Blessað trúboðið

Trúboð er eitt þeirra hugtaka sem fengið hefur á sig fremur neikvæðan hljóm. Mörgum þykir mesta ósvinna að stunda trúboð, ekki síst ef börn eiga í hlut. Háværar raddir segja að kirkjan eigi helst ekki að vera til í skólum landsins. Að þeirra mati er kirkjan ekkert annað en ein allsherjar trúboðsmaskína.

Margt getur falist í því að boða trú. Trúboð er að segja frá trú sinni, hverju ég trú, hvað ég telji mikilvægt og hvaða viðhorf ég hafi til lífsins og tilverunnar. Er nokkuð að því að stunda þannig trúboð? Gerum við það ekki öll daginn út og inn, meðvitað og jafnvel oftar ómeðvitað, með orðum okkar, framferði og verkum?

Á sama hátt er alltaf verið að innprenta okkur, fullorðnum sem börnum, hvað sé mikilvægt í þessari veröld, til dæmis í auglýsingunum öllum í fjölmiðlunum, leyndum sem ljósum.

Margir líta þannig á markmið trúboðans hljóti að vera að sannfæra viðmælendur sína um að hans trú sé sú eina rétta og miklu betri en þeirra. Trúboðið er samkvæmt því ákveðin tegund af umburðar- og virðingarleysi. Kirkjan á ekki að stunda þannig trúboð en ég er ekki frá því að þeir sem mest amast við kirkju og kristindómi í þessu landi gangi harðast allra fram í því að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og brúklegu. Veraldarhyggjan er umburðarlaus í þessum efnum. Trúboðar hennar sýna einatt dæmalausan hroka í málflutningi sínum og margir þeirra neita því blákalt að sýna eigi öðrum skoðunum virðingu en eigin jásystkina.

Trú kristins manns er ekki hans eigin verk. Trú hans er ekkert sem hann getur stært sig af eða notað til að gera lítið úr öðrum. Við getum ekki hrósað okkur af trú okkar. Þvert á móti á hógværðin og auðmýktin að einkenna trúaða manneskju ásamt virðingu fyrir öðru fólki.

Þar með er ég ekki að segja að trúaður maður þurfi alltaf að vera sammála síðasta ræðumanni. Alls ekki. Enda þótt hann eigi að umgangast annað fólk af nærgætni þarf hann ekki að fara í felur með skoðanir sínar. Hann á að segja það sem honum finnst.

Ef til vill hefur það aldrei verið meira freistandi en nú á dögum að ganga sína ævileið með veggjum, gæta þess að gára aldrei mannfélagsflötinn, skilja eftir sig sem fæst ummerki og spor. "Sá sem stingur hausnum út um glugga má búast við því að fá á kjaftinn," sagði bæjarstjóri úti á landi einu sinni. Okkur finnst því öruggast að hafa hægt um okkur innan harðlokaðra glugganna.

Kristnin er ekki innhverf trúarbrögð. Hún leitar út. Kristinn maður finnur trú sinni farveg í veröldinni og notar hana á sama hátt og aðrar gjafir sínar, hæfileika og gáfur. Hann grefur þau auðæfi ekki í jörðu.

Að elska Guð og náungann, það er hið sanna trúboð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: krossgata

"en ég er ekki frá því að þeir sem mest amast við kirkju og kristindómi í þessu landi gangi harðast allra fram í því að þeirra skoðanir séu þær einu réttu og brúklegu......"  Ég held þú hafir nokkuð til þíns máls þarna.  Það er að minnsta kosti mín reynsla og fáir í þessum hópi sem hægt er að eiga við umræður um trúmál.  Ég hef þó átt þeirrar ánægju að njóta að geta spjallað um trúmál við trúlaust fólk af virðingu á báða bóga.  Það eru skemmtilegar umræður.

krossgata, 13.8.2007 kl. 10:53

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kristinfræðsla í skólum er að mínum dómi bara kennsla í mannlegum samskiptum, þegar ég var sjálfur í barnaskóla (heitir víst grunnskóli í dag) gat ég aldrei fundið að um eitthvað "trúboð" væri um að ræða og aldrei heyrði ég neinn tala um að þessi kennsla væri óþörf, þvert á móti töldu flestir að það ætti að fjölga þessum tímum.  Ef þessi kennsla fer í taugarnar á einhverjum er lítið mál að breyta nafninu á þessum áfanga.  Það veitir ekki af að fólk læri að umgangast hvert annað og læri að bera virðingu fyrir eignum annarra.

Jóhann Elíasson, 13.8.2007 kl. 11:46

3 Smámynd: Árni Gunnar Ásgeirsson

Það er alveg rétt að margir sem hafa farið hart fram í baráttunni gegn trúnni hafa gert það á ósvífin og dónalegan hátt. Ég tel það þó vera mikinn minnihluta ræðumanna.

En eitt rekst ég reglulega á. Það er sá misskilningur trúaðra manna að með árásum á form þjóðkirkjunnar og/eða kennslu í kristnum fræðum við grunnskóla sé árás á trúna. Mér þykir, eins og mörgum öðrum, fullkominn dónaskapur við mig þegar börnum mínum er ekki boðið að læra trúarbragðafræði án þess að hún sé full af boðskap og laus við sagnfræðilega gagnrýni (sjá t.d. fréttablaðspistla Steindórs J. Erlingssonar). Því skammast ég mín ekkert þegar ég skrifa eða tala harkalega gegn kennslunni og aðskilnaðarleysi ríkis og kirkju.

En þar með er ég ekki að tala á móti kristinni trú eða trúuðum. Ég er að tala gegn lögum og reglugerðum, aðgerðum stjórnvalda og þeirri rangfærslu að trúarbragðafrelsi geti verið raunverulegt á meðan einni útgáfu kristinnar trúar er hampað umfram öllum öðrum trúarbrögðum og trúarbragðaleysi.

Það er eðlilegt að þeir sem aðhyllast kristna lífskoðun finnist lítið til umræðunnar koma og segi kennsluna ekki vera trúboð heldur kennsla í umgengni og virðingu. En umgengni og virðingu má kenna með dæmisögum úr öllum trúarbrögðum, með dæmisögum ótengdum trúarbrögðum o.s.frv. Ef þetta er ekkert mál, hví ekki að kenna dæmisögur úr kóraninum? Staðreyndin er sú að ytri umgjörð annarra trúarbragða er það eina sem íslensk börn læra um önnur trúarbrögð. Inntak þeirra og boðskapur fær lítið sem ekkert vægi. Þetta er fullkomið virðingarleysi fyrir börnunum og lífskoðunum þeirra sem ekki aðhyllast þá kristnu.

Árni Gunnar Ásgeirsson, 13.8.2007 kl. 14:26

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég tek undir það með Árna Gunnari að menn geta fundið ýmislegt aðfinnsluvert við fyrirkomulag kristnifræðikennslu og sambands ríkis og kirkju án þess að þar sé endilega um árásir á trúna að ræða. Mér finnst líka allt í lagi að menn gagnrýni kristna trú á málefnalegan hátt.

Skólinn á að búa ungmenni undir þátttöku í þjóðfélaginu. Kristin trú er fyrirferðarmikil í okkar landi - hvort sem okkur finnst það jákvætt eða ekki - og því ekki nema eðlilegt að börn læri um hana í skólunum. Slík fræðsla á að sjálfsögðu að vera á forsendum skólanna. Ég þekki dálítið til í skólakerfinu og tel mig geta fullyrt að kennarar hafa engan áhuga á því að misbjóða fólki. Þó kvarta kennarar stundum undan því að þeir séu ekki nógu vel undir það búnir að kenna kristin fræði. Ef til vill mætti auka enn við þann þátt í kennaranámi.

Enda þótt ekki sé nema eðlilegt að börn læri um kristna trú í skólum á Íslandi þarf að auka þar fræðslu um önnur trúarbrögð, líka inntak þeirra og boðskap.

Ég held að það gæti verið erfitt að tryggja að börn verði ekki fyrir áhrifum af því sem þau læra um trúarbrögð og ég er heldur ekki viss um að slík fræðsla sé "laus við sagnfræðilega gagnrýni" eins og það er orðað. Þvert á móti tel ég að reynt sé að fjalla um trúarbrögðin, kristni sem önnur, í samhengi sögunnar.

Svavar Alfreð Jónsson, 13.8.2007 kl. 23:03

5 identicon

Mér finnst þannig séð allt í lagi að útskýra fyrir krökkum hvað hver trú gengur út á og hvað fólk úr mismunandi trúm trúir á, en mér finnst almennt að trú fær allt of mikla virðingu í heiminum í dag.

Af herju eru til dæmis oft kallaðir inn prestar í sjónvarpsþætti þegar verið er að tala um einhver siðferðismál? Síðan hvenær eru kallar sem sérhæfa sig í einhverri dulveru orðnir einhverjir siðapostular? Er eitthvað verið að spyrja fólk hvað jólasveininum myndi finnast um fóstureyðingar?

 Það má alveg vera krítiskur á trúna og mér finnst eiginlega að það EIGI að vera það, s.s. benda á hina ýmsu fáranlegu hluti sem biblían virðist styðja og flestir nema bókstafstrúarmenn virðast líta framhjá.

Mér finnst að fólk eigi að hætta að vera með einhverja tilfinningasemi og finnast að það megi ekki gagnrýna trú einhvers. Af hverju má ekki ræða þetta eins og hvað annað? Af hverju má ekki benda á röksemdarvillur og fáfræði eins og væri gert t.d. í pólitískri rökræðu? Er orðinn vel leiður á þessari sérstöðu og virðingu sem trú virðist fá í samfélaginu.

 Kári.

Kári (IP-tala skráð) 13.8.2007 kl. 23:32

6 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Enn virðist gæta nokkurs ruglings milli trúboðs og trúarfræðslu.

  "Trúboð er að segja frá trú sinni, hverju ég trú, hvað ég telji mikilvægt og hvaða viðhorf ég hafi til lífsins og tilverunnar."

Er það já? Myndi kennslustund í islam í trúarbragðafræði flokkast undir trúboð ef allir ofangreindir þættir yrðu útskírðir, þ.e. sagt frá islam, hvað þeir telja mikilvægt o.s.frv.? Hvað með þegar prestur mætir í leikskóla og kennir börnunum að biðja til Guðs? Fer það undir sama hatt hjá þér? Ég sé a.m.k. skýran mun hér á.

Í þeim rökræðum sem ég hef átt við trúmenn á netinu hafa þeir nær alltaf viðurkennt að þeir telji trú sína betri en aðra. Eins annarlegt og það viðhorf er þá get ég þó verið feginn að þú sért þá ekki á sama máli; ég set þó spurningarmerki við hversu "sann"kristinn þú getir þá talist.

Kristján Hrannar Pálsson, 14.8.2007 kl. 09:04

7 identicon

Það sem trúlausir og nota bene margir trúaðir, bæði í þjóðkirkju og öðrum söfnuðum eru að segja er að það er mjög svo ósmekklegt að vera með trúboð í grunnskólum,  trú er mjög svo persónulegt dæmi og þegar einhver söfnuður treður sér inn í skóla og að börnum alveg án þess að spá í vilja foreldra og eða barna.
Íslenskt þjóðfélag er ekki eins einslitt og það var bara fyrir nokkrum árum, nú eru til hinir og þessir söfnuðir, kristnir og ekki kristnir, það er ekkert nema móðgun við fólk sem kærir sig ekki um svona hluti að prestar þjóðkirkju valsi þar um ganga, svo ég tali ekki um að þetta getur skapað mikið einelti, börn geta orðið afskipt.
Þetta mun einnig koma stoðum undir að aðrir söfnuðir vilji líka inn og ef þeir fá það ekki þá munu þeir vissulega fara fram á að stofna eigin grunnskóla þar sem áhersla verður lögð á þeirra trúarbrögð og við endum í rugli og veseni og jafnvel hörmungum.
Þér er væntanlega sama um slíkt svo lengi sem þú færð vilja þínum framgengt, það er jú venjan hjá trúuðum.

DoctorE (IP-tala skráð) 14.8.2007 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband