Hin sataníska afbökun veruleikans

 Mig minnir að Pétur Gunnarsson hafi sagt söguna um manninn sem fór inn í skartgripaverslun til að kaupa sér kross og fékk þau svör frá afgreiðsludömunni að hann væri dýrari „ef hann sé með kalli á".

„Sem trúleysingi, þá hefur kirkja ekki meiri merkingu fyrir mér heldur en banki eða bílageymsla. Þetta er bara bygging!" hljóðar ein athugasemdin við síðustu bloggfærslu mína. Kollegi minn, Toshiki Toma, segir  á bloggsíðu sinni að guðfræðilega séu kirkjuhúsin ekkert meira en húsnæði.

Tákn er nokkuð sem vísar út fyrir sig. Það hleypir manni svo að segja í gegnum sig. Tákn merkir eitthvað annað en það er. Það sem er táknrænt getur haft margar merkingar. Kirkjuhúsin eru tákn og þau eru líka full af táknum.

Þeir sem segja kirkjuhús eintómar byggingar og berstrípað húsnæði hafa einhverra hluta vegna - hvort sem það er trú eða trúleysi - svipt þessi hús táknrænni merkingu sinni.

Einu sinni setti austurríski listamaðurinn  Hermann Nitsch á svið heilaga kvöldmáltíð og notaði þar hvorki brauð né vín heldur alvöru kjöt og ekta blóð.

Blóð er aðeins blóð og getur aldrei verið nema blóð.

Þessi staðhæfing er í kristnum dómi hvorki meira né minna en satanísk afbökun veruleikans - þrátt fyrir íkonóklasmið.

Ef það er rétt að blóð sé aðeins blóð og kirkjur ekki meira en kirkjur, ef veruleikinn getur ekki lengur verið táknrænn, ef fyrirbærin eru ekki margræð, þá er listin búin að vera og yfirleitt allt það sem við köllum menningu.

Þetta er ekki einungis álit kristinna manna. Karl Marx benti á að til þess að þrífast þurfi kapítalisminn að umbylta samfélaginu. Þessi byltingarhlið kapítalismans, sem Marx nefndi svo, felst í því að ráðast gegn öllu sem talið hefur verið sjálfsagt, endurmeta öll gildi, afhelga allt sem heilagt er og síðast en ekki síst að eyða því táknræna. (Þeir sem vilja kynna sér þetta nánar ættu að lesa bók franska heimspekingsins Dany-Robert Dufour L´art de réduire les têtes - sur la nouvelle servitude de l´homme libéré à l´ère du capitalisme total, Paris 2003)

Á endanum á tilveran ekki að hafa neitt gildi nema verðgildið og manneskjan enga dómgreind nema til að geta hagnast sem mest á lífinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þú ert dálítið broslegur.

Matthías Ásgeirsson, 24.9.2007 kl. 11:15

2 Smámynd: Ingólfur

Um leið og þú segir að kirkja sé tákn þá hlýtur þú að viðurkenna að túlkun þess er afstæð.

Fyrir krakka, sem kemur í fermingarfræðslu til þín, eru Levi's buxurnar hans kannski meðal verðmætustu eignum. Þær segja bekkjarfélögum hans að hann sé merkilegilegri en ef hann ætti engar merkjabuxur.

Ég efast um að þú túlkir Levi's buxur þannig að eigandi þeirra sé eitthvað merkilegri en aðrir. Er það satanísk afbökun veruleikans hjá þér að virða ekki merkingu þessa tákns? Eða er það kannski undir hverjum og einum að túlka táknin í samfélaginu?

Ingólfur, 24.9.2007 kl. 11:40

3 identicon

Bílastæðageymsla gerir meira gagn en kirkjubygging og hún er líka merkt með tákni
Táknar kannski ekkert spes...

DoctorE (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 13:10

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Lívæs (eða levís? Er þetta ekki gyðinganafn?) gallabuxur geta verið stöðutákn - en þær geta líka verið merki um ánauð tísku og efnishyggju. Sjálfur klæðist ég stundum lívæs og þær ku fara mér ótrúlega vel. Kirkjur hafa trúarlega merkingu fyrir suma en aðrir sjá þær sem tákn um andlega kúgun og krossferðir. Ef Ingólfur Harri fengi það hlutverk að teikna kirkju (þegar hann er búinn með arkitektanámið) yrði hann samt líklega að halda sér að mestu á trúarlegu nótunum.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.9.2007 kl. 13:23

5 Smámynd: Ingólfur

Ég er nú ekkert viss um það. Þjóðkirkjunni er að takast nokkuð vel að vatna út trú út kirkjunum.

Fyrir mörgum Íslendingum eru kirkjur bara staður þar sem maður fer á tónleika, lánar bækur, giftir sig og kveður að lokum ástvini þegar þeir yfirgefa þennan stað.

Reyndar á fermingin auðvitað að vera þarna líka en flestum prestum virðist vera sama þú fermingarbörnin segist ekki trúa á Jesú. Það er allt í lagi þó þau "trúi á sinn eigin hátt" bara svo lengi sem þau komi noti blessaða krikjuna og "skrifi" undir samninginn, þá getur presturinn með góðri samvisku kallað þau kristin og skráð þau í bókina hjá sér.

Þess vegna eru nýjar kirkjur oft frekar félagsmiðstöð hverfisins en ekki eitthvert trúarlegt tákn, og ætli ég myndi ekki teikna þannig kirkju enda mundi sóknarnefndin líklega vilja það.

Ingólfur, 24.9.2007 kl. 15:03

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Voru ekki Levítar einn ættflokkur Gyðinga? Levi, Benjamín, og hvað þeir hétu nú þessir ættflokkar. Kirkjan hefur víst táknræna merkingu og andrúm, þó svo að hún sé ekki skreytt tákmyndum einu sinni. Í kaldri lógík er hún jú bara hús og eins væri þá kirkjugarður ruslahaugur. 

Það er helgin eða andrúmið sem aðskilur hana öðru. Þar er fólk minnt á hið geistlega og einnig á smæð sína og fallvaltleika svona til mótvægis við efnishyggjubröltið óttann, kíðann, græðgina etc. sem utan ríkja.  Kirkja er staður, þar sem manneskjan skilur brestina og veraldarþankana eftir á tröppunum og er ekkert sérstakt um stund.  Í kirkjunni er ekki rúm fyrir hégóma, samanburð, stéttarskiptingu og vegtyllur aðrar.  Ekki frekar en það er tilefni slíks í kirkjugarði.  Þar eru allir jafnir...ekkert sérstakt en samt allt í sömu andrá.

Kertaljós á borði getur skapað þetta andrúm ef allir vita í hvaða tilgangi kertið logar. 

Jón Steinar Ragnarsson, 24.9.2007 kl. 15:42

7 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Eitt er þó merkilegt...Á stærstu stundum lífsins sækir maður í kirkju; skírn, brúðkaup, dauði...ég held að ég geti fullyrt það hér og nú að ég myndi aldrei skíra barnið mitt í Kolaportinu né að láta útför mína fara fram í Kringlunni..Að koma inn í kirkju og hugleiða er eitthvert mesta friðarferli sem maður getur gengið í gegnum. Finna nálægð frelsarans og biðja í hans nafni. Vissulega er hægt að hafa samkomur undir beru lofti, jafnvel í Kolaportinu og það hefur verið gert..en að vera í Guðshúsi er engi líkt..

Guðni Már Henningsson, 24.9.2007 kl. 16:51

8 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Í mínum augum er kristin kirkja ekki endilega bygging heldur sú trúarstefna sem byggist á orði Krists.  Kirkja sem bygging er auðvitað bygging eins og aðrar byggingar en auk þess er hún tilbeiðsluhús.  Sem slíkt er hún ákveðin táknmynd þeirrar tilbeiðslu sem þar fer fram líkt og guðshús annarra trúarbragða.  Kirkja, moska, bænahús eða hvað þetta nú heitir allt saman, eru í mínum augum sérstakar byggingar þar sem þær standa fyrir andlegleika og æðri mátt.  Þetta er enda viðurkennt í landsrétti flestra ríkja og þjóðréttarreglum þ.e. að þessi hús skuli njóta sérstakrar verndar.

En þegar öllu er á botnin hvolft er sköpunarverkið allt eitt Guðs hús (eða Guðs ríki) og ritningarnar þar skráðar ekki síður en í bækurnar.

Hreiðar Eiríksson, 24.9.2007 kl. 17:07

9 Smámynd: krossgata

Mikið óskaplega yrði nú heimurinn einhæfur og leiðinlegur ef engin væru táknin.

krossgata, 24.9.2007 kl. 18:23

10 Smámynd: Ingólfur

Já heimur án tákna væri sannarlega leiðinlegur. En hann væri alveg jafn leiðinlegur og ef allir þyrftu að leggja sömu merkingu í táknin.

Hins vegar heimur án trúarbragða...

Ingólfur, 24.9.2007 kl. 21:39

11 identicon

Ég er nú hæfilega greindur einstaklingur en er ekki að skilja umræðuna hérna. Getur einhver útskýrt fyrir mér, eins og ég væri fimm ára, hvað er til umfjöllunar hérna?

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 22:33

12 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ekki spyrja mig.

Svavar Alfreð Jónsson, 24.9.2007 kl. 23:52

13 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég verð nú samt að fá að svara Bjarka - og þakka ábendingar og góðar athugasemdir. Pistillinn minn fjallar um ólæsi á tákn. Það er rétt sem fram kemur í athugasemd 13 (komdu fagnandi Jón Frímann, alltaf hressandi að lesa þig) að tákn hafi merkignu fyrir þá menningu sem skilja táknin. Þannig mætti skýra ólæsi á trúarleg tákn með trúleysi en ég benti líka á það viðhorf að veruleikinn hefði alls enga táknræna merkingu og kallaði það sataníska afbökun. Djöfullinn hefur eftir því sem ég best veit hvorki húmor né getur notið ljóðlistar.

Marx gamli spáði því líka að kapítalisminn þyrfti að útrýma táknrænu gildi tilverunnar - hafi ég skilið hann rétt. Ólæsi á tákn má ef til vill skýra með fyrirbærinu "capitalisme total".

Svavar Alfreð Jónsson, 25.9.2007 kl. 13:03

14 identicon

ég benti líka á það viðhorf að veruleikinn hefði alls enga táknræna merkingu og kallaði það sataníska afbökun.

Nú er það svo að ekki er hægt að útrýma táknum úr veruleikanum án þess að útrýma tungumálinu líka. Skilgreining þín á táknum er:

 Tákn er nokkuð sem vísar út fyrir sig.

Tákn merkir eitthvað annað en það er.

Í þessu tilviki er tákn samheiti yfir íbyggni (intentionality). Öll hugtök og orð eru íbyggin. Það er, þau vísa útfyrir sig á önnur fyrirbæri. Án tákna væri því hin mannlega tilvera á sama stigi og maura. 

Einhverntíman heyrði ég að ekki væri eðlislægur munur á himnaríki og helvíti, góðu og illu osfrv., heldur stigsmunur. Það er að það væri einungis til mismunandi fjarlægðir frá ljósi guðs.

Ef kapítalistar, útfrá Marx, fengju að ráða og útrýma öllum táknum (samkvæmt ofangreindri skilgreiningu) væri mannskepnan í svarta myrkri.

Vissulega satanísk afbökun á veruleikanum.   

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 23:57

15 identicon

Byrjar ekki vísan líka svona:

Í upphafi var Orðið... 

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 00:01

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Skilgreiningar á tákninu eru margar, þröngar og víðar.

Heimspekingurinn Paul Ricoeur skilgreinir táknið þröngt og segir það ekki einungis merkja inntak sitt heldur geti haft annað inntak "der nur in und mittels seiner Ausrichtung zu erreichen ist" - eins og það er svo yndislega orðað á þýskunni.

Suðurameríski guðfræðingurinn F. Taborda segir táknið gagnsætt svo að í því sjáist önnur merking en sú sem það fyrst merkti - önnur merking birtist í merkingu táknsins.

Þegar talað er um að tilveran geti haft táknræna merkingu er held ég átt við að hún sé margræð, hana megi skilja á marga vegu. Þegar talað er um að það viðhorf eigi undir högg að sækja að tilveran sé táknræn er að sjálfsögðu ekki átt við að fólk hætti að lesa og skrifa.

Og magnað er upphaf Jóhannesarguðspjalls og þar er sko ekki verið að spara táknin.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2007 kl. 00:33

17 identicon

Síðasta færslan, ég lofa. Hvað er síðan hægt að læra af þessu? Í fyrsta lagi er ég ósammála Ingólfi um að túlkun tákna sé afstæð. Sameiginlegur skilningur á táknum er kallað tungumál og við þurfum að hafa sama skilning til að geta átt í samskiptum. Mér sýnist þú ekki vera að tala um tákn heldur verðmætamat í færslunni þinni. 

Besta færslan er færsla Hreiðars:

Kirkja sem bygging er auðvitað bygging eins og aðrar byggingar en auk þess er hún tilbeiðsluhús.  Sem slíkt er hún ákveðin táknmynd þeirrar tilbeiðslu sem þar fer fram líkt og guðshús annarra trúarbragða.

Byggingar hafa ákveðin hlutverk. Bílageymsla hýsir bíla. Verslunarmiðstöð selur varning og lútersk kirkja er staður þar sem trúaðir þess siðar leita með sinn átrúnað. Byggingin er gerð með ákveðna trú í huga. Því er það umfram allt móðgandi, að ég held, gagnvart viðkomandi trúarbrögðum, ef seremóníur eiga sér stað innan veggja hennar án þess að það snerti átrúnaðinn og er jafnvel í andstöðu við þá trú. Það myndi hrófla lítið við mörgum trúleysingjanum að gifta sig borgaralega í lúterskri kirkju. En mér þætti það óvirðing gagnvart þeim sem trúa því fyrir þeim er merking bundin því að sækja kirkjuna.   

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 00:37

18 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er ekki að tala um verðmætamat. Verðmætamat okkar sýnir hvað okkur finnst verðmætt, mikilvægt, dýrmætt. Verðmætamat getur að sjálfsögðu haft áhrif á það hvernig við skiljum tákn. Sumir líta á kirkjuhús sem hús Guðs og táknmynd þeirrar tilbeiðslu sem þar fer fram - eins og Hreiðar orðaði það svo vel. Aðrir sjá kirkjuhúsið sem tákn um andlega kúgun og glæpi kristninnar. Í báðum tilfellunum er kirkjuhúsið tákn.  Tákn hafa ekki bara tvær merkingar - þau geta haft margar. Túlkun þeirra er afstæð. Svo geta tákn orðið merkingarlaus eins og Jón Frímann benti á. Og þar með er ég að verða svefnlaus. Þú þurftir ekkert að hafa þetta síðustu færsluna en ég bregst ekki við fyrr en einhvern tíma á morgun. Gúddnæt.

Svavar Alfreð Jónsson, 26.9.2007 kl. 00:50

19 identicon

Margræðni tákna getur fyrir mér þýtt tvennt: 

1. Táknið er flókið og skilgreining þess misjöfn eftir aðstæðum. 

2. Skilgreining táknsins er á reiki.

Hægt er að ná fram sameiginlegum skilning einungis í fyrsta dæminu. Allavegna er þá hægt að ná fótfestu í umræðu tengdu tákninu. Ef tákn eru margræð í seinni skilningnum þá er haltur að leiða blindan. 

Nú er ég hættur... 

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 00:52

20 identicon

Tilfinningar mínar og skoðanir gagnvart Svavari Alfreð Jónssyni breyta því ekki hver sá maður er. Nöfnin vísa til ákveðins manns. Til þess að hægt sé að ræða um Svavar Alfreð Jónsson þarf að vera sameiginlegur skilningur um að verið sé að fjalla um sama manninn. Síðan er það annað hvaða tilfinningar ég ber til hans þegar ég tala um hann.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 01:20

21 identicon

Döfull varð mér á þarna! Ef skilgreinng tákna er misjöfn eftir aðstæðum er það afstætt. Hefði frekar átt að segja að margrætt tákn sé flókið tákn sem getur vísað til margra hluta en að hægt sé að skilgreina allt það sem það vísar til.

Bjarki Þór Baldvinsson (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband