Kynlíf og klám

  Í biðskýlinu var veggspjald frá sértrúarflokki með þessari spurningu: „Hefur þú drýgt einhverja synd í dag?"

Fyrir neðan hafði verið skrifað með rauðum varalit: „Ef ekki, hringdu þá í síma 6696969."

Nú á dögum er að mörgu leyti fyrirhafnarminna að syndga en í gamla daga. Ekki þarf að lyfta öðru en símtólinu til að drýgja hór. Það kostar ekki nema 66,90 kr. á mínútu að brjóta sjötta boðorðið.

Öll svið mannlífsins hafa verið markaðsvædd. Líka kynlífið. Allt er falt. Við kaupum okkur hamingju og ef við verðum fyrir óhamingju kaupum við okkur áfallahjálp. Við kaupum okkur mat og ef við étum of mikið kaupum við okkur megrunarsápu.

hrærivelAf hverju ætti þá ekki að vera hægt að kaupa sér kynlíf? Af hverju ætti ekki að vera hægt að kaupa sér eitt stykki kvenlíkama til að horfa á, fitla við eða njóta á alla kanta? Af hverju ætti þá ekki að vera hægt að kaupa sér svölun á hvötum sínum?

„Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska," segir í Títusarbréfi. Þegar við skilgreinum klám er m. ö. o. ekki nóg að skoða hlutina sem birta klámið heldur þarf ekki síður að huga að þeim sem nema það.

Klám er að minni hyggju ekki opinská umfjöllun um kynlíf. Klám er ekki myndir af fólki í villtum ástarleikjum. Klám er ekki munúð eða losti. Það er gamall brandari að klám sé loðið hugtak. Nú á dögum er klám notað um allt og ekkert. Hefur enga sérstaka þýðingu. Það er eiginlega nauðrakað og bersköllótt. Ef til vill lýsir klám sér einfaldlega í því að við gerum fólk að hlutum og kynlíf að söluvöru?

Nú á dögum er kynlíf markaðssett sem nauðsynjavara. Allir verða að fá það. Væntingar til kynlífsins eru geysilegar.

Er bólfimi ekki svipuð og bogfimi? Sé boginn spenntur of hátt slitnar strengurinn.

Kynlíf á yfirsnúningi er eins og hrærivél sem þeytir öllu deiginu upp úr skálinni. Kakan fer aldrei í ofninn en þú ert heillengi að þrífa eldhúsið.

Kynlífið er í eðli sínu náskylt trúarbrögðunum. Í kynlífi eins og í trúnni gilda ekki fyrst og fremst lögmálin um frammistöðu, árangur, afköst og skilvirkni, heldur lögmál nándar, hlýju, heiðarleika, öryggis, virðingar, elsku og sjálfstjáningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo er athyglisvert að þeir fáu sem telja ekkert nauðsynlegt að allir fái það, hafa venjulega greiðan aðgang að kynlífi sjálfir. 

Eva (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 16:05

2 Smámynd: Hólmgeir Karlsson

Mikið "assgoti" er þetta vel skrifað hjá þér Svavar...  Sjálfur hef ég sagt að kynlíf án ástar, virðingar og kærleika er lítils virði, eiginlega bara líkamsrækt :)

Hólmgeir Karlsson, 11.9.2007 kl. 23:37

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað er ástin annað en gredda? Geltur maður verður ekki ástfanginn. Þetta hljómar kannski kuldalega en fátt finnst mér verra en helgiljómi um ást milli manns og konu sem er svo næstum því aldei nein ást. Eða bara aldrei! Ástin er sjaldgæfasta fyrirbæri i heimi. Afhverju ekki að viðurkenna það.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.9.2007 kl. 01:09

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

1: Hverjir telja ekkert nauðsynlegt að allir fái það? Og hvað er að hafa "greiðan aðgang að kynlífi"? Ósköp finnst mér það óerótískt orðalag.

2: Þakka hrósið, Hólmgeir - en líkamsrækt er svo sem ágæt.

3: Hvaða, hvaða! Auðvitað er ástin kemísk. Geldingar geta samt ábyggilega orðið dauðástfangnir. Eða vita getulausir menn. En eins og faðir minn skrifaði eitt sinn: Hvað hefur kjálkabrotinn drengur að gera með þrjár glerharðar glassúrtertur?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.9.2007 kl. 10:15

5 Smámynd: Steini Thorst

Mér finnast þetta nú bara nokkuð magnaðar pælingar og skemmtilega skrifaðar. Líklega orð í tíma töluð og mættu margir velta þessu rækilega fyrir sér. Undirritaður þar á meðal.

Steini Thorst, 12.9.2007 kl. 10:55

6 Smámynd: halkatla

þetta er mjög vel gert, enda er ég algerlega sammála.

halkatla, 12.9.2007 kl. 14:30

7 identicon

Ég get nú svosem ekki vitnað í neina vísindalega rannsókn en eftir minni reynslu að dæma þá er það aðallega trúað, gagnkynhneigt fólk í föstu sambandi sem efast um að aðrir en það sjálft þurfi á kynlífi að halda.

Að hafa greiðan aðgang að kynlífi merkir ekkert annað en það sem liggur í orðanna hljóðan. Sá sem þarf að leggja meira á sig en að koma vel og elskulega fram við maka sinn til að fá útrás fyrir kynlífsþörf sína, (t.d. að hanga á einhverjum ömurlegum pöbb og blanda geði við misdrukkið og leiðinlegt fólk eða taka lífeyrissjóðslán til að greiða fyrir kynlífsþjónustu) hefur ekki greiðan aðgang að þessum lúxus sem sumir siðapredikarar þykjast hafa einkarétt á, bara af því að þeir hafa (oft af illskiljanlegum ástæðum) orðið sér úti um maka. 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 19:04

8 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Er einhver beiskja í gangi?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.9.2007 kl. 19:41

9 identicon

Góður pistill og skemmtilegar pælingar.

Haraldur Helgi Þórsson (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 11:25

10 identicon

Beiskja í gangi.

Siðleysi. Trúleysi. Röng viðhorf. Skemmd sál. Og núna beiskja. Það hljóta auðvitað alltaf að vera einfaldar og rökréttar skýringar á því ef einhver telur skoðanir sjálfskipaðra vandlætara ekki heilagar. Og þær hljóta alltaf að eiga upptök sín í einhverjum vandamálum hjá gagnrýnandanum. Það getur auðvitað ekki verið að það sé bara eðlilegt að véfengja þær. Enda eru þær frá Gvuði komnar.

Venjulega er orðið biturð notað (merkingin sú sama) til þess að gera lítið úr tilfinningum þeirra sem láta í ljós höfnunarkennd og einsemd (og þagga niður í þeim) en því fólki  finnst skárri kostur að "syndga" en að lifa alls engu kynlífi. 

Sælir eru þeir pappakassar sem í einfeldni sinni telja sig hafa efni á að drulla digurt. 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 15:37

11 identicon

"því fólki finnst oft" vildi ég sagt hafa, það er vitanlega ekki algilt.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 15:41

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

6: Þakka skemmtilegar upplýsingar og bið að heilsa í Vatíkanið.

11: Tjá, slík er nú einfeldnin hérna megin að ég skil bara ekki hvað þú ert að fara, Eva. Hvaðan kemur þetta með trúleysið og siðleysið, röngu viðhorfin og skemmdu sálina? Eða að ekki megi véfengja skoðanir?

Mér finnst tónninn í þessum skrifum ekki alveg laus við beiskju, fyrirgefðu, en beiskja er gremja eða bræði samkvæmt mínum orðabókum. Það eru kannski ekki þægilegar tilfinningar en ósköp mannlegar. Ég kannast ágætlega við þær sjálfur.

Ekki veit ég heldur hver er að drulla digurst í þessum athugasemdum.

Svavar Alfreð Jónsson, 13.9.2007 kl. 17:18

13 identicon

Já reyndar gremst mér það þegar siðapostular af gamla skólanum láta í ljós viðhorfið: við, þessi giftu og gagnkynhneigðu höfum meiri rétt á að ríða en þið hin af því að okkar kynlíf er fallegra, réttara og heilagra en kynlíf þeirra sem kjósa klám, skyndikynni, rekkjunaut af sama kyni, fleiri en einn rekkjunaut, drottnunarleiki eða önnur afbrigðilegheit. Já, mér gremst það.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 18:05

14 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Og hvar hefur þessi siðapostuli af gamla skólanum, giftur og gagnkynhneigður, hvítur og trúaður (svo ég noti nokkra af merkimiðunum þínum) haldið því fram að hann hafi meiri rétt á kynlífi en aðrir eða að hans kynlíf sé eitthvað falllegra, réttara og heilagra en annað?

Svavar Alfreð Jónsson, 13.9.2007 kl. 18:49

15 identicon

Jesús, Satan og allir englarnir! Lestu þinn eigin pistil.

"Vantrúuðum er ekkert hreint". Af samhenginu verður ekki annað séð en að þessir óhreinu trúvillingar séu t.d. þeir sem "syndga" með því að nýta sér klám eða kynlífsþjónustu. Þú getur ekki fordæmt kynhegðun annarra en haldið því um leið fram að þú teljir þá sem sýna þá sömu hegðun hafa fullan rétt á kynlífi. Það er bara þversögn.

Ég fjalla nánar um þetta hér: http://www.nornabudin.is/sapuopera/2007/09/post_86.html 

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 09:42

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Orðin úr Títusarbréfi útlagði ég svona í pistlinum, sem ég vona að þú hafir lesið: "Þegar við skilgreinum klám er m. ö. o. ekki nóg að skoða hlutina sem birta klámið heldur þarf ekki síður að huga að þeim sem nema það."

Hvar tala ég um synd í pistlinum? Hvar segi ég eða gef í skyn að einungis "óhreinir trúvillingar" (svo ég noti þín orð en ekki mín) nýti sé klám eða kynlífsþjónustu? Hvar fordæmi ég kynlífshegðun annarra?

Ekki leynir sér að þessi pistill minn hefur stórlega misboðið þér en ef til vill þarftu þá ekki síður að skoða eigin hug en pistilinn sjálfan. Ég leyfi mér að fullyrða að þar sé ekki einungis gremja  eins og þú hefur viðurkennt, heldur líka sorglegir fordómar.

Ég renndi yfir skrifin sem þú vísaðir til. Þú hefur auðsýnilega marga fjöruna sopið og er listi þinn yfir eigin afrek á kynlífssviðinu mesta skemmtilesning. Hrokinn og fordómarnir voru ekki eins skemmtilegir - en komu mér svo sem ekki á óvart.

Svavar Alfreð Jónsson, 14.9.2007 kl. 10:21

17 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Rétt skal vera rétt: Eftir upphafsorðin, sem voru brandari, segi ég að nú á dögum sé fyrirhafnarminna að "syndga" en í gamla daga. Það átti líka að vera sniðugt - en trúað, gagnkynhneigt fólk í föstum samböndum gerir stundum að gamni sínu.

Svavar Alfreð Jónsson, 14.9.2007 kl. 10:45

18 identicon

Skemmtileg pæling og vel skrifuð. Þetta er eitt af örfáum bloggum sem ég er byrjaður að nenna að fylgjast með.

Eðvarð (IP-tala skráð) 14.9.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband