Reiðilestur um fjölmiðla

Það sem skiptir máli í íslensku þjóðfélagi er ekki það sem gerist þar heldur hvernig fjölmiðlar fjalla um það sem gerist þar.

Sjálf Spaugstofan virðist hætt að bregða spegli spaugsins á atburði úr íslenskum veruleika. Að eigin sögn voru þeir Spaugstofumenn í nýjasta þætti sínum ekki að gera grín að andlegri lurðu borgarstjórans í Reykjavík heldur því hvernig fjallað var um andlega lurðu borgarstjórans í Reykjavík.

Fjölmiðlafólk landsins er á fullu við að gera okkur grein fyrir því hvernig fjölmiðlafólk fjallar um veruleikann.

Uppáhaldsviðfangsefni fjölmiðla eru fjölmiðlar, einkum þó hinir fjölmiðlarnir. Íslenskir fjölmiðlar virðast fyrst og fremst hafa áhuga á sér sjálfum.

Á sama tíma er skorturinn á faglegri fjölmiðlagagnrýni nánast algjör.

Sú skoðun virðist útbreidd meðal fjölmiðlafólks að það sé heldur verra ef það menntar sig til starfa sinna.

Umfjöllun sem ber vott um góða þekkingu blaðamanns á viðfangsefni sínu er alltof sjaldgæf í íslenskum fjölmiðlum.

Yfirborðsmennskan er allsráðandi.

Veruleikinn í íslenskum fjölmiðlum er sýndarveruleiki.

Fjölmiðlar hafa vald og áhrif.

Íslenskir fjölmiðlar virðast ætla að nota vald sitt og áhrif til að búa hér til aulaþjóðfélag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kærar þakkir fyrir góðan pistil. Þetta er því miður allt satt og rétt. Mér finnst skrýtið hversu lítið er fjallað um hve fjölmiðlun á íslandi er orðin dapurleg. En kannski er það ekkert skrítið - slík umfjöllun myndi náttúrulega fyrst og fremst birtast í fjölmiðlunum. Og það kæra þeir sig ekki um. Sjálfhverfan er algjör en um eigin gæði eða galla fjalla þeir ekki.

 Ég tel að dagblöðin standist enga skoðun á Íslandi. Það heyrir til algjörra undantekninga að þar sé fjallað af einhverri dýpt um málin. Fríblöðin eru að mínu viti algjört rusl, 24 stundir enn verri en Fréttablaðið og Morgunblaðið í mikilli afturför. Ekkert raunverulegt gæðablað er gefið út á íslandi núna en áður fyrr taldi ég Moggann í þeim flokki. Þetta er dapurlegt. En það vekur furðu mína hversu lítið er fjallað um þetta. Ef til vill getur þessi pistill Svavars breytt einhverju.

Ég fjalla ekki um sjónvarp hér vegna þess að ég er löngu hættur að eyða tíma mínum í að horfa á það. Útvarpið er algjört yfirborð nema rás 1 sem ég tel eina frambærilega fjölmiðilinn á Íslandi.

Takk aftur fyrir góðan pistil

Kveðja

Einar

Einar (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 09:29

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Greiningin er að miklu leyti rétt en þó vantar mikilvægan hlekk í ferlið sem ekki er minnst á, en það er upphaf alls þessa. Það eru oftast mikilsmetið fólk sem hleypir umræðunni af stað með orðum eins og "rýtingsstunga", "rýtingasett", "svik og óheilindi."

Þessi orð rata í fjölmiðla sem henda þau á lofti hver úr öðrum alveg eins og almenningur hendir þau á lofti manna á milli.

Að þessu leyti eru fjölmiðlarnir spegill samfélagsins. Sé umræðan komin niður á plan aula í fjölmiðlum var hún kannski komin það áður en hún rataði þangað.

Það léttir hins vegar ekki þeirri skyldu af fjölmiðlum að hefja sig upp fyrir planið eða að kafa dýpra í málin og kryfja þau til mergjar í stað þess að vera vettvangur hnífakasts.

Ómar Ragnarsson, 29.1.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Af hverju má sýna Villa viðutan en ekki Ólaf gúgú?

Í spéspegli sérðu mynd sem þér líkar ekki, en hún er samt af sjálfum þér. Spéspegill þjóðarinnar, í útbreiddum fjölmiðli, getur aldrei sýnt hverjum og einum mynd af sjálfum sér, en hann sýnir samt mynd af stórum hluta þjóðarinnar. Stór hluti þjóðarinnar sér persónur í borgarstjórabyltunni eins og Spaugstofan sýndi þær.

Skop er öryggisventill í samfélaginu. Út um hann er loftað reiði og ótta.

Fólki finnst þrúgandi að upplifa borgarstjórann sem "gúgú" og það léttir á þessarri þrúgandi tilfinningu að fá að hlæja að henni. Þegar allt kemur til alls, þá mun þessi Spaugstofuþáttur frekar hjálpa borgarbúum við að taka Ólaf F. í sátt, en hitt.

Soffía Sigurðardóttir, 29.1.2008 kl. 11:49

4 identicon

Góðan dag!

Greining á hverju? Mér sýnist þetta vera illa undirbyggt og rakalaust tuð. Algerlega marklaust. Dæmalausir sleggjudómar. Svona í svipuðum anda og borgarstjórinn sem óð uppi í öllum fjölmiðlum og sakaði menn um illvilja í sinn garð án þess að nefna eitt einasta dæmi. Hvað er það? Þetta eru alvarlegar ásakanir. Væri það í lagi að ég héldi því fram að ég hefði heimildir fyrir því að prestur nokkur væri argasti heimlisboxari? En ég vildi ekki nefna nafn hans. Því það væri fyrir neðan virðingu mína. Ég vildi ekki fara með umræðuna niður á það plan! Nei, þetta er orðið öfugsnúið.

Einu mennirnir sem voru að saka manninn um að vera andlega vanheill voru þeir sem tóku undir þann söng. Sögðu að verið væri að sparka í liggjandi mann. M.ö.o. að Ólafur F. væri þá veikur fyrir. Ekki hægt að skilja það öðru vísi. En það hefur svo sem lengi verið háttur rökþrota manna að kenna fjölmiðlum bara um allan fjárann -- ekki síst presta einhverra hluta vegna.

Kveðja,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 11:55

5 identicon

Ástandið á fjölmiðlum hér er ömurlegt.  Þar sem ég þekki til hefur mér blöskrað fákunnátta blaðamanna sem um málin fjalla, þar á ég við lyfjamál, heilbrigðismál, byggðamál og fl. og þá spyr maður sig hvort þetta eigi við á öllum sviðum?!!!! Þegar leiðarar blaðanna eru orðnir algjör froða þá er nú fokið í flest skjól. Þorsteinn Pálsson er ábyrgasti leiðarahöfundurinn  þessa dagana að mínu mati. T.d. umfjöllun hans um Sundabraut um daginn, eini maðurinn sem skrifar æsingalaust um það mikilvæga mannvirki.

Ásta J Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 11:59

6 identicon

"Veruleikinn í íslenskum fjölmiðlum er sýndarveruleiki".  Er þetta ekki fulllangt gengið hjá einstaklingi sem er í fullri vinnu við að boða sýndarveruleika? 

Steindór J. Erlingsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 13:40

7 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka góð viðbrögð. Að sjálfsögðu er margt gott í íslenskum fjölmiðlum og þar starfar ágætisfólk. Sumt finnst mér mjög fært fjölmiðlafólk. Ég tek undir með Einari. Gamla gufan er frambærilegasti fjölmiðillinn. Og ég held að ríkissjónvarpinu sé á margan hátt að fara fram.

Ábendingin frá Ómari var mjög gagnleg og ég er sammála honum.

Jakob Bjarnar veldur ekki vonbrigðum og kallar greinina ónefnum. Ég bendi honum á að ég á mörg skoðanasystkin og þau eru alls ekki öll úr stétt presta.

Þróunin hérna á Íslandi er ekki einsdæmi. Á henni hafa verið gerðar rannsóknir og um hana ritaðar bækur. Ég skal gera grein fyrir einni fljótlega. Hún er eftir þýskan blaðamann.

Annars sé ég ekki að það komi þessu máli við hvaða störfum ég gegni og hvet Steindór til að halda sér við efnið.

Svavar Alfreð Jónsson, 29.1.2008 kl. 14:05

8 identicon

Ég er fyllilega sammála þér Svavar, þó að ég sé trúlaus stærðfræðikennari að norðan, svo að greinilega kemur það málinu ekkert við hvaða störfum þú gegnir. Ég hef sérstaklega tekið eftir því hvað vísindafréttir eru hroðalega illa unnar og bera öll merki þess að vera þýddar úr erlendum greinum af fréttamanni sem hefur hvorki þekkingu á vísindum né tungumálum. Það gengur jafnvel svo langt að íslenska fréttin heldur því fram að niðurstöður rannsóknar séu algjörlega þveröfugar við það sem raunverulega kom fram í rannsókninni.

Valdís (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 16:48

9 Smámynd: Sædís Hafsteinsdóttir

Sædís Hafsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:55

10 identicon

Það er gott að einhver virðist loksins vera farinn að átta sig á þessu. Ég var í alvörunni farinn að halda að fólkið í bloggheimum áliti fjölmiðla sem rödd Guðs. Það er vissara fyrir fólk að átta sig á því að svo er alls ekki og vantar sárlega gagnrýni á þá. Það gæti kannski verið ástæðan fyrir því að þeir eru svona slappir.

Húni Heiðar Hallsson (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 21:26

11 identicon

Sæl séra klerkur. Gæti ekki verið meira sammála þér. Frábær pistill. Ef þessu heldur áfram þá verður Ísland 51 ríkið í buschlandi. Þá þarf að ugga um Ísland. Með bestu kveðju.

bumba (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 23:45

12 Smámynd: Ransu

Eitt sinn reyndu útvarpsmenn að ná til hlustenda, sjónvarpsmenn að ná til áhorfenda og blaðamenn að ná til lesenda. Nú reyna allir að ná til neytenda.

Ransu, 30.1.2008 kl. 00:04

13 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Drottinn minn dýri, ef svo má að orði komast!

Hér er fólk að úthúða fjölmiðlafólki villt og galið. Rótin virðist liggja í rakalausum málflutningi um að fjölmiðlar upp til hópa hafi staðið í einhverri aðför að borgarstjóra. Sem er bull. Menn hafa helst viljað benda á svo sem eins og eina grein í DV en að öðru leyti hafa engir getað fundið þessari meintu aðför stað. Yfirleitt þegar fjölmiðlar hafa fjallað um heilsufar borgarstjórans þá er það á faglegan og réttmætan hátt í tengslum við þá pólitísku stöðu að Ólafur borgarstjóri má ekki við því að forfallast eigi nýi meirihlutinn að halda velli. Forföll geta komið til af hinum ýmsustu ástæðum.

Aftur á móti er það yfirleitt satt og rétt á flestum tímum að fjölmiðlafólk megi almennt og yfirleitt standa sig betur faglega. Það eru vissulega uppi vandamál í faginu. Mörg þeirra má rekja til vinnuaðstæðna með miklu vinnuálagi, kröfum um mikla framleiðni, tímapressu, útgjaldasparnaðar eigenda og linku æðstu stjórnvalda gagnvart eftirspurn almennings eftir "léttmeti" og afþreyingu annarri. Hafiði skoðað hvaða efni er mest lesið á veffjölmiðlum til dæmis? Britney Spears, Paris Hilton, nauðganir og önnur afbrot o.s.frv.

Á hinn bóginn er fjölmiðlun á Íslandi í dag hátíð miðað við grautinn sem áður var boðið upp á, í tíð flokksmálgagnanna, einnar sjónvarpsstöðvar, einnar útvarpsstöðvar, ófædds Internets og áfram mætti telja. Muna sumir ykkar eftir því þegar fréttamenn þéruðu ráðherra og tóku við pöntuðum spurningum frá þeim?

Fjölmiðlafólk dagsins í dag veit vel af ýmsum vanköntum fagsins og ræða sín á milli á fundum og í greinum reglulega og tekur kollegana á beinið mjög oft og einnig til dæmis á vettvangi siðanefndar.

Það kann vel að vera að fjölmiðlafólk sé helst til sjálfhverft. það hefur ef til vill lesið of mikið í augljósan áhuga stórs hluta almennings á einmitt fjölmiðlafólki. Ég get ekki beint sagt að það hafi komið mér á óvart, þegar ég sá í lok umfjöllunar Kastljóssins frá Vestmannaeyjum vegna afmælis gossins hvar hópur ungmenna umkringdi Þórhall Gunnarsson og Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur að biðja um eiginhandaráritun. Sumir fræðingar halda því fram, séra Svavar Alfreð, að sjónvarpsherbergi heimilanna séu hin raunverulegu altari nútímans! ÞAR sameinast fjölskyldan í andakt, en ekki í kirkjum landsins.

Og ætli prestar landsins geti státað sig mikið af faglegri frammistöðu sinni á heildina litið? Á hverju ári eru meðal helstu tíðnda deilandi prestar, sóknarnefndarmenn og organistar. Stundum oft á ári. Sumum ferst að tala um sýndarveruleika og skort á sjálfsskoðun. Hvað segir þú um þann dóm séra Svavar Alfreð að ár eftir ár fækkar hlutfallslega umtalsvert í Þjóðkirkjunni en á sama tíma eykst fjölbreytnin í fjölmiðlun og fjölmiðlaneyslan? Er það kannski út af slíkri þróun sem prestar landsins leita helst í leikskólana til að finna einhver áhugasöm eyru og augu? Hvílík frammistaða! Hvílík fagmennska! Hvílíkur sýndarveruleiki!

Fjölmiðlafólk ræðir oft hvernig það getur staðið sig betur og áherslan á menntun og sérhæfingu er aldeilis ekkert tabú eða víkjandi. Ég hef setið ótal fundi og skrifað og lesið ótal skrif um þetta. Mér virðist prestar hins vegar afar lítið líta í eigin barm - og hana nú!

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.1.2008 kl. 02:06

14 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég þakka enn og aftur nýjar athugasemdir.

Ekki síst þykir mér vænt um langa og góða athugasemd Friðriks Þórs. Ég tek undir það með honum að Þjóðkirkjan þurfi að ástunda sjálfsskoðun. Siðbót kirkjunnar er aldrei lokið.

Ég er líka sæll og glaður með að Friðrik Þór sé mér sammála um að fjölmiðlar nútímans eigi í ákveðnum vanda - alveg burtséð frá bramboltinu í stóra húsinu við Reykjavíkurtjörn.

Ég er ekki viss um að deilur presta og organista tengist þessu máli og geri prestar of lítið af því að líta í eigin barm eins og Friðrik heldur fram er það heldur engin skýring á vanda fjölmiðlanna.

Vandi fjölmiðlanna á sér margar skýringar en að mínu mati hittir Friðrik Þór naglann á höfuðið þegar hann nefnir til sögunnar meira vinnuálag og  kröfur um framleiðni í kjölfar síaukinnar markaðsvæðingar fjölmiðlanna.

Litið er á lesendur, áhorfendur og hlustendur sem neytendur eins og Rannsu bendir á.

Tæknilega hafa fjölmiðlar miklu meiri möguleika nú en áður en ég efast um að þeir séu fjölbreyttari í dag en fyrir nokkrum árum. Mér finnst þróunin vera þveröfug.

Fjölmiðlar sem trúarbrögð er mjög áhugavert mál og um það hefur verið töluvert ritað.

Ég var búinn að lofa því að gera grein fyrir merkilegri bók um vanda fjölmiðlanna hér á síðunni minni og bæti við loforði um að segja frá tveimur bókum sem fjalla um trúarlega vídd fjölmiðla.

Svavar Alfreð Jónsson, 30.1.2008 kl. 10:16

15 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Ég þakka þér fyrir jákvæð viðbrögð við reiðilestri mínum, séra Svavar Alfreð. Og hlakka til að lesa umfjöllunina um "merkilega bók" um vanda fjölmiðlanna. Hvaða bók er það? Ég leyfi mér að benda á stórmerka og djúphugsaða bók um hið sama: bókina "Good work" eftir Howard Gardner og fleiri. Ég skal lána þér hana ef þú finnur hana ekki. Ég skal líka lána þér meistararitgerð mína þar sem tekið er á helstu vandamálum íslenskrar fjölmiðlunar með skoðanakönnun og fjölmörgum tilvitnunum í rjóma íslenskra fjölmiðlamanna um frammistöðu stéttarinnar.

Auðvitað koma deilur presta innbyrðis málinu ekkert við. Ég er bara að nota gamla trixið: Svo má böl bæta að benda á annað verra!! 

Friðrik Þór Guðmundsson, 30.1.2008 kl. 12:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband