Alveg satt

kaldbakur

Það er hægt að efast um alveg ótrúlega margt.

Nú á dögum er pínulítið í tísku að efast um Guð. Eða himnaríki.

Það er gott.

Það eru góð meðmæli með fyrirbæri ef hægt er að efast um það.

Ég get til dæmis efast um ástina.

Svo er hægur vandi að efast um vináttuna, heiðarleikann og einlægnina svo önnur dæmi séu tekin.

Þegar grannt er skoðað er hægt að efast um flest af því sem skiptir máli.

Og Guð hjálpi þeim sem hefur aldrei efast um sjálfan sig.

Sannleikurinn er ekki borðleggjandi, ískaldar og óvéfengjanlegar staðreyndir.

Sannleikur sem stendur undir nafni liggur ekki á neinu borði.

Hann verður ekki sannur fyrr en þú lyftir honum upp af borðinu og kemur honum fyrir í hjarta þínu.

Það verður satt þegar þú hefur tileinkað þér það og gert það hluta af þér sjálfum.

Einkenni á almennilegum sannleika er að þú verður að gjöra svo vel að taka afstöðu til hans.

Þú verður að velta honum fyrir þér.

Sé það alvöru sannleikur verður þú að hafa fyrir honum.

Ef þú efast um eitthvað gæti það því verið vísbending um að það sé alveg satt.

Myndin: Kaldbakur og blámóðufylltur Eyjafjörðurinn eins og sú dýrð blasir við úr Naustaborgum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Sæll Svavar

 Efast þú um Fljúgandi Spaghettískrímslið? (http://en.wikipedia.org/wiki/The_flying_spaghetti_monster)

Svo má nú alltaf benda á að ef eitthvert fyrirbæri hefur alla þá eiginleika einhvers sem ekki er til, en enga þá eiginleika sem fyrirbæri sem eru til hafa, þá skiptir ekki máli hvað þú kallar fyrirbærið eða hvort þú segir að það sé til. Það hefur ekkert upp á sig að segja að slíkt fyrirbæri sé til því það hefur engin þau áhrif sem fyrirbæri sem eru til hafa. Eins og þeir myndu segja á útlensku "for all intents and purposes" er það ekki til.

En spaghettí og kjötbollur eru sannarlega til.

En ég hef aldrei þurft að efast beinlínis, því að til að efast um hugmynd þá verðurðu fyrst að hafa haft þá hugmynd. Þ.e.a.s. þú verður að byrja á þeim endanum. Ég er handviss um að græni Marsbúinn, sem er kannski á leiðinni, efast ekki um tilvist Guðs/guðs/osfrv því hann hefur ekki hugmyndina í kollinum. Hann nálgast hugmyndina frá annari hlið en stór hluti mannkyns gerir því miður.

Kannski að trúarbatteríið ætti bara að koma út úr skápnum og segja: "Við trúum á hlut sem ekkert bendir til að sé til! Okkur er alveg sama um sannleika, vísindi og spaghettískrímsli, láttu okkur í friði!" En það er svo aftur spurning hversu mikinn rétt slíkt batterí á til að nýta sér svo sannleikan og vísindin. Að fá bara bestu bitana og skilja rúsínurnar eftir (ég þoli ekki rúsínugrjónagraut).

Annars er mér nokkuð sama. 

Takk fyrir skemmtilega færslu.

Mbk,
Drengur
(Er ekki meðlimur í trúar- eða ekkitrúarneinu, en var einu sinni skáti)

Drengur Óla Þorsteinsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband