Færsluflokkur: Bloggar

Hátíðarrakspírar á glansandi kjömmum

DSC_0373 

Árdegismessa á páskadagsmorgni: Við vöknum með deginum og höldum til kirkju eftir morgunsturtuna með hárið rakt og glansandi nefbrodda. Þeir karlar sem vöknuðu nógu snemma strjúka nýrakaða kjamma hér á kirkjuhlaðinu og í forkirkjunni safnast upp þungur ilmur af dýrum hátíðarrakspírum. Þessi messa á alveg sérstaka stemmningu. Á aðfangadagskvöld mættum við í messurnar þreytt og spennt  eftir langan undirbúning en í dag komum við hingað nývöknuð og fersk. Sé sólskin á þessum morgni, sem oftast er, alla vega í minningunni, er sólin einstaklega sterk og skin hennar óvenju skærgult.

Árdegismessa á páskadegi ilmar af lífinu. Í byrjun enn eins ævidagsins sem okkur er gefinn látum við verða okkar fyrsta verk að ganga í guðshús til að lofa lífið: „Sigurhátíð sæl og blíð" og „Dauðinn dó en lífið lifir," eru upphafslínur frægra páskasálma. Glansandi nefbroddar og dýrir rakspírar minna okkur á mátt lífsins, ríkidæmi þess og blessun. Lífið, ljósið, sigurinn, blessunin og gæskan. Þetta er lið páskanna. Í liði andstæðinganna spila á hinn bóginn dauðinn, myrkrið, niðurbrotið, bölvunin og illskan.

II

Þegar þessi lið leiða saman hesta sína finnst okkur gjarnan að það síðarnefnda sé sigurstranglegra.  „Mors certa, hora incerta" hljóðar ævafornt latneskt máltæki. „Dauðinn er viss en stund hans óviss". Þarna er á ferðinni þessi gamla og sígilda upplifun mannsins af eigin endanleika og dauðans óvissa tíma. Manneskjan veit að hún deyr og stundum er sú vissa svo yfirþyrmandi að hún veit betur að hún deyr en að hún lifir. Nefbroddarnir eru ekki alltaf glansandi og kjammarnir ekki nýrakaðir. „Er þetta elliblettur þarna á nefinu? Mikið ósköp eru hárin orðin grá á vanganum?" spyrjum við. Og enda þótt margir leiti logandi ljósi að ljósum blettum í tilverunni þarf ekki annað en næsta fréttatíma til að sjá að myrkrið er að gleypa þá. Svartur á leik og hann er að vinna taflið. Og við erum alltaf að tapa, mennirnir, alltaf að bíða ósigra. Það er sama hvað við leggjum á okkur, það er aldrei nóg, aldrei fullnægjandi, okkur er alltaf að mistakast. Við erum taparar því taparar eru betri neytendur en sigurvegarnir gætu orðið svo ánægðir, að þeir gætu örlitla stund leyft sér að vera mettir og una sælir við það sem þeir hafa. Og blessunin? Hvar er hún? Má hún sín ekki lítils andspænis hinni yfirgnæfandi bölvun í þessum heimi, allri þjáningunni, öllu ranglætinu, spillingunni, græðginni og ómennskunni? Já, svo sannarlega er auðvelt og nærtækt að draga þá ályktun að illskan sé sterkasta aflið í þessum ómögulega heimi og gæskan sé dæmd til að tapa.

Það er ekki nema von að margir veðji á liðið sem teflt er fram gegn liði páskanna á leikvangi lífsins. Svartur á leik.

III

Um daginn sá ég heimildarmynd þar sem fólk á förnum vegi í Berlín var spurt að því af hverju haldnir væru páskar. Enginn aðspurðra vissi það - nema einn, múslimskur kaupmaður í sölutjaldi. Hann benti á, að kristnir menn fögnuðu páskum af því að þeir héldu því fram, að þá hefði Jesús risið upp frá dauðum. Honum fannst reyndar mjög ótrúlegt að Jesús hefði gert það en engu að síður væri þetta nú inntak kristinna páska.

Nú veit ég ekki hversu margir eru sama sinnis og þessi kaupmaður í Berlín eða hvort Íslendingar séu betur að sér um páskana en Berlínarbúar, en ef til vill er það ekki bara við vankunnáttu að sakast, sé þessi hátíð að missa sitt trúarlega gildi. Ef til vill hefur okkur, sem falið er það hlutverk að koma á boðskap páskanna á framfæri við fólk, þannig að það skilji hann og finnist hann mikilvægur, ef til vill hefur okkur mistekist?

Það er hárrétt hjá íslamska kaupmanninum, að á þessum morgni fögnum við því að Jesús reis upp frá dauðum. Þó snúast páskarnir ekki einungis um það. Páskarnir hafa ekki raunverulega þýðingu fyrir okkur ef við tengjum okkur ekki við þann atburð, sama hvað við leggjum okkur fram við að trúa að hann hafi gerst. Ef hann hefur engar afleiðingar fyrir okkur, ef hann kemur engu til leiðar í lífi okkar, ef hann breytir engu, þá eru páskarnir án merkingar fyrir okkur.

IV

Ótrúlega margt er á okkur mannfólkið lagt og þess vegna er svo nærtækt að trúa frekar á dauðann en lífið, trúa meira á myrkrið en ljósið, vera trúaðri á niðurbrotið en sigurinn, trúa á bölvunina fremur en blessunina og hafa meiri trú á illskunni en gæskunni.

En þá koma páskar. Þeir eru til að efla trú okkar á lífið. Páskarnir segja: Trúðu frekar á lífið en dauðann og gæskuna frekar en illskuna. Barátta mannsins er margháttuð og hann berst á mörgum vígstöðum í einu. Hann berst við sig sjálfan og eigin endanleika, hann berst við loftslagsbreytingar sem gert gætu jörðina óbyggilega, hann á í stöðugri baráttu við ranglæti og græðgi, hann þarf að berjast gegn hungri og misskiptingu. Í öllum þessum baráttum þarf maðurinn að trúa því að viðleitni hans sé til einhvers. Hann þarf að trúa á mátt lífsins, hann þarf að trúa styrkleika liðsins sem spilar fyrir páskana.

V

Stundum er talað um kristna menn og aðra sem vilja trúa á það góða sem einfeldninga. Trú þeirra sé barnaleg. Allt það vonda sé svo óskaplega máttugt í veröldinni að aðeins einfalt fólki geti leyft sér trú á það góða.

En kristnir menn gera ekki lítið úr illskunni og þjáningunni. Föstudagurinn langi er tileinkaður þeim veruleika en einmitt sá dagur er skotspónn margra, sem finnst það ofrausn, að þjáningunni sé tileinkaður einn af 365 dögum ársins, þótt þjáningin sé raunveruleg í mannheimum alla daga og öll ár.

Páskarnir koma ekki til okkar án samhengis. Sigur Jesú á dauðanum og illskunni, hatrinu og myrkrinu, er í samhengi við það sem gerðist á föstudaginn langa. Illskan og þjáningin eru raunveruleg fyrirbæri. Guð ljóssins og blessunarinnar, hann er ekki bara þar, hann er líka með þér í myrkrinu, í þjáningunni og öllum dölunum dimmu.

Ekki byrja allir morgnar eins og þessi, með glansandi nefbroddum og nýrökuðum karlmannskjömmum. Sumir morgnar renna upp eftir andvökunætur, eftir  vonbrigði, sorgir og svo mikið myrkur að sólin sést ekki þótt hún sé upp runnin.

Páskarnir vilja gefa þessum morgnum öllum birtu sína og von: Kristur er upprisinn! Hann hefur sigrað dauðann! Illskan er brotin á bak aftur. Dauðinn dó, en lífið lifir og nú höldum við sigurhátíð sæla og blíða.

(Páskaprédikun mín í Akureyrarkirkju frá því í fyrra)


Eldurinn inni í okkur

DSC_0314 

Á leiðinni heim úr vinnunni í dag var ég með opið fyrir útvarpið og útvarpsfólkið hafði opið fyrir símann. Hlustendur hringdu inn skoðanir og dembdu þeim yfir landsmenn eins og mig sem sat grandalaus í volvónum mínum.

Þegar ég kom heim fór ég á netið. Þar var líka fólk með skoðanir og því lá mikið á hjarta. Ég er eins og hinir og hef skoðanir. Allir eru að tjá sig og þeir sem ekki tjá sig eru eitthvað heftir. Raddirnar hrópa á okkur en eru orðnar svo margar að við erum löngu hætt að heyra neitt nema þungan dyn. Allir hafa eitthvað að segja en enginn heyrir það.

Að sjálfsögðu er gott að geta tjáð sig og leggja sitt til málanna.

Það er á hinn bóginn líka gott að þegja og nú þegar kyrravika er framundan, dagarnir fyrir páska, er við hæfi að tjá sig um þögnina og viðra skoðanir sínar á kyrrðinni.

Hollenski presturinn og rithöfundurinn Henri Nouwen talar um að andlegt líf felist í því að verja eldinn sem brennur inni í okkur öllum. Nouwen segir að ef við höfum dyrnar á ofninum okkar opinn of mikið og of lengi í einu brenni allt upp í honum. Þá verði ekkert eftir inni í okkur nema aska og sót.

Við megum gjarnan hafa ofninn opinn og leyfa öðrum að njóta hitans með okkur en við verðum líka að kunna að loka honum og verja eldinn. Þegar við lokum augunum og biðjum, þegar við hugleiðum, þegar við þögnum og kyrrum hug og sál, þegar við skynjum nálægð þess heilaga, þegar við reynum að komast í tæri við uppsprettu lífsins, þegar við erum ein með öðrum og fallegri tónlist eða góðri bók, þá erum við að loka ofninum og glæða hinn guðlega eld sem logar inni í okkur öllum.

Þegar hann hefur náð að lifna og loga geta aðrir ornað sér við ylinn frá ofninum og stundum verður ratljóst í þeim bjarma.


O tu, Akureyri, terra adorata

DSC_0327 

„Vor Akureyri er öllum meiri, með útgerð, dráttarbraut og Sjallans paradís. Við höfum Lindu, við höfum KEA og heilsudrykkinn Thule, Amaro og SíS," var einu sinni sungið.

Við Akureyringar þykjum vera barnslega hrifnir af heimabæ okkar og höfum af þeim sökum mátt þola háð og spott þess drjúga hluta veraldarbarna sem ekki er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera frá höfuðstað Norðurlands.

Þó hafa Akureyringar það sér til málsbóta að þeir eiga inni fyrir öllu þessu stolti, ólíkt flestum öðrum því þessi átthahagaást þekkist víðar en á Akureyri.  Hún er heldur ekki séríslenskt fyrirbæri og alls ekki ný af nálinni.  „Römm er sú taug, er rekka dregur föðurtúna til," orti rómverska skáldið Óvíd skömmu fyrir Kristsburð.

Undanfarið hef ég verið að lesa stórskemmtilega sögu Ítalíu eftir sagnfræðinginn David Gilmour (sem er held ég ekki David Jon Gilmour úr hljómsveitinni Pink Floyd).

Ein helsta niðurstaða Gilmour er sú að Ítalía hafi í raun aldrei verið ein þjóð og tilraunin til að búa hana til hafi misheppnast.  Hann segir ítalska þjóðarvitund fremur veika. Í stað hennar binst fólk átthögunum, héraðinu, borginni eða þorpinu. Það fyrirbæri nefnist campanilismo  á ítölsku og er dregið af orðinu campanile, sem þýðir klukkuturn.

Kampanílismi er að vera hugfanginn af klukkuturninum sínum. Kampanílistum líður best þegar sá turn er sýnilegur. Kampanílismi er  einskonar staðbundin föðurlandsást, átthagahyggja eða parókíalismi.

Akureysk átthagadýrkun smellpassar inn í þessa ítölsku skilgreiningu því turnar Akureyrarkirkju eru eitt helsta tákn bæjarins. Akureyringar tala gjarnan um aðkomumenn. Ítalskir kampanílistar eru eins þenkjandi og nota hugtakið forestiero um þau fyrirbæri.

Þetta heimabæjarblæti Akureyringa og Ítala er gjarnan talið fremur neikvætt og hvimleitt eins og það getur vissulega getur verið, með sínum fylgifiskum, þröngsýninni, hrokanum og fordómunum.

Gilmour sér þó margt jákvætt við kampanílisma og segir hann fólginn í tryggð við sögulegt og sjálfbært félagslegt form sem búið sé að þróa lengi í þeim tilgangi að það geti sinnt þörfum þegna sinna.  

Helsta ástæða þess að í mörgum borgum Ítalíu er lögð mikil áhersla á að viðhalda mynd miðbæjanna er ekki einhver þáþrá eða nostalgía, heldur ábyrgðartilfinning íbúanna og vitund þeirra um sameiginlega sögu.  Þótt Akureyri sé ekki nema ungbarn í samanburði við háan aldur flestra ítalskra bæja getur það ef til vill skýrt draum margra Akureyringa um að Ráðhústorgið komist aftur í sína gömlu mynd.

Það er ekki af þröngsýni einni saman sem íbúarnir í borginni Lucca taka hin gömlu kaffihús heimamanna fram yfir alþjóðlegar kaffihúsakeðjur heldur eru gömlu kaffihúsin hluti af lifandi hefð og sjálfsvitund borgaranna.

Sá misskilningur er útbreiddur að kampanílismi sé ávísun á einangrun og heimóttarskap. Í bók sinni  segir Gilmour frá blaðamanninum Beppe Severgnini sem bjó um árabil í London og Washington, sagði stríðsfréttir frá Líbanon, lýsti íþróttaviðburðum frá Peking og er heiðursforseti knattspyrnufélags í Kabúl í Afganistan. Eftir allan sinn þvæling snéri hann heim til Crema, 33.000 manna smáborgar nálægt Mílanó. Nú býr hann í húsinu þar sem hann fæddist  og er kvæntur konu sem ólst upp þar rétt hjá.

Gilmour vitnar í bók eftir Severgnini þar sem þessi víðförli Langbarði útskýrir af hverju hann flutti aftur heim til Crema. Þær útskýringar eru ágætis útlistun á þessu alþjóðlega fyrirbæri, campanilismo.

In a small town, we don´t just want a congenial barber and a well stocked news-stand. We want professionally made coffee and a proper pizza. We want a couple of streets to stroll down, an avenue to jog along, a pool to swim in and a cinema for a bit of entertainment. We want a functioning courthouse, a reassuring hospital, a consoling church and an unintimidating cemetery. We want a new university and an old theatre house. We want football fields and town councillors we can pester in the bar. We want to see the mountains beyond the level crossing when the weather´s good and the air is clear. We want footsteps on cobbled streets in the night, yellow lights to tinge the mist and bell towers we can recognize from a distance. We want doctors and lawyers who can translate abstract concepts into our dialect - my father can - and people with a kind word and a smile for everyone... We want all these things and in Crema we have them.

Og kannski má að sumu leyti líkja Evrópu nútímans við þá Ítalíu sem Gilmour segir að mistekist hafi að sameina?


Jónas og kristnu gildin

DSC_0213 

Ég er sammála þeim mikla meirihluta fulltrúa á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem sá að sér og felldi út einstrengingslegt og óheppilega orðað ákvæði um að öll lagasetning á Íslandi ætti að taka mið af kristnum gildum og hefðum.

Ég held að í þessum efnum gætu Sjálfstæðismenn fundið fyrirmyndir hjá skyldflokkum sínum. Kristilegir demókratar í Þýskalandi segja til dæmis að þeir spyrji sig spurninga um framtíðina út frá kristnum mannskilningi en leiti svara með opnum huga og vilji í þeirri leit styðjast við alla breiddina í hópi flokksmanna.

Hin upphaflega landsfundartillaga mætti mikilli andstöðu margra og vakti hörð viðbrögð. Þótt ég taki undir margt í þeirri gagnrýni er heldur ekki langt í öfgarnar á hinum vængnum þar sem ekkert samband má vera á milli trúarlegra gilda og lagasetningar.

Ég er þeirrar skoðunar að enda þótt hvorki sé heppilegt né í takti við tímana að kveða á um að öll lög eigi að taka mið af kristnum gildum sé stór hluti íslenskra laga engu að síður byggður á þeim. Það sama á reyndar við um allan okkar heimshluta.

Í nýrri verðlaunabók sinni, „Economics of Good and Evil. The Quest for Economic Meaning from Gilgamesh to Wall Street"  (Oxford, 2011 ISBN 978-0-19-976720-5) rekur tékkneski hagfræðingurinn Tomas Sedlasek sögu hagfræðinnar. Þar segir hann:

As the most widespread religion in the Western civilization, Christianity has had a huge influence on the formation of the modern economy. This faith frequently had the decisive word, especially in normative questions (that which should be done). It would be hard to imagine our contemporary Western market democracy without it.

(Bls. 131) 

Og í niðurlagsorðum kaflans um kristindóminn segir Sedlasek:

Christianity is the leading religion of our Euro-American civilization. Most of our social and economic ideals come from Christianity or are derived from it.

(Bls 167) 

Á landsfundinum lét formaður Sjálfstæðisflokksins orð falla um Jónas Hallgrímsson þar sem því var haldið fram að Jónas hefði aðhyllst bæði nýtingu á náttúrunni og verndun hennar. Þau kveiktu blendnar tilfinningar hjá mörgum.

Ekki treysti ég mér til að svara því hvaða skoðun Jónas Hallgrímsson hafði á virkjunum eða álverum þótt slíkar vangaveltur gætu orðið að skemmtilegri ritdeilu orðkappa.  Jónas tjáði sig að því er ég best veit ekki um það. Hann hafði á hinn bóginn ýmislegt að segja um það hvernig menn nýttu náttúrugæði. Í prófræðu sinni í Bessastaðakirkju laugardaginn 30. maí árið 1829 segir skáldið:

... en hvergi er manninum þar fyrir bannað að brúka heiminn eftir þörfum, eða gleðja sig við hans gæði hóflega og með þakkargjörð, því sá er eflaust tilgangur þess algóða gjafara. 

(Jónas Hallgrímsson, Ljóðmæli, Reykjavík 1947, bls. 63 - 64)

Í ræðunni setur Jónas ýmis skilyrði fyrir brúkun heimsins gæða en hvað sem um viðhorf hans til þessara mála má segja er eitt nokkuð öruggt: Þau eru byggð á kristnum gildum.

Og hvort sem Jónas Hallgrímsson skoðaði náttúruna eða nýtti sér hana gerði hann það á grunni sömu gilda. Um náttúruvísindin segir hann:

Hyggileg skoðun náttúrunnar veitir oss hina fegurstu gleði og anda vorum sæluríka nautn, því þar er oss veitt að skoða drottins handaverk, er öll saman bera vitni um gæzku hans og almætti. Vér sjáum þar hvert dásemdarverkið öðru meira, lífið sýnir sig hvarvetna í ótölulega margbreyttum myndum og allri þessari margbreyttni hlutanna er þó harla vísdómslega niður raðað, eftir föstum og órjúfandi lögum, er allur heimur verður að hlýða.

(Sama bók, bls. 82)

Myndin er úr Eyjafirði


Veikleiki styrksins

DSC_0353 

Freistingarnar hafa afhjúpað manneskjur sem við mátum mikils, við litum upp til og töldum vera mikilmenni. Þetta fólk reyndist vera mannlegt eins og við, breyskt og veikt. Freistingarnar vöfðu því um fingur sér. Þau sem virtust svo sterk áttu sér aldrei viðreisnar von þegar freistingin knúði dyra.

Freistingin fer ekki í manngreinarálit. Hún leggur snörur fyrir ríka sem fátæka, klára fólkið ekki síður en hitt, fræga liðið jafnt og hin sem aldrei komast í blöðin. Enginn er óhultur.

Og við lítum í eigin barm. Hvar er ég nú veikastur fyrir? Á hvaða sviði er mér hættast við falli?

En ef til vill eigum við ekki bara að vera á varðbergi þar sem við teljum okkur vera veikust?

Kannski er ekki síður ástæða fyrir því að passa okkur þar sem við teljum okkur vera sterkust? Huga að okkur þar sem okkur gengur best og þar sem við erum hæfileikaríkust?

Í kristinni hefð á synd mannsins sér ekki upphaf þar sem hann veit að hann er veikastur. Þar er hrokinn upprunasyndin. Við erum við einatt veikust þar sem við teljum okkur vera sterkust.

Þar með er ekki verið að halda því fram að ekki sé hægt una manninum þess að eiga hæfileika. Allt sé syndugt og neikvætt. Jafnvel hæfileikar mannsins.

Öllum mönnum er eitthvað gefið. Allir menn þurfa að uppgötva hæfileika sína og finna þeim farveg. Guð gefur öllum sitt.

Saga mannsins sýnir á hinn bóginn að þegar maðurinn ofmetnast af gáfum sínum og kostum þá er hann að sóa þeim hæfileikum sínum, þá er hann að forsmá það sem honum er gefið.

Saga mannsins sýnir að ef maðurinn á að njóta hæfileika sína og nota þá sjálfum sér og öðrum til blessunar, verður hann að forðast það að verða uppfullur af sjálfum sér.

Hógværðin og auðmýktin eru forsendur þess að ávaxta pundin sín.

Dramb er á hinn bóginn falli næst.

 


Eftir EFTA

DSC_0121 

Eftir niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu sáum við utanríkisráðherra Íslands skælbrosandi í faðmlögum við Tim Ward, aðallögfræðing Íslands í málinu.

Forsætisráðherra landsins brast í dans.

Varla hafði hláturinn hljóðnað og dansinn hætt að duna þegar þau tilmæli voru út gefin, að þjóðin ætti að stilla öllum fagnaðarlátum í hóf. Áttu margir fullt í fangi með að kæfa hlátrana, skiluðu kampavíninu og fengu sér í staðinn frambærilegt freyðivín eins og einhver orðaði það í útvarpinu.

Jafnframt bárust þau boð frá hæstu embættum landsins að nú væri ekki tíminn til að leita sökudólga.

Að því sögðu hófu sömu ráðamenn vísifingur á loft og tóku að benda á sökudólga; Davíð (varð einhver hissa?), eigendur Landsbankans gamla, fyrri ríkisstjórn, Árna Matt, Geir Haarde, Breta, Hollendinga, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og síðast en ekki síst Norðurlandaþjóðirnar eða eins og það er orðað í Fréttablaði dagsins:

Icesave-málið var þeim að kenna sem stóðu fyrir rangri stefnu í stjórmálum.

Undanfarin ár hefur umræðan um Icesave á löngum tímabilum tröllriðið fjölmiðlum og fyllt netsíður. Þingmenn töluðu sig raddlausa um málið. Í tvígang hefur verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um það.

Frá upphafi hefur verið fjallað um Icesave með allskonar pólitískum spuna, blekkingum og stundum tandurhreinni lygi. Þannig mál verða kannski alltaf óskýr og erfitt að greina kjarnann frá hisminu.

Þó held ég að menn séu dálítið að vanmeta vitsmuni og skynsemi íslensku þjóðarinnar þegar sú speki er borin á borð fyrir hana, að aldrei hefði þurft að koma til þessara vandræða ef Icesave hefði ekki verið stofnað eða ef bankarnir hefðu aldrei verið einkavæddir.

Það er svona svipað og að segja, að bílarnir hefðu jú aldrei lent í árekstri ef menn hefðu látið ógert að framleiða þá eða byggja verksmiðjurnar þar sem bílarnir voru búnir til.

Þegar Landsbankinn stofnaði Icesave-reikningana, fyrst í Bretlandi en síðan í Hollandi korter fyrir Hrun, vakti það aðdáun og hrifningu margra. Vorið 2008 tók fjármálaeftirlitið íslenska þátt í auglýsingapésa um Icesave, sama ár valdi Moneyfacts  „ein öflugasta og vinsælasta fjármálavefsíðan í Bretlandi" Icesave-reikninga Landsbankans bestu netreikningana og árinu áður hafði Landsbankinn verið útnefndur „Markaðsfyrirtæki ársins" af ÍMARK, félagi íslensks markaðsfólks.

Ekki minnist ég þess að álitsgjafar, fjölmiðlar, stjórnvöld, eða fræðimenn hafi gert háværar athugasemdir við alla þá gæðastimpla sem búið var að gefa þessu framtaki.

Ég efast um að hægt sé að ætlast til þess með nokkurri sanngirni að almenningur hafi haft forsendur til að beita sér gegn því að Icesave hafði orðið til.

Tilurð Icesave-reikninga Landsbankans og einkavæðing íslensku bankanna eru mál sem eru vel skoðunar virði. EFTA-dómstóllinn var samt ekki að fjalla um þau. Þar voru til umfjöllunar þær ásakanir Breta, Hollendinga og Evrópusambandsins, að íslenska ríkið hefði brugðist rangt við gjaldþroti Landsbankans, það hefði brotið reglur um innistæðutryggingar og mismunað innistæðueigendum eftir þjóðerni.

Dómurinn sýknaði Ísland af öllum þeim ákærum.

Íslenskra ríkinu bar ekki lagaleg skylda til þess að greiða þessar kröfur. Þær voru með öðrum orðum ólöglegar. Ekki bætir það framferðið að þeim fylgdu hótanir sem ógnuðu efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Í skugga þessara hótana er að sjálfsögðu ekki hægt að gera lítið úr þeirri þröngu stöðu sem íslensk stjórnvöld voru í eftir fall bankanna. Ekki hefur verið öfundsvert að takast á við þann nöturlega veruleika. Ég efast ekki um góðan vilja ráðamanna, bæði í fyrri ríkisstjórn og í þeirri sem nú situr. Ég er heldur ekki í vafa um að báðum urðu á mistök.

Mistök núverandi stjórnvalda eru meðal annars þau, að taka undir óréttmætar kröfur á íslensku þjóðina og taka þátt í að þvinga hana til að greiða skuldir sem ekki voru hennar.

Mistök stjórnvalda voru þau að hafa stóran hluta þjóðarinnar fyrir rangri sök; því var haldið fram að þau sem ekki vildu greiða þessar kröfur væru óheiðarlegt fólk því það vildi ekki greiða skuldir sínar. Því var jafnvel haldið fram að kenna þyrfti fólki siðferðilega lexíu með því að skerða lífskjör þess og næstu kynslóða.

Og enn heyrist sagt, að þau sem höfnuðu Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslunum hafi verið á móti því að reyna að semja um málið. Þá er litið framhjá því, að enda þótt samningsvilji geti verið til staðar þýðir það ekki að fólk samþykki afarkosti.

Síðan Hrunið varð á Íslandi hafa ríkisstjórnir sinnt viðamiklu björgunarstarfi. Það er risavaxið verkefni. Margt hefur áunnist en björgunarsveitir geta líka gert herfileg mistök.

Þá nægir ekki að afsaka sig með því að benda á þann sem henti frá sér logandi sígarettunni og kveikti skógareldinn.


Róbotar eiga engan hvíldardag

DSC_0082 

Þessa dagana er ég að lesa stórmerkilega bók, „Economics of Good and Evil. The Quest for Economic Meaning from Gilgamesh to Wall Street"  (Oxford, 2011 ISBN 978-0-19-976720-5) eftir tékkneska hagfræðinginn Tomas Sedlacek. Hún er skemmtilega skrifuð ferðalýsing um hagsögu mannsins sem gefur lesandanum fullt af „aha!"-augnablikum.

Í dag er sunnudagur, líka nefndur drottinsdagur eða jafnvel hvíldardagur, því alla vega fyrr á tímum var ætlast til þess að fólk hvíldi sig á þeim degi. Nú á dögum er hvíldin hálfgert olnbogabarn í menningunni.

Í bókinni rifjar Sedlacek upp að alþjóðlega heitið á vélmenni, róbot, er komið úr móðurtungu hans, tékknesku. Þar þýðir „robota" „vinna". Maður sem einungis er vinnuafl er róbot.

Tilvera róbotanna er hvíldardagslaus. Sedlacek bendir líka á að hvíld sabbatsins, hins gyðinglega hvíldardags og forvera sunnudags kristinna manna, á ekki að vera vörn gegn einhvers konar ofhitnun. Hvíldardagshvíldin er ekki hugsuð út frá forsendum vinnunnar. Hvíldardagurinn er ekki tæki til að auka og bæta afköst. Í Biblíunni er manneskjan ekki vél. Hvíldardagurinn var stofnaður mannanna vegna en ekki vinnunnar.

Hvíldardagurinn er „verufræðilegt hlé". Sjálfur hvíldist Guð hinn sjöunda dag, ekki af því að hann væri þreyttur eða til að hlaða sig orku. Hann hvíldist vegna þess að verki hans var lokið og nú vildi hann njóta þess og gleðjast yfir því.

Tilgangur hvíldardagsins er ánægjan og nautnin. Sex daga höfum við til að vinna til að eiga í okkur og á. Sex daga tók að skapa þessa tilveru og sex daga í hverri viku fáum við til að halda áfram að skapa.

Eftir þá sex daga kemur síðan einn þar sem við eigum ekki að vinna heldur reyna að njóta alls þess góða sem þessi ófullkomna sköpun hefur upp á að bjóða.

Sedlacek segir:

When I met one of my current friends, I asked what he does, as is common in conversation. He answered me with a smile: "Nothing. I´ve got it all done." And he wasn´t even a millionaire or a gentleman of means. I´ve been thinking about that ever since. Our hurrying, the economy of our civilization, has no goal at which it may rest. When do we say: "We´re done"?

(Tomas Sedlacek, Economics of Good and Evil, Oxford 2011, bls. 89 - 90)

Myndin er af Glæsibæjarkirkju í Kræklingahlíð.


Allt nema sannleikann

DSC_0303 

Um árabil hafa nánast daglega birst greinar um Evrópusambandið í víðlesnasta dagblaði Íslands sem borið er ókeypis inn á stóran hluta heimila landsins.

Bæði í Reykjavík og á Akureyri starfrækir ESB Evrópustofu með fimm starfsmönnum sem hafa það hlutverk að miðla „hlutlægum upplýsingum um Evrópusambandið".  

Sendinefnd ESB á Íslandi heldur úti fræðslu- og upplýsingastarfi fyrir Íslendinga. Á heimasíðu nefndarinnar má meðal annars finna krækju á sérstakan vef með nýjustu upplýsingum um umsókn Íslands að ESB.

Evrópusamtökin íslensku standa fyrir upplýsingastarfi um ESB og evrópska samvinnu.

Evrópufræðum er sinnt við íslenska háskóla, t. d. í hinu átta ára gamla Evrópufræðasetri Háskólans á Bifröst.

Mörg undanfarin ár hafa fá mál verið fyrirferðarmeiri í íslenskum fjölmiðlum, spjallþáttum, fréttum og fréttaskýringum en Evrópumál.

Aragrúi bóka hefur verið ritaður um Evrópusambandið og enginn kæmist yfir að lesa öll þau ósköp sem finna má um Evrópusambandið á netinu.

Þrátt fyrir allt þetta er hamrað á því að Íslendingar hafi engar forsendur til að taka „upplýsta ákvörðun" um það hvort þeir vilji ganga í Evrópusambandið.

Þrátt fyrir allt þetta upplýsingastarf, alla þekkinguna sem búið er að gera aðgengilega fyrir þjóðina, er henni sagt að hún hafi hvorki vit né forsendur til að hafa skoðun á því hvort hún hafi áhuga á að gerast aðili að Evrópusambandinu.

Margt má finna að Evrópusambandinu. Tæpast verður því þó haldið fram með nokkurri sanngirni að ESB sé leyniregla. Nóg er til af upplýsingum um það. Lagabálkur þess er öllum aðgengilegur, sjálf frumheimildin um starf og eðli ESB, hvorki fleiri né færri en 100.000 blaðsíður.

Því er haldið fram að til að geta haft skoðun á aðild Íslands að ESB þurfi að liggja fyrir aðildarsamningur. Í raun sé ekkert að marka öll framantalin gögn og heimildir um ESB. Aðildarsamningurinn geti breytt því öllu.

Íslendingar, 300.000 manna þjóð, sóttu um aðild að Evrópusambandinu, samfélagi 500 milljóna manna,  undir því yfirskini að verið væri að kanna hvernig þeir gætu lagað þetta risavaxna fyrirbæri að þörfum sínum.

Ísland er sennilega fyrsta ríkið sem sótti um aðild að ESB án þess að vilja endilega aðild að ESB heldur til að kanna málið, skoða í pakkann og afla upplýsinga.

Ísland er trúlega fyrsta þjóðin sem sótti um aðild að Evrópusambandinu á þeim forsendum að hún fái að velja það sem henni hentar úr þessum 100.000 síðum lagabálks sem þetta 500 milljóna manna samfélag hefur komið sér saman um.

Var einhver að tala um þjóðrembu?

Og talandi um hana: Þegar því er haldið fram að aðildarferli ríkja að ESB felist í að semja um undanþágur og sérlausnir telja menn sig vita betur en ESB hvernig það gengur fyrir sig.

Það hefur verið margítrekað af ESB, að ríki sem sækja um aðild að sambandinu verði að samþykkja og innleiða allan lagabálkinn. Síðast fyrir um það bil mánuði sá ráðherraráð ESB ástæðu til að árétta það sérstaklega við Ísland.

Kostir og gallar aðildar að Evrópusambandinu liggja fyrir í öllum meginantriðum. Lagabálkurinn, allar 100.000 síðurnar, er óumsemjanlegur. Aðildarferlið felst ekki því að semja sig frá honum heldur þvert á móti, sýna fram á hvernig og hvenær umsóknarríkið ætlar að taka hann upp og innleiða.

Ranghugmyndir Íslendinga um það hvernig ríki fá aðild að Evrópusambandinu eru ekki sambandinu að kenna. Þar er við aðra að sakast. Evrópusambandið hefur aldrei reynt að fela hvernig það ferli lítur út sem til aðildar leiðir. Sambandið hefur meðal annars gefið út bækling til að skýra það út fyrir almenningi. Sá bæklingur nefnist Understanding Enlargement og er aðgengilegur á netinu. Þar segir á bls. 9:

Accession negotiations concern the candidate's ability to take on the obligations of membership. The term "negotiation" can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of EU rules - some 100,000 pages of them. And these rules (also known as the acquis, French for "that which has been agreed") are not negotiable.

Á sömu síðu er þessu ferli lýst nánar:

Negotiations are conducted between the EU Member States and each individual candidate country and the pace depends on each country's progress in meeting the requirements. Candidates consequently have an incentive to implement the necessary reforms rapidly and effectively. Some of these reforms require considerable and sometimes difficult transformations of a country's political and economic structures. It is therefore important that governments clearly and convincingly communicate the reasons for these reforms to the citizens of the country. Support from civil society is essential in this process.

Enginn hörgull er á upplýsingum um Evrópusambandið og kosti og galla aðildar Íslands að því. Evrópusambandið er engin leyniregla. Lönd sem vilja þangað inn verða að taka upp og innleiða lagabálk Evrópusambandsins sem það segir sjálft að sé óumsemjanlegur. Sú innleiðing hefur stundum í för með sér verulegar og erfiðar breytingar á stjórnmála- og efnahagskerfi umsóknarríkjanna.

Evrópusambandið segir það skyldu stjórnvalda að útskýra ástæður þeirrra breytinga fyrir borgurum sínum. Stuðningur þeirra sé kjarnaatriði í þessu ferli.

Íslensk stjórnvöld virðast vera ósammála Evrópusambandinu um hvernig þetta gengur fyrir sig. Þau halda því fram aðildarferlið sé fyrst og fremst könnun.

Varla er hægt að ætlast til þess af íslenskum stjórnvöldum að þau sinni þeirri skyldu sinni að upplýsa okkur borgarana um ástæður þeirra oft verulegu og erfiðu breytinga á stjórnmála- og efnahagskerfi okkar sem aðildarferlinu fylgja. Til þess að geta það þyrftu þau að byrja á því að viðurkenna að eitthvað slíkt ætti sér stað.

Og íslensk stjórnvöld vita, að til þess að hafa stuðning þjóðar sinnar við ferlið  má segja henni allt um það - nema kannski sannleikann.

 


Siðferði hægri og vinstri manna

Copy of DSC_0053

Jonathan Haidt er prófessor í sálfræði við New York háskólann í Bandaríkjunum. Kenningar hans um sálfræði siðferðisins eru umtalaðar. Haidt heldur því fram að siðferði sé meðfætt og hluti af eðli mannsins.  Hvert nýfætt barn hefur í sér siðferðilegan grundvöll. Hið meðfædda siðferði okkar er ekki óumbreytanlegt og hægt er að byggja við og ofan á þennan grunn sem hverri manneskju er gefinn.

Fræðimenn eru ekki allir sáttir við þessar kenningar Haidts. Sumir saka hann um að hafa of vélræna sýn til siðferðislífs mannsins og gera lítið úr getu hans til að taka siðferðilegar ákvarðanir byggðar á skynsamlegri yfirvegun. Haidt telur að þáttur skynseminnar í því hafi verið ofmetinn.  Siðferði mannsins byggist að hans mati fyrst og fremst á tilfinningum og innsæi.

Hægt er að finna samsvaranir við þessar kenningar Haids í kristni þar sem litið er þannig á að hæfileikinn til að greina á milli góðs og ills sé meðfæddur. Lögmál Guðs er í hjörtum mannanna. „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér," segir í Sálmum Davíðs (40, 9) og í Hebreabréfinu stendur: „Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau." (10, 16)

Í fyrra sendi Haidt frá sér bókina „The Righteous Mind". Þar gerir hann grein fyrir þessum siðferðisgrunni mannsins og notar hann til að skýra muninn á pólitískri hugmyndafræði á okkar tímum.  Haidt heldur því fram að sá grunnur samanstandi af sex siðrænum gildum; umhyggju, sanngirni, frelsi, tryggð, stjórnvaldi og hreinleika.

Haidt segir að þeir sem flokki sig til vinstri í stjórnmálum einbeiti sér að fyrstu þremur gildunum en hafi tilhneigingu til að vanrækja hin. Hinir sem aðhyllast íhaldssamari stjórnmálaskoðanir eigi auðveldara með að nýta sér öll gildin sex. Þar með byggi þeir á breiðari siðrænum grunni en hinir. (Hér má sjá ágæta umfjöllun um bókina.)

Í viðtali sem ég las við Haidt í þýska tímaritinu Der Spiegel (Nr. 2 7. 1. 13 bls. 114 - 118) skilgreinir hann sig sem miðjumann. Hann er demókrati, ekki repúblikani og kaus Obama. Á námsárunum var hann vinstrisinnaður eins og hinir og þekkti enga hægri menn.

Í rannsóknum sínum segist hann hafa komist að því að siðferði hægrisinnaðra sé ekki lakara en vinstrimanna. Báðir hóparnir vilji vinna að betra samfélagi, hvor með sínum aðferðum og áherslum.

Haidt lýkur viðtalinu með því að benda á að siðferðilega stöðugt þjóðfélag þurfi bæði vinstri og hægri áherslur. Þær séu eins og jin og jang. Umhugsunarvert sé þegar andstæðurnar skerpist svo í stjórnmálunum að fylkingarnar hætti að sýna hvor annarri virðingu og skilning.  

Á síðustu tólf árum hafi öfgar aukist í Bandaríkjunum. Þeim fari fækkandi sem staðsetja sig á miðjunni. Þingmenn hagi sér eins og meðlimir í gengjum. Sú þróun sé hættuleg  - ekki síst á krepputímum.

Er þetta kannski líka þróunin á Íslandi?


Heimskan og illskan

DSC_0034

Þýski guðfræðingurinn Dietrich Bonhoeffer (1906 - 1945) hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Bonhoeffer var  heill, frjór og gagnrýninn jafnt í fræðastarfi sínu sem lífi. Hann er þekktur fyrir beinskeytta gagnrýni sína á trúarbrögðin þótt hann tæki trú sína á Jesú Krist mjög alvarlega.  

Bonhoeffer tilheyrði þeim armi evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi sem hafnaði nasismanum og tók einarða afstöðu gegn Hitler. Frá 1943 var hann fangi nasista og tveimur árum síðar hengdu þeir hann í Flossenburg fangabúðunum.

Bonhoeffer var afkastamikill rihöfundur. Auk guðfræðinnar orti hann ljóð. Að undanförnu hef ég verið að lesa ævisögu hans, ritaða af vini hans og samstarfsmanni, Eberhard Bethge. Þar rakst ég á texta sem Bonhoeffer ritaði um heimskuna. Mér þótti hann magnaður og eiga erindi til okkar þótt maður skilji hann kannski best í ljósi þess ástands sem ríkti í Þýskalandi nasismans.

Skrif sín um heimskuna byrjar Bonhoeffer á því að fullyrða að hún sé hættulegri gæskunni en illskan. Hann bendir á að hægt sé að efna til mótmæla gegn illskunni, hana megi afhjúpa og stöðva með ofbeldi.

Illskan skilji eftir sig ákveðin ónot hjá fólki sem geti vakið hjá því löngun að hrista hana af sér.

Bonhoeffer segir okkur mun varnarlausari gagnvart heimskunni. Mótmæli vinna ekki á henni og rök eru gagnslaus því heimskinginn er mjög gagnrýninn á staðreyndirnar ef þær eru í mótsögn við fordóma hans. Heimskinginn sannfærir sjálfan sig og efast ekki um sig - en það gerir illmennið þó stundum.

Bonhoeffer segir að til að sigrast á heimskunni verði maður að skilja eðli hennar. Hann heldur því fram að heimskan sé ekki fyrst og fremst vitsmunalegur galli. Menn geti verið heimskir þótt þeir séu gæddir miklum vitsmunum. Að sama skapi kveðst hann vita um fólk sem sé frekar tregt vitsmunalega en fjarri því að geta kallast heimskt. Niðurstaða Bonhoeffers er sú að heimskan sé bilun í manninum sjálfum.

Það er jafnframt kenning hans að heimskan sé ekki meðfædd. Menn eru ekki heimskir en verða það og hægt er að gera þá heimska. Heimskan er sennilega félagslegur vandi með sálrænum hliðarverkunum.

Alltaf þegar sterku valdi er beitt, hvort sem það er pólitískt eða trúarlegt, breiðir það út heimsku á meðal manna. Vald er óhugsandi án heimsku manna. Það hefur yfirbugandi áhrif á okkur og sviptir okkur innra sjálfstæði.

Þvermóðska heimskingjans sýnir ekki sjálfstæði hans. Þegar rætt er við hann kemur í ljós að í raun er ekki verið að tala við hann, ekki hann persónulega, heldur slagorðin og frasana sem náð hafa tökum á honum. Heimskinginn er í álögum. Hann hefur orðið fyrir misnotkun. Hann er viljalaust verkfæri, fær um að vinna hverskonar illvirki vegna þess að hann er of heimskur til að þekkja það illa.

Besta vopnið gegn heimskunni er ekki upplýsing heldur er eina leiðin til að sigrast á henni sú að frelsast frá henni, segir Bonhoeffer.

(Textann má lesa á frummálinu hér.)

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband