Blessaðir óvinirnir

hnifarNú á dögum eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir. Nútíminn er óvinveittur hvers konar óvináttu.

Það veit ekki á gott.

Miklu betra er að eiga ærlega óvini en vini fulla af smjaðri og fagurgala. 

Er ekki pólitíkin á Íslandi ein sönnun þess?

Hægara er að verjast hnífslagi í brjóstið en rýtingsstungu í bakið.

"Við" skilgreinum okkur út frá "þeim". Hluti þeirrar myndar sem ég geri mér af sjálfum mér er sú mynd sem ég hef af óvinum mínum. Því sem ég er ekki og vil ekki vera. Óvinirnir skerpa sjálfsmynd mína.

Sá sem ekki þekkir óvini sína þekkir ekki sjálfan sig. Firring nútímamannsins stafar meðal annars af því að honum er helst ekki leyft að eiga óvini.

Nútíminn vill bæla niður agressjónir. Það er óheilbrigt og leiðir til yfirborðsmennsku og geðrænna truflana.

Getur nokkur átt vini nema hann kunni líka að eiga óvini?

Óvinir eru dýrmætir - enda eigum við að elska þá.

Hvað værum við KA-menn án Þórsaranna?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Þakka þér kærlega fyrir þennan pistil Séra minn. Alltaf málefnalegur. Sérkennilega skrýtin er nú staða lýðræðislega kjörinna fulltrúa Reykjavíkur. Aldei hefði mér nú dottið í hug að ég ætti eftir að upplifa annað eins. Allt er á skjön við allt sem manni var kennt hér áður fyrr, og ráða lygar, hroki, valdagræðgi og óheilbrigð hugsun núna stöðu mála hér í Reykjavík. Skrýtið hversu allt breytist snögglega og á fljúgandi ferð.

En eftir sitjum við borgarbúar eins tvístruð sauðahjörð og vitum lítið í hvora átt við eigum að eða hverja við ættum helzt að snúa okkur. Ekki get ég glaðst, en feginn er ég samt að R.listinn no:2 er sálaður. Hann syrgi ég ekki. Samt veit maður ekki hvað við tekur og er uggur í okkur. Með beztu kveðju.

Bumba, 22.1.2008 kl. 20:10

2 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Meðan þú þrjóskast við að blogga í einkennisbúningi verð ég að lýta á hvert blogg sem predikun! Ég efast um að lögreglumaður fengi að blogga í búning? Mér finnst þetta einkennisbúningablogg frekar ósmekklegt.

En ég er nú bara lítil Uggla!

Vilhelmina af Ugglas, 22.1.2008 kl. 21:33

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ágæta Vilhelmína!

Þér er guðvelkomið að taka bloggið sem prédikun.

Ég er yfirleitt í venjulegum fötum við að blogga. Núna er ég í náttslopp.

Við skulum ræða efni pistilsins - hvernig sem við erum klædd.

Svavar Alfreð Jónsson, 22.1.2008 kl. 21:40

4 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Ég gæti samsinnt þessari grein ef þú tækir út orðið "óvinir" og settir þess í stað "keppinautar". Það er grundvallar munur á óvini og keppinaut. Óvinur þinn hefur gert þér óleik einhvern skaðlegan og svívirt sjálfseignarétt þinn vísvitandi. Keppinautur keppir við þig um þá takmörkuðu auðlind sem er í boði með löglegum hætti, þótt sumir kunna að telja það óheiðarlegt. Keppinautar eru nauðsynlegir, óvinir eru skaðlegir.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 23.1.2008 kl. 11:26

5 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Nei eftir að hafa lesið greinina almennilega aftur verð ég að segja eins einlæglega og ég get, og það er alls ekki ætlunin að vera dónalegur eða ómálefnalegur, en þetta er ein sú allra ömurlegasta grein sem ég hef lesið. Er maðurinn ekki maður nema hann eigi í stríði við aðra? Er þetta að koma frá presti? Verður maðurinn að vera aggresívur gagnvart öðrum til þess að finna sig? Því miður þá staðfestir þetta það sem ég hélt um kristnina, hún elur á skiptingu og stríði, tortryggni og óvissu, við á móti þeim. Þetta veldur mér vonbrigðum, svona kjánafrasar úr biblíunni, hráir og arfavitlausir, þú getur ekki verið að meina þetta.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 23.1.2008 kl. 20:34

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Mér sýnist Sigurði takast prýðilega að fá útrás fyrir sínar aggressjónir í athugasemdinni hér að ofan og óska honum til hamingju með það.

Honum hlýtur að líða skár núna.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.1.2008 kl. 21:48

7 Smámynd: Greta Björg Úlfsdóttir

Ósköp hlýt ég að þekkja sjálfa mig illa, þar sem ég veit ekki til þess að ég eigi óvini, það er að segja ekki persónulega - óvinir mínir eru fátækt, hungur og valdagræðgi sem einskis svífst, til dæmis, og þeir sem standa fyrir slíkt - en þá þekki ég sem betur fer ekki í eigin persónu - kannski er það bara til markst um mitt eigið umkomuleysi?

Greta Björg Úlfsdóttir, 24.1.2008 kl. 16:37

8 Smámynd: Þorsteinn Gunnarsson

Gleðilegt árið Svavar. Félagar mínir í KA reyndar skildu aldrei afstöðu mína til Þórs en hún var sú að ef það ætti fyrir KA að tapa... þá vildi ég helst að það væri gegn Þór. Stigin yrðu þó allalvega eftir heima í héraði.

En þetta með óvinina... Ja sumir ávinna sér bara statusinn persona none grata hjá manni og hætta þar með að skipta mann máli.

Þorsteinn Gunnarsson, 25.1.2008 kl. 03:41

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og ætli sé svo ekki í lagi að blogga allsber? Segja naktan sannleikann!

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2008 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband