Hin bljúga bæn

Bæn er meira en orð og hugsanir.

Bæn er þögn. Bæn er vitundin um að maðurinn er hvorki sá sterkasti né sá æðsti. Bæn er óhugsandi án auðmýktar. Bæn er að vita að maður á ekki heimtingu á hlutunum.

Bæn er sú viska að vita sig ekkert eiga. Hún er allsleysi og nekt. Hún er fátækt. Hún er hið sanna tungumál öreigans.

Bænin er andstæða lífshátta nútímans. Nú á dögum eigum við heimtingu á öllu. Nú gildir að gera kröfur til lífsins. Fá mikið út úr því. Kreista það.

Nútíminn trúir ekki á neitt nema þetta líf. Við höfum ekki nema þessa einu ævi. Þessi veruleiki er okkar eini séns. Og stöðugt sá síðasti.

Tækifærið er að renna okkur úr greipum. Stundaglasið gæti verið að tæmast.

Við lifum í skugga dauðans og menning nútímans er á margan hátt dauðamenning. Miðuð við dauðann en ekki lífið.

Sá sem biður þorir að vera auðmjúkur. Hann segir: "Verði þinn vilji." Hann treystir framvindunni.

Bæn er að treysta lífinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júdas

Þetta var góður pistill Svavar.  Stuttur en sagði mikið.  Þögn, vitund, auðmýkt, allsleysi, fátækt, traust..............

Júdas, 6.2.2008 kl. 23:26

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Bæn virkar ekki. Það er margsannað af fjölda vísindalegra tilrauna hjá virtum háskólum.  Það er bara eitt líf og ekki reyna að fullyrða um að þþú vitir betur.

Samkvæmt þessu er bænin táknmynd ömurlegustu gilda: Fátæktar, niðurlægingar, þrælsótta, allsleysis.  Hverju ertu eiginlega að reyna að koma á framfæri hér?  Þinni eigin sjálfhverfu göfgi?

Til hvers að biðja ef þér er gert að treysta framvindunni? Að treysta framvindunni er að láta sér kúgun og yfirgang lynda. 

Jón Steinar Ragnarsson, 7.2.2008 kl. 10:48

3 identicon

Bæn er ekki pöntun, tilkynning um að manni þóknist að fá eitthvað og nú skuli sá sem heyrir bænina gera svo vel að vera handfljótur að hlýða. Þeir sem halda að "bæn virki ekki", þeir hafa sennilega tekið feil á bæn og pöntun.

Bænin gerir þeim sem raunverulega biður mikið gagn. En það er ekki víst að hann fái nákvæmlega það sem hann óskar sér á bænarstundu. Eða eins og Hallgrímur segir svo réttilega, Jesús veit hvað til liðs er nú / langt um betur en sjálfur þú.

Þ. (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 15:45

4 Smámynd: Kristján Hrannar Pálsson

Var svarið mitt tekið út? Það var málefnalegt og rökstutt. Svona líst mér ekki á.

Kristján Hrannar Pálsson, 7.2.2008 kl. 19:02

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Það er full ástæða að biðja hressilega fyrir þeim sem banna náunganum að fullyrða hluti en fullyrða sjálfir um sömu hluti - í sömu setningu.

Ég þakka Þ fyrir góða athugasemd.

Kristján: "Svarið" þitt var svo málefnalegt og vel rökstutt að þú veist auðsýnilega ekki við hvaða færslu það var gefið.

Vilt þú annars ekki hafa það hérna?

Eða eigum við að færa það?

Svavar Alfreð Jónsson, 7.2.2008 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband