Liðlegheitin í Fríkirkjunni

Kirkjur eru hús. Þær hafa veggi og á þeim er þak. Samt eru kirkjur sérstök mannvirki. Þær eru hannaðar og byggðar með sérstök not í huga. Ekki vefst til dæmis fyrir neinum sem í kirkju kemur að þar á fólk einkum að sitja. Að því leyti eru kirkjurnar eins og kvikmyndahúsin. Í báðum þeim húsum er gert ráð fyrir áhorfendum og áheyrendum. Hönnun kvikmyndahúsanna gengur út á að sitjendur horfi á tjaldið en kirkjurnar eru hannaðar með það í huga að þar sé horft á altari og prédikunarstól.

Kirkjur snúa oftast í austur og vestur. Þær - eins og aðrir helgidómar - eru gjarnan á upphöfnum stöðum í miðju samfélaganna. Með turnum sínum benda kirkjurnar til himins. Innanrýmið er þrískipt, forkirkja, skip og kór.

Kirkjur eru fullar af helgum gripum. Þar er altari og altaristafla, prédikunarstóll og skírnarfontur. Þar eru ýmis listaverk, málverk, tákn og höggmyndir.

Listin í kirkjuhúsunum þjónar ákveðnum tilgangi. Líka tónlistin eins og söngloftin og staðsetning hljóðfæra í kirkjunum gefur til kynna.

Kirkjur eru ekki einungis hús hönnuð fyrir ákveðin not, tilbeiðslu og boðun ákveðinna sanninda. Kirkjuhúsið er hluti af tilbeiðslunni og boðuninni. Sá sem í kirkju kemur er umvafinn ákveðinni heimsmynd og er orðinn hluti af henni.

Hjónaleysi sem ekki vilja láta hjónavígslu sína tengjast Guði eða kristni geta eiginlega ekki valið óheppilegri stað fyrir þá athöfn en kirkju.

Það er eiginlega eins og að halda matreiðslunámskeið fyrir grænmetisætur í sláturhúsi.

Mikið eru þeir samt liðlegir í Fríkirkjunni í Reykjavík að lána sitt fallega guðshús fyrir veraldlega hjónavígslu. Það hefur reyndar gerst áður. Ég veit um minnsta kosti eitt dæmi þar sem fulltrúi hins veraldlega valds gaf saman hjón í lítilli sveitakirkju. Auðvitað var enginn prestur viðstaddur og altarið var smekklega falið meðan á athöfninni stóð.

Sem minnir mig á kirkjuna í Berlín. Þar var mynd af krossfestingunni á altaristöflu. Neðst á henni stóð: "Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra."

Kirkjuvörðurinn hafði fyrir sið að hylja þessi orð vandlega með blómaskreytingum þegar hjónavígslur fóru fram í kirkjunni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Góður sá þýski

Kirkjan er friðsamur staður þar sem gott er að koma, eiga stund með sjálfum sér og sínum Guði hver sem hann er hjá hverjum og einum. Á miklu flakki erlendis í gegnum árin vegna starfa hef ég oft sest inn í kirkjur til að eiga hvíldarstund fyrir hugann í erli stórborga. Stundum eru kirkjur eins og listasöfn, það er svo margt fallegt þar að skoða.

Marta B Helgadóttir, 22.9.2007 kl. 12:13

2 identicon

Er alveg fullkomlega sammála þér Svavar. Mér hafði ekki dottið í hug að til væri fólk sem vildi borgaralega athöfn í kirkju! Fannst góð samlíkingin hjá þér, þó ég myndi aldrei gerast svo graður að líkja kirkjum við sláturhús. 

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 13:21

3 Smámynd: krossgata

 Meinfyndinn sá þýski.  Mér finnst reyndar merkilegt ef trúlausir velja kirkju til að giftast í, skýtur svoítið skökku við.

krossgata, 22.9.2007 kl. 13:27

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Spurning hvort bingó á föstudaginn langa, kvöldmáltíðarsagan sem símaauglýsing og guðshús vettvangur guðlausra athafna séu greinar á sama meiði?

Gæti hér verið um að ræða það sem Þjóðverjar kalla "Desymbolisierung"? Kannski blogga ég um það einhvern tíma.

Svavar Alfreð Jónsson, 22.9.2007 kl. 13:48

5 identicon

Sem trúleysingi, þá hefur kirkja ekki meiri merkingu fyrir mér heldur en banki eða bílageymsla. Þetta er bara bygging! Það að vera trúleysingi þýðir ekki endilega að viðkomandi sé "á móti" kristinni trú, við trúleysingar erum eins misjöfn og við erum mörg. Varðandi sláturhússlíkinguna, þá eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk kýs að vera grænmetisætur. Líkingin hjá þér gengur upp í því tilfelli þegar viðkomandi er grænmetisæta af hugsjónarástæðum (hefur samúð með dýrum), en ekki þegar viðkomandi gerir það af heilsufarsástæðum, þ.e. viðkomandi álíti að það sé einfaldlega hollara að forðast að leggja seér kjöt til munns.

Varðandi hjónavígslur, þá verður að viðurkennast að kirkja hentar vel, hver svo sem trú fólks er. Þarna getur fólk auðveldlega sest í fyrsta lagi. Í öðru lagi, þá er þarna "svið", þ.e. upplyft svæði sem allir áhorfendur geta séð og auðvelt er fyrir brúðhjón að komast upp á og niður. Í bíóhúsi (ef það inniheldur svið), samkomuhúsi eða leikhúsi þá þyrfti að fara á sviðið og yfirgefa það með því að fara baksviðs (sem er ákaflega ópersónulegt) eða með því að fara til hliðar við sviðið. Mér dettur í fljótu bragði ekki í hug neitt húsnæði sem hentar eins vel og kirkja :)

Að lokum óska ég brúðhjónunum til hamingju og vona að þeim farnist vel í framtíðinni!

Jón (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 17:25

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Mér finnst bara gott hjá Hirti Magna að lána Siðmennt kirkjuna undir trúlaust brúðkaup. Gifting karls og konu er eldri siður en kristin trú, þó kristnir menn standi vörð um hjónabandið sem sáttmála karls og konu fyrir Guði og mönnum.

Það að fríkirkjusöfnuðurinn hafi ákveðið að lána kirkjuna undir þessa athöfn segir ekkert um hvaða álit söfnðurinn hefur á Siðmennt og þeirra boðskap. Ég sé ekki mikinn mun á því að lána samtökum eins og Siðmennt kirkju undir borgaralegt brúðkaup og að láta tónlistarfólki í té afnot af kirkjum og safnaðarheimilum fyrir sína tónleika.

Er það ekki bara kristilegt hjá Fríkirkjunni að gera Siðmennt þennan greiða og þar með sýna í verki að Guð býður velkomna jafnvel þá sem vilja ekkert með Hann hafa?

Theódór Norðkvist, 22.9.2007 kl. 18:00

7 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Svavar, ertu þá á þeirri skoðun að veraldlegir gjörningar (t.d. tónleikar eða listasýningar sem tengjast ekki kristni) eigi ekki heima innan veggja kirknanna?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 22.9.2007 kl. 20:01

8 Smámynd: Herbert Guðmundsson

"Hjónaleysi sem ekki vilja láta hjónavígslu sína tengjast Guði eða kristni geta eiginlega ekki valið óheppilegri stað fyrir þá athöfn en kirkju."

"Það er eiginlega eins og halda matreiðslunámskeið fyrir grænmetisætur í sláturhúsi."

Ég spyr: Meinar presturinn þetta í alvöru?

Herbert Guðmundsson, 22.9.2007 kl. 21:36

9 identicon

sæll, það er mikið rétt sem þú ert að segja,en samkvæmt orðinu er kirkjan fólkið og það sem í hjarta þess er en ekki byggingar. Hvorki Guð eða Jesú báðu um skreytt hús sér til heiðurs,það er seinni tima manna verk.Guð kom með hjónabandið,sáttmála karls og konu sem hefur ekkert með skoðanir að gera,en f´lk hefur misjafna trú og hagar lífi sínu samkvæmt því. Drottinn blessi þig og þína. kv Jobbi

jobbi (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 23:46

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð grein hjá þér, Svavar Alfreð, margt afar vel sagt, en ekki finnst mér þó smekklegt að fela altarið í neinni kirkju, og þessi brandari um þýzka kirkjuvörðinn finnst mér draga úr krafti greinarinnar og afvegaleiða suma út í umræðu um annað en þú hafðir stofnað til. Hófsöm, orðheppin og kryfjandi var grein þín framan af og styrkur hennar mestur í því.

Jón Valur Jensson, 23.9.2007 kl. 01:16

11 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Ég er reyndar ekki á sama máli og Jón Valur, mér fannst góð sagan í lokin og fínn endahnykkur! En ég er hjartanlega sammála þér Svavar, orðið Guðshús segir allt sem segja þarf. Ekki er ég heldur alveg sammála Mörtu sem segir; "Kirkjan er friðsamur staður þar sem gott er að koma, eiga stund með sjálfum sér og sínum Guði hver sem hann er hjá hverjum og einum.Kirkjan er friðsamur staður þar sem gott er að koma, eiga stund með sjálfum sér og sínum Guði hver sem hann er hjá hverjum og einum." Ég hnaut um orðin "sínum Guði hver sem hann er" Kirkjur eru byggðar til að tilbiðja Guð föður, Guðsson Jesú Krist og heilagan anda. Hinn þríeina Guð en ekki hvern sem er.

Guðni Már Henningsson, 25.9.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband