég frábið mér slíkan stimpil.

Þaðan af síður get ég samþykkt að ég sé óvinur Evrópu eða einangrunarsinni illa haldinn af þjóðrembu, andvígur alþjóðlegu samstarfi og í nöp við útlendinga og allt sem útlenskt er - ekki síst útlensk matvæli.

Nýlega spurði ég vin minn hvort hann væri ekki til í að koma í karlakórinn. Ekki hugnaðist honum það.

Ætli þessi vinur minn sé þá andstæðingur kórsins míns? Ætli honum sé í nöp við söng? Gæti verið að honum sé hreinlega illa við menningarstarf og hafi skömm á listamönnum?

Vel má vera að einhverjir vilji ekki ganga í kóra vegna þess að þeim er illa við söng og menningu.

Það kæmi mér þó mjög á óvart ef fólk með slík viðhorf væri fjölmennari hópur en kjósendur Íslensku þjóðfylkingarinnar.

Myndin: Haustkvöld við Eyjafjarðará


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er vitað mál, að ESB-sinnar, ekki einungis á Íslandi eru kolruglaðir og halda að ESB sé sama og Evrópa. Þeir vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga, því að þeir eru ætíð í mótsögn við sjálfa sig eins og þú réttilega bendir á.

Pétur D. (IP-tala skráð) 7.11.2016 kl. 03:05

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Tvísögli aðildarsinna er, eins og þú bendir á, undarleg. Í hvert sinn sem svarið ekki hentar, er nánast öllu snúið á hvolf. Ákveðin og kristalskýr svör ESB, við spurningum þínum, taka af allan vafa, en samt hamra aðildarsinnar á því að taka á ný upp viðræðurnar, þar sem frá var horfið og áfram skuli "kíkt í pakkann". Pakka þar sem ekkert er umsemjanlegt. Það að svörin frá ESB séu bara bull, er ekki hægt að túlka öðruvísi en svo, að þeir sem svo mæla, séu búnir að mála sig út í horn í umræðunni. Það er sjálfsagt mál að kjósa um þetta málefni, en að spyrja hvort áfram "skuli kíkt í pakkann" og halda áfram, þar sem frá var horfið, er bilun. Það er einungis ein spurning sem spyrja þarf.:

 Viltu að Ísland gangi í ESB? Tvö svör í boði.: Já eða Nei.

 Klára þetta déskotans mál, svo hægt sé að huga að innviðunum í friði og helst án afskipta blýantsnagara og reglugerðarskrímsla í Brussel.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.11.2016 kl. 03:21

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það að kalla fólk, þjóðrembur, útlendingahatara, einangrunarsinna og þaðan af verra fyrir að hafa þá grunduðunsannfæringu að ísland eigi ekki erindi í ESB, er þöggunartaktík rökþrota fólks. Slíkt er ekki samræða heldur skítkast og nafnaköll, gersneytt mótrökum og rökræðu um það sem um er rætt.

Rati þessir aðilar hér inn, má bjóða þeim að lesa glansbækling ESB, sem heitir understanding enlargement og hefur legið frammi frá upphafi þessa ferlis okkar. 

Auvitað hefur þessum bæklingi ekki verið flaggað, enda læðast menn með veggjum og tipla í kringum staðreyndirnar. 

Her er hlekkur á glansbæklinginn.

http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/key_documents/2007/understanding_enlargement_102007_en.pdf

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2016 kl. 09:14

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Heill og sæll Sr.Svavar.

Þú dregur upp mjög skíra mynd og skilmerkilega af því hvað í umsókn að ESB felst. Óskandi væri að aðildarsinnar sæju þetta á jafn skýran hátt, en margir þeirra telja sig, eins og þú bendir réttilega á, hafa meiri og betri skilning en sjálft Evrópusambandið.

Ég segi eins og þú að þó ég hafi ekki áhuga á og sé ekki hag okkar innan ESB þá er ég ekkert á móti Evrópu eða því sem Evrópskt er, en því miður vilja margir setja í samhengi það sem ekki á við.

Ég tek undir með Halldóri að spurningin er og á að vera hvort við viljum ganga í ESB eður ei, já eða nei. Allt annað er útúrsnúningur og leið til að afvegaleiða fólk.

Tómas Ibsen Halldórsson, 7.11.2016 kl. 11:07

5 identicon

Sæll Svavar, finnst þér rétt að sóknarprestur sé að skipta sér af svona hápólitísku máli eins og ESB málið er, og jafnvel að taka vissa afstöðu með öðru liðinu..?

Þú væntanlega gerir þér grein fyrir því að þjóðin skiptist í tvær fylkingar í þessu máli. Ég held að á Þessum tímum sundrungar og óeiningar hjá þjóðinni, þá sé það einmitt hlutverk sóknarpresta þessa lands að slá á óeininguna og boða fagnaðarerindið og friðarboðskap biblíunnar.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 7.11.2016 kl. 14:18

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Helgi! Sem betur fer njóta prestar skoðana- og tjáningarfrelsis eins og aðrir borgarar þótt því frelsi fylgi auðvitað ábyrgð. Hvort sem fólk er fylgjandi aðild eða ekki finnst mér mikilvægt að fólk byggi afstöðu sína á réttum upplýsingum, m . a. um eðli aðildarviðræðnanna, en misvísandi upplýsingar hafa verið um það í umræðunni hér á landi. Ég hallast að því að óhætt sé að trúa upplýsingum frá ESB um það mál.

Svavar Alfreð Jónsson, 7.11.2016 kl. 15:29

7 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Það er einmitt svona sem aðildarsinnar gera, hjóla í þann sem fellur ekki að pólitískum rétttrúnaði þeirra og hræða þá til hlýðni. Þakka þér Helgi Jónsson fyrir að koma með gott dæmi um vinnubrögð ESB-sinna. Þú stóðst prófið hjá félögum þínum en féllst í prófi hins hugsandi Íslendings.

Tómas Ibsen Halldórsson, 7.11.2016 kl. 16:19

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Helgi áttu við að það séu tvær fylkingar sem skiptast 30/70? Eigum við ekki frekar að segja að 2/3 þjóðarinnar hafnar inngöngu í sambandið. 

Þú stenst þöggunartaktíkurtestið ágætlega eins og bent er á hér að ofan. Skemmtilegt innleg einmitt vegna þess að greinin fjallar einmitt um það.

Þótt Svavar sé prestur þá meinaðr það honum ekki að hafa skoðun á málinu frekar en að starfsmaður landmælinga hafi það. Hann er ekki málsvari þjóðkirkjunnar hér heldur hver annar þegn.

Hann er einfaldlega að kalla á upplýsta umræðu, svo fólk geti myndað sér skoðanir. Hann hefur sjálfur lagt mikið á sig að afla réttra upplýsinga. Einkennilegt að þér þyki það miður og beitir svona taktík til að koma í veg fyrir að fólk sé upplýst.

Komsu nú með í umræðuna og segðu okkur hvort Svavar hefur rétt fyrir sér eða ekki með rökstuðningi og tilvísunum. Samræða, þú skilur....skoðanaskipti...niðurstaða.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2016 kl. 17:25

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Svavar hefur skýrt vel út að það að kjósa um að fara í aðildarviðræður við ESB, jafngildi því að kjósa að ganga í ESB, ef meirihluti myndi kjósa að fara í aðildarviðræður - afsakið - kjósa að ganga í ESB, væri réttara að segja.

Þessi tillaga um tvöfalda kosningu, fyrst um að hefja (eða halda áfram) aðildaviðræðum og síðan að kjósa um samninginn við ESB, er því bara blekking. Jafn tilgangslaust og að kjósa um hvort jörðin sé flöt eða vatn sé blautt.

Við, 375 þúsund manna þjóð, getum ekki kosið um hvaða lög í 300+ milljón manna bandalagi, ESB, eru sett. Við getum bara kosið um lög í okkar eigin landi, en aftur á móti munu íbúar í ESB (300+ milljónir) geta kosið um hvernig lög eru sett hjá okkur, ef við kjósum að ganga í ESB.

Við munum þá ekkert hafa að segja um hvernig okkar eigin lög eiga að vera, nema kannski eini fulltrúi okkar geti rifið kjaft við hina 999 (eða hvað það er) fulltrúana frá hinum löndunum.

Það er fásinna að halda því fram að við getum eitthvað stýrt Brüssel, þegar Bretland, stórveldi sem réði öllum heiminum fyrir rúmum hundrað árum, getur það ekki og sér enga aðra leið en að yfirgefa ESB-svartholið í þeirri von að hafa eitthvað um sín eigin innanríkismál að segja og sökkva ekki með því.

Theódór Norðkvist, 7.11.2016 kl. 21:37

10 identicon

Takk fyrir Theódór/Jón Steinar/Tómas fyrir að undirstrika hversu hápólitískur þessi pistill er hjá prestinum...ég vil bara segja þetta...trúmál og pólitík fara engan vegin saman.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 9.11.2016 kl. 10:43

11 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Sæll, Helgi! Að sjálfsögðu er aðild að ESB pólitískt mál - þótt málið sé ekki flokkspólitískt því afstaðan til aðildar fer ekki eftir flokkslínum. Ég á erfiaðara með að sjá eitthvað trúarlegt við afstöðuna til aðildar. Finnst þér eitthvað trúarlegt í þessu umrædda svari ESB eða í spurningu minni og vangaveltum?

Svavar Alfreð Jónsson, 9.11.2016 kl. 11:09

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Undarlegt er svartnættisröfl Helga Jónssonar. Grípur á lofti að gera umræðuna trúarbragðatengda og þar með ótæka, að hans hálfu. Má enginn hafa skoðun á málefnum?  Aðildarsinnar þola ekki umræðuna. Þar skal öllum meðölum til tjaldað. Upplýst umræða er bönnuð. Búið að leggja línurnar og ekki orð um það meir. Hvort sem þú ert prestur eða sendill, lokaðu á þér þverrifunni! Rannsóknarrétturinn hefur mælt og allir sem ekki sammælast skulu annaðhvort grýttir, eða mannorð sitt missa. Ekki það að ég ætli að munnhöggvast frekar við Helga, en fyrirspurn Svavars og svarið sem barst, getur varla velkst fyrir nokkrum hugsandi manni, nema hann sé í afneitun.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.11.2016 kl. 06:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband