Nýja Ísland, hvar ert þú?

DSC_0320

Hrunveturinn 2008 - 2009 var okkur erfiður. Fótunum var kippt undan okkur. Þjóðin fattaði að hún hafði verið blekkt og svikin.

Þessi erfiði vetur var samt ekki alslæmur. Mikil umræða var um stjórnmál og gildi. Tilfinningaþrungnar og vekjandi ræður bárust út í frostið á Austurvelli á fjölmennum mótmælafundum. Fólk ræddi af brennandi áhuga um siðferði og þjóðmál á mannamótum. Það hittist á borgarafundum, stórum sem smáum.

Fólk var ekki sammála en það vildi samt snúa saman bökum. Það var vongott, þrátt fyrir allt. Það var í og með fegið.

Við föttuðum ekki bara svikin og blekkingarnar. Við sáum að síðustu árin hafði þjóðfélagið okkar verið klikkað.

Við söknuðum gamalla og góðra gilda og vildum endurvekja þau. Við vildum búa til nýtt Ísland. Afmá það gamla. Reka út illu andana en blása inn öðrum betri.

Nú er pottaglamrið þagnað. Allt er að færast í sama horfið.

Græðgisöflin eru að ná yfirhöndinni aftur.

Þau halda sínu. Peningar þeirra eru þar sem þeim var komið fyrir rétt áður en allt hrundi. Fjölmiðlar þessara afla eru enn í eigu þeirra. Enginn hefur verið ákærður.

Og umræðan er að færast á 2007-planið.

Eitt dæmi um það er hvernig við erum farin að nota hugtakið "traust".

Fólk í Evrópu lagði peningana sína inn á Icesave-reikningana vegna þess að það treysti Landsbankanum. Það treysti íslenskum banka.

Þessi íslenski banki brást því trausti.

Fjárglæframennirnir allir eiga það sameiginlegt að þeir brugðust trausti.

Nú á að velta skuldum þessara manna yfir á íslenska alþýðu með þeim rökum að Ísland þurfi traust.

Þjóðin sem var svikin og svívirt á að kaupa traust handa þeim sem eyðilögðu traustið.

En traust er vandmeðfarið og brothætt.

Það er ekki traustvekjandi að láta þá leika lausum hala sem eyðilögðu traustið. 

Það er ekki traustvekjandi að láta þá í friði sem notfærðu sér traust annarra til að svíkja og pretta.

Þau stjórnvöld eru ekki traustvekjandi sem ljúga að þegnum sínum og fela sannleikann fyrir þeim.

Það ríki er ekki traustvekjandi sem er sjálfu sér sundurþykkt á örlagatímum í stað þess að sameinast um að koma sér út úr ógöngunum.

Það traust sem er keypt með því að velta skuldum græðgisaflanna yfir á saklaust fólk og ófæddar kynslóðir Íslendinga er ekki peninganna virði.

Ég endurtek það sem ég hef áður sagt:

Ísland hefur ekkert með traust að gera fyrr en búið er að vinna heimavinnuna.

Við þurfum að vera trú yfir smáu áður en við getum búist við að vera treyst fyrir öðru.

Á hinu nýja Íslandi þarf að endurvekja hinar gömlu og góðu dyggðir heiðarleika og réttlætis.

Nýtt Ísland þarf að sýna að það sé traustsins vert.

Myndin: Fundur í snæfellskri fjöru

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Thakka godann pistil og velvarin ord, eins og alltaf hja ther.

Bestu kvedjur.

Islendingur (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 15:15

2 identicon

Í nafni heiðarleika og réttlætis þarf hið nýja Ísland líka að vera laust við ríkisátrúnað og kirkjubákn. Við vitum báðir tveir hvers kyns óheiðarleg lygaþvæla það er sem ríkisrekna költið byggir á. Og ekkert réttlæti er í því að ég og aðrir sem höfnum draslinu þurfum að standa undir hluta þess með skattgreiðslum okkar.

Birgir Baldursson (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 16:44

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Þú skrifar yndi.

Steingrímur Helgason, 31.7.2009 kl. 23:10

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Hjartanlega sammála þér. Fyrst þarf að vinna heimavinnuna og síðan huga að því hverjir eru vinir okkar. Það er ljóst að gömlu vinirnir og grannlönd okkar brugðust þegar við leituðum til þeirra. ESB hefur brugðið fyrir okkur fæti, ekki einusinni heldur oftsinnis. Við þurfum að læra að huga öðruvísi. Þeir dagar þá er við buðum öllum upp á drykk á barnum eru liðnir. Að kankast við þá gengur ekki lengur, þeir hurfu um leið og peningarnir hurfu.

Við þurfum fyrst að vinna heimavinnuna, ná trausti þjóðarinnar og vinna samstillt að nýja Íslandi, áður en við ætlum að fara borga iðgjöld ýmissa landa í ESB.

Baldur Gautur Baldursson, 1.8.2009 kl. 09:16

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Alltaf gaman að lesa þig Svavar.

Takk

Sigurður Þórðarson, 1.8.2009 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband