Liljur vallarins og græðgin

lily_valleyLengi hefur græðgin verið ofarlega á lastaskrám kristninnar. Hún er á topp sjö listanum yfir svonefndar dauðasyndir.

Nútíminn hefur á hinn bóginn gert græðgina að dyggð. Þar er hún talinn drifkraftur almennra hagsbóta - gjarnan uppdubbuð í búning svonefndrar "skynsamlegrar sjálfselsku". Afleiðingar þess láta ekki á sér standa. Þeir ríku verða sífellt ríkari hvort sem um er að ræða einstaklinga eða þjóðir. Það hriktir í stoðum velferðarkerfanna. Sjálft vistkerfið er að gefa sig. Það þolir ekki þá endalausu neysluaukningu sem hagkerfi græðginnar hvetur til.

Öflugustu andstæðingar græðginnar eru þakklætið og trúin.

Dyggustu samherjar græðginnar eru á hinn bóginn vanþakklætið og vantrúin.

Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag. Allt stendur og fellur með því sem við gerum, árangrinum sem við náum og sigrunum sem við vinnum. Þetta skapar þann ómanneskjulega heim sem við þekkjum. Þar er lögmál frumskógarins í gildi og þess vegna nauðsynlegt að olnboga sig í gegnum lífið. Sá sterki mun sigra. Og sterkur er sá sem getur reitt sig á eiginn mátt og megin.

Vanþakklætið lýsir sér í því að við gerum okkur ekki grein fyrir því að okkur er svo ótalmargt gefið. Vanþakklætið er að telja sig ekki hafa þegið neitt af neinum og því engum skuldbundinn. Sá vanþakkláti er ekki upp á aðra kominn að neinu leyti.

Þakklátur er sá sem finnur að hann á ekki heimtingu á neinu - en fær engu að síður dýrar gjafir. Þakklátur er sá sem veit að ekkert er sjálfsagt eða sjálfgefið.

Trúin er síðan þetta andartak þegar ég finn að ég er háður Guði og það er allt í lagi. Hönd hans er sterk, faðmur hans víður og hann mun annast mig, því ég er barnið hans, sama hvað gerist, í ljósi og myrkri, í lífi og dauða.

"Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Takk fyrir þetta. Gott að lesa.

Jóna Á. Gísladóttir, 8.6.2007 kl. 01:13

2 identicon

Það er áhugavert þegar prestar Þjóðkirkjunnar tala um græðgi, þetta hálaunafólk. Hvað um öll auðæfi Þjóðkirkjunnar - hvað um allar jarðirnar sem þessi kirkja eignaðist með vafasömum hætti? Hvað um alla milljarðana sem kirkjan fær frá ríkinu í skiptum fyrir þessar jarðir. Nei, hér kasta menn grjótum úr glerhúsi.

Já, hyggið að liljum vallarins

Dyggustu samherjar græðginnar eru á hinn bóginn vanþakklætið og vantrúin. Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag.
Hér þykir mér ógurlega lágt lagst.

Dyggustu samherjar græðginnar síðustu aldir hafa verið kirkjan í evrópu. Svavar veit það sjálfur og mun rölta um gullskreyttar kirkjur Ítalu bráðlega - hvað mun hann sjá þar annað en græðgi?

Matthías Ásgeirsson (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 10:49

3 identicon

Komdu sæll Svavar,

Hefur þú eitthvað fyrir þér í því að þeir sem ekki treysta guði séu almennt gráðugri en þeir sem honum treysta?  Ég verð afskaplega dapur þegar ég sé órökstuddar tengingar milli vantrúar og lasta mannsins. Með þeim er gefið í skyn að siðferði trúleysingja sé á lægra plani en þeirra sem trúa. Telur þú ef til vill að svo sé?

Kveðja,

Sigurður Örn Stefánsson (fermingarárgangur 1996) 

Sigurður Örn Stefánsson (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 12:40

4 Smámynd: Púkinn

Púkinn efast nú um að eitthvað samband sé milli græðgi og trúleysis - ag kirkjan hefur nú verið dugleg að safna eignum gegnum tíðina - átti stóran hluta Íslands um siðaskiptin - þar var sæmileg græðgi á ferðinni.

Púkinn, 8.6.2007 kl. 14:25

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Hvað telur Matthías að ég megi hafa lítið í laun til að mega tjá mig um græðgina?

Ég ætla rétt að vona að ég sjái eitthvað annað en græðgi þegar ég kíki inn í kirkjurnar á Ítalíu - en ég útiloka ekki að ég muni sjá hana þar líka. Græðgin gerir nefnilega víða vart við sig. Þjóðkirkjan er langt frá því saklaus af henni -hvað þá ég sjálfur.

Þarf einhvern snilling til að sjá að trúaður maður telur vantrú óæskilega? Ég tala hér sem trúuð manneskja, ef ég má kalla mig slíka. Tengingarnar milli vantrúar og græðgi eru rökstuddar í færslunni, frá sjónarhóli trúaðs manns. Ekki geri ég kröfu um að allir séu á sama máli og ég, allra síst trúleysingjar, sem ég minntist reyndar ekki á í þessari færslu.

Siðferði trúleysingja er ekkert endilega á lægra plani en þess trúaða en ef til vill á öðru. Trúleysingjar geta verið ósköp vel dannaðir, Guði sé lof. Trúaðir menn geta líka verið óttalegir ruddar.

Öfgafólk til beggja átta fer í taugarnar á mér og ég er óttalega latur við rök- og samræður við þess konar fólk. Þess vegna þykir mér leiðinlegt þegar bloggið mitt er notað til tenginga inn á öfgafullar vefsíður sem hafa að geyma rangfærslur og svívirðingar um trú mína og nafngreinda kollega mína. Bið ég menn að auglýsa fordóma og öfgar á öðrum stöðum.

Hvers á svo vanþakklætið að gjalda? Hvers vegna tekur enginn málstað þess? Hvenær verða Samtök vanþakklátra að veruleika?

Svavar Alfreð Jónsson, 8.6.2007 kl. 21:28

6 identicon

Sæll Svavar

Ég átti leið í kirkju þína fyrir stuttu því að ung dóttir mín hafði áhuga á því að vita hvernig jarðaför færi fram eftir að aldraður frændi hennar var jarðaður.

Þegar við kíktum inn í kirkjuna þó hittum við þar fyrir kirkjuvörð Akureyrarkirkju sem sótti handa dótturinni bók sem heitir Kata og Óli fara í kirkju og bauð henni hana. Ég sagði honum að við værum ekki kristinnar trúar og útskýrði hvers vegna við værum komin þarna. Við þáðum samt bókina þar sem dóttirin hefur alla jafna mikinn áhuga á því að skilja alla hluti.

Við lestur á bókinni þá sagði ég henni frá því að þegar ég hefði verið lítil þá hefði mamma mín setið stundum hjá mér og farið með bænina Ó jesú bróðir besti. Í minningunni er þetta gæðastund, en ekki vegna bænarinnar sjálfrar eða þeirrar hugmyndar sem ég hafði á þessum árum að Jesú héldi í höndina á mér og gætti mín heldur þeirrar staðreyndar að mamma hélt yfirleitt í höndina á mér á þessum stundum og gaf sér tíma fyrir mig fyrir svefninn eftir annansaman dag. Ég hafði þörf fyrir móður mína á þessum árum og hefði gjarnan viljað að sama áhersla hefði verið lögð á samband mitt við hana eins og samfélagið lagði á samband mitt við guð. Seinna var það mamma sem stóð með mér þegar á reyndi, ekki guð.

Sjálf sit ég hjá börnum mínum á kvöldin og ræði við þau um daginn, hvað var gott og hvað var síðra og eru þetta mjög dýrmætar stundir og styrkja tengsl okkar.

Ég spurði dótturina sem er nýorðin fjögurra ára hver hún héldi að passaði hana ef hún tryði ekki á guð. Hún var með það á hreinu að mamma hennar ætlaði sér að passa hana. Ég spurði hana þá hver myndi passa hana ef móðir hennar væri veik eða myndi einhvern tímann ekki ná að passa nógu vel upp á hana. Hún vissi það ekki þannig að ég sagði henni að nú væri hún að verða svo stór og klár stúlka að hún gæti farið að passa sig sjálf þegar á reyndi þó að fjölskylda hennar ætti óvéfengjanlega að vera stoð hennar og stytta á meðan hún væri þetta ung og ætti svona margt ólært. Ég sagði henni líka að þó að hún yxi úr grasi og kæmist í fullorðinna manna tölu og væri orðin fullfær um það að hugsa um sig sjálf þá yrði ég áfram til staðar fyrir hana ef hún vildi.

Ekkert er mér mikilvægara en fjölskyldan og að fólk, hvort sem það tilheyrir blóðfjölskyldu minni eða komi inn í líf mitt til lengri eða skemmri tíma, átti sig á því að með því að búa í stóru samfélagi þá berum við samfélagslega ábyrgð gagnvart hvort öðru. Við þurfum að styðja hvort annað til að geta skapað það samfélag sem ég vil búa í.

Þú segir að það að treysta á sjálfan sig verði þess valdandi að ég og börnin mín lokum augunum fyrir því að rétta náunganum hjálparhönd, líklegast af því að ef við getum treyst á sjálf okkur þá ættum við að þínu mati að vera það sterk að við þurfum ekki á hjálp annarra að halda. Reynsla mín er bara allt önnur. Það er mér algjörlega nauðsynlegt að hafa trú á sjálfri mér og getu minni og ég finn að það gerir mig að mjög sterkri persónu en þeir sem til mín þekkja geta sagt þér að ég geri miklar kröfur til mín, jafnt siðferðislegar sem öðruvísi, og að ég trúi því að til að til þess að ég jafnt sem aðrir getum orðið þau bestu sem við viljum eða getum orðið þá þurfum við að vera til staðar fyrir hvort annað. Við ættum að leiðbeina hvort öðru og styðja sama hversu sterk við erum ein og sér.

Eitt sterkasta stjórnunartæki sem til er er sú fyrirmynd sem við gefum sjálf með lífi okkar, þannig mótum við það hvað telst eðlilegt og gerlegt. Ég veit það að ég er stolt af þeirri fyrirmynd sem ég gef með mínu lífi, ég get fullyrt að þar fyrirfinnst ekki græðgi.

Sú alhæfing sem þú setur fram hér um að ég, sem manneskja sem treysti á sjálfa mig og þarfnast ekki guðlegrar íhlutunar í mínu lífi, sé sjálfkrafa ófær um það að vilja samfélag sem byggist upp á samhjálp og góðum siðferðislegum gildum þykir mér heldur dapurleg.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 10.6.2007 kl. 12:26

7 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Liljur vallarins og græðgin er frábær grein, takk fyrir hana Svavar Alfreð

Guðrún Sæmundsdóttir, 10.6.2007 kl. 12:27

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Kæra Kristín! Þakka þér fyrir einlæg skrif. Við erum sammála um margt, t. d. að kvöldbænir með börnum geta verið miklar gæðastundir, þótt við séum kannski ekki á einu máli um gagnsemi bæna. Við erum líka sammála um mikilvægi þess að eiga góða að og að við berum ábyrgð hvert á öðru. Og að nauðsynlegt sé að hafa trú á sjálfum sér.

Ég vildi að ég væri eins og þú, gæti fullyrt að græðgi fyrirfyndist ekki hjá mér - en ég finn oft fyrir henni, til dæmis þegar ég sest niður að góðum mat. Nú er ég að leggja af stað til Ítalíu og ég finn græðgina krauma í mér þegar ég hugsa um allan góða matinn sem bíður mín þar. 

Þú misskilur mig þegar þú segir að ég alhæfi um þig og það sem þú hefur eftir mér eru ekki mín orð. Vantrúin er ekkert einkamál þeirra sem afneita Guði. Trúaðir menn þurfa líka að glíma við vantrúna. Um það eru mörg dæmi í Biblíunni. Meira að segja sjálfir lærisveinarnir voru oft óskaplegir vantrúarseggir. Ég finn oft fyrir vantrúnni - eins og græðginni - og þegar ég tala gegn vantrúnni er ég líka að tala gegn henni í eigin ranni. Í augum trúaðs manns er vantrú það að treysta ekki Guði, treysta því ekki að allt breytist í blessun um síðir. Vantrú - í augum trúaðs manns - er að gera sjálfan sig að nafla alheimsins. Vantrúin eyðir þeirri auðmýkt og lotningu sem hann á að finna fyrir andspænis skapara sínum. Vantrúin gerir hann hrokafullan og hrokinn, hybris, er hvorki meira né minna en upprunasyndin sjálf. Þú sérð að ég hef ótal ástæður til að vera á móti vantrúnni - en þetta er jú mín afstaða og þú ert ábyggilega ekki sammála mér. Samt efast ég ekki um að þú sért góð manneskja enda eru margar leiðir að því marki. Gangi þér vel á þeirri leið sem þú hefur valið.

Kveðjan best, Svavar.

Svavar Alfreð Jónsson, 11.6.2007 kl. 01:44

9 identicon

Ég hef aldrei verið sökuð um græðgi og sé ekki ástæðu til þess að herma hana upp á mig í uppgerðar auðmýkt. Næga lesti hef ég fyrir þó að ég játi ekki upp á mig eitthvað aukalega sem ég á ekki. Hefur matgræðgi þín eitthvað með innihald greinarinnar að gera. Á hverjum ætti hún að bitna öðrum en sjálfum þér? Er matgræðgi þín vantrú þinni á guð að kenna?

Mér þykir það heldur óheiðarlegt af þér að snúa því upp á mig að mér þyki bænastundir vera gæðastundir. Ég einmitt þvert á móti var að benda á það að það sem gaf þessum stundum gildi var samveran við mömmu en bænakvakinu hefði átt að vera skipt út fyrir innihaldsríkari og gagnlegri samræður.

Þó að þú náir að snúa greinarefni þínu upp á trúaða vantrúaða jafnt sem trúlausa þá gerir það mér ekkert auðveldara að sitja undir málflutningi þínum sem verður einfaldlega hvorki misskilinn né mistúlkaður:

"Öflugustu andstæðingar græðginnar eru þakklætið og trúin.

Dyggustu samherjar græðginnar eru á hinn bóginn vanþakklætið og vantrúin.

Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag."

Ég treysti engum guði og treysti fyrst og síðast á sjálfa mig og mitt eigið framlag, hvernig ætti ég að skilja þetta öðruvísi en að þú sért að alhæfa akkúrat um mig, jafnt og aðra? Eina auðmýktin eða lotningin sem ég finn fyrir er gagnvart þeirri persónulegu ábyrgð sem ég ber í heiminum til að hann verði að þeim stað sem ég vil að hann sé, ég get ekki séð að það sé nokkuð ljótt eða rangt við það og sé engan alvöru málflutning fyrir því af hverju guðleysi mitt ætti að verða heiminum til nokkurs annars en góðs.

Kristín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2007 kl. 00:49

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

"... allra síst trúleysingjar, sem ég minntist reyndar ekki á í þessari færslu."

Hvað áttu þá við með orðinu "vantrú"? Að trúa á tilvist guðs en treysta honum
ekki?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 13.6.2007 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband