Góður kennari og Guð

glanni

Skólar landsins hafa flestir lokið störfum. Vinkona okkar var að útskrifast úr háskóla og í gærkvöldi samfögnuðum við hjónin henni og eiginmanni hennar.

Til hamingju, Yrsa!

Hvað gerir kennara góðan?

Er það spurning um hvernig honum gangi að kenna námsefnið?

Veltur það kannski ekki síður á því hvernig hann kemur fram við nemendur sína?

Eða má orða það þannig að enginn geti í raun kennt námsefni nema hann komi vel fram við nemendur?

Kennarar þurfa að kunna ýmislegt fyrir sér.

Um leið er kennsla fag sem ræðst af persónu kennarans. Sumir kennarar hafa það í sér að vera kennarar.

Þegar ég lít til baka eru mínir bestu kennarar þeir sem hafa látið mig finna að ég sé mikilvægur og dýrmætur í öllu sem þeir sögðu og gerðu. Þeir báru virðingu fyrir mér sem einstaklingi og höfðu lag á að láta mér líða eins og ég væri eitthvað.

Ef til vill er það þetta sem gerir kennara góðan: Hann hlustar ekki bara á börnin. Hann hlustar á barnið. Hann gerir sér grein fyrir að ekki eru öll börn eins. Hann reynir ekki að steypa þau í sama mótið. Hann veit að þau hafa mismunandi þarfir og hæfileika. Hann veit að ekki er hægt að gera sömu kröfur til þeirra allra. Hann veit að ekki dugar sama kennsluaðferðin á þau öll og það er heldur ekki hægt að nota sama námsefnið á þau öll - hvað þá sömu prófin.

Góður kennari veit að það er ómögulegt að nota einhverja eina leið til að börnin uppgötvi hæfileika sína og finni þeim farveg.

Góður kennari er að þessu leyti eins og góður Guð.

Guð kristindómsins er persónulegur. Hann lætur sér annt um persónur. Hann lítur ekki á manninn sem hjól í gangverki. Við erum ekki kennitölur í augum hans.

Hann þekkir mig. Hann veit hver ég er. Hann gerir sér far um að nálgast mig. Hann sér hvað í mér býr. Hann veit hvað er mér fyrir bestu. Hann hefur áhuga á mér.

Hann vill vera félagi minn.

Og kennari.

Myndin: Fossinn Glanni í Norðurá var í sumarskapi þegar ég hitti hann á föstudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ágæti Svavar,

þakka þér fyrir þennan afburðagóða pistil. Ég er svo hjartanlega sammála þér og þótti þetta gott nesti inn í daginn.

Gangi þér áfram vel að byggja upp þrek og þrótt.

Hólmfríður Pétursdóttir, 14.6.2009 kl. 12:24

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Barn gleypti batterí og dó eftir að 11 læknar höfðu neitað að taka röntgenmynd. Hvernig birtist áhugi guðs á þessu barni? Og var þetta barninu fyrir bestu? 

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.6.2009 kl. 18:21

3 identicon

Miðað við biblíu þá vill guðinn ykkar bara vita hvort við trúum á hann eða ekki.. svo hann geti pyntað þá sem trúa ekki bókinni.

Hvar fáið þið út kærleika... miskunn

Góður kennari samkvæmt ykkur er sá sem myrðir alla í bekknum nema uppáhalds nemanda sinn.. það er guð

DoctorE (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 07:59

4 identicon

Takk fyrir kveðjuna Svavar OG þetta var áhugaverð lesning! Hafið það gott í Rvk, þangað til næst, bless, YHH

Yrsa Horn Helgadottir (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 11:43

5 Smámynd: Sigurjón

Sæll Svavar.

Mínir beztu kennarar í gegnum tíðina hafa verið fremur strangir og kennt af hugsjón, fremur en af menntun og reynzlu.  Ég get með sanni sagt að ég hafi ekki haft góða kennara yfir höfuð um ævina, nema örfáa sem hafa annað hvort pískað mig áfram og haf þ.a.l. trú á því að ég gæti þetta eða kennara sem hafa haft mikla hugsjón og reynt eftir fremsta megni að fá mig til að skilja hvað þeir upplifðu í viðkomandi fræðum.  Fyrri týpan náði miklu betri árangri en sú seinni.  Seinni týpan var samt betri á þeim tíma, þó seinni tíma athugun hafi leitt í ljós að það sem hún setti á borð virkaði ekki sem skyldi.

Góðar stundir.

Sigurjón, 21.6.2009 kl. 03:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband