Ammæli

DSC_0470

Elstu raðhús Akureyrar standa í þokkafullri fylkingu á svæði sem afmarkast af Mýrarvegi, Norðurbyggð, Byggðavegi og Vanabyggð. Það fyrsta var reist árið 1958 og því fagnar þessi byggð 60 ára afmæli á næsta ári. Síðustu tæpu tvo áratugina höfum við hjónin átt heima í einu þessara húsa og ólum þar upp börnin okkar þrjú. Við vitum að uppblásin blaðra á útidyrum eða handriði við einhverja íbúðina þýðir mjög sennilega að eitt af fjölmörgum barnanna í húsunum eigi afmæli.

Í morgun þegar ég var kominn á lappir rak ég augun í þannig blöðru og ég fór að rifja upp allar blöðrurnar sem við hjónin höfum fest á okkar útidyr í gegnum tíðina, að jafnaði þrisvar á ári, í maí, júní og nóvember. Margar eru þær orðnar pítsurnar sem þá voru sóttar, goslítrarnir sem búið er að hella í plastglös og skúffukökurnar sem við höfum sneitt niður á diska af mun meiri sanngirni en þjóðarkökunni er skipt. Ég man vel eftir eftirvæntingarfullu augnaráði veislugesta á tröppunum þegar afmælisbarnið lauk upp útidyrum og brosinu á því þegar það fékk pakkann sinn. Enn glymja í eyrum mínum hlátrarnir og hrópin í leikjunum sem var farið í á þessum dýrðardögum enda var venjan að vara nágrannana í næstu íbúðum við væntanlegum glumrugangi.

Það mæltist líka mjög vel fyrir þegar ég mætti með gítarinn í veislurnar, hóf upp raust mína og tók nokkra vel valda sunnudagaskólasöngva með krökkunum sem létu sitt ekki eftir liggja í söngnum. Þetta hafði ég stundað um árabil þegar upp rann enn einn afmælisdagur dóttur minnar. Ég var seinn fyrir og veislan var byrjuð svo ég sótti gítarinn í skyndi og geystist með hann glaðbeittur inn í stofu. Unglingsstúlkurnar sem þar sátu settu upp mikinn undrunarsvip og ásakandi augnaráð afmælisbarnsins sagði mér að nú væri þessum kafla í tónleikasögu heimilisföðurins lokið.

Tími barnaafmælanna er liðinn í okkar íbúð, alla vega í bili, en ég óska afmælisbörnum dagsins í íbúðum og húsum nær og fjær innilega til hamingju með daginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband