Færsluflokkur: Bloggar

Málið eina

DSC_0570 

Í Fréttablaðinu í dag birtist grein eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, um Ísland í Evrópu. Í sama blað skrifar Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, grein um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Í síðustu viku ritaði þingmaður Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, grein í Fréttablaðið um upptöku evru og aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í sömu viku ritaði Árni Páll Árnason grein í sama blað um Ísland í Evrópu. Síðastliðin Fréttablaðsvika færði okkur ennfremur grein Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, um íslenska menningu og ESB auk greina Þórhildar Hagalín, ritstjóra Evrópuvefsins, um veiðar á lóu og spóa í Evrópusambandinu og stöðu íslenska refsins í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið .

Sé leitað lengra aftur í ágústmánuði í Fréttablaðinu má finna þar skrif Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins og eins samningamanns Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið, um Ísland og ESB, Árna Páls Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um Ísland í Evrópu, Bolla Héðinssonar, hagfræðings og formanns Samtaka fjárfesta,  um aðild Íslands að ESB, Einars Benediktssonar, fyrrverandi sendiherra, um ESB aðild og öryggismál, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um aðildarumsókn Íslands að ESB, Þórhildar Hagalín, ritstjóra Evrópuvefsins, um ESB og innflutning lifandi dýra, tvær greinar í viðbót eftir Árna Pál Árnason, þingmann Samfylkingarinnar, um Ísland og ESB, enn eina eftir Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, um Ísland og ESB, og snotra grein Gunnars Alexanders Ólafssonar, starfsmanns velferðarráðuneytisins, um neytendur og aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Allar eiga þessar greinar það sammerkt að höfundar þeirra eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og að hafa birst í Fréttablaðinu í þessum mánuði.

Nú um helgina reit Egill Helgason bloggpistil um einsmálsfólk en þannig kallar hann þau sem halda að „allt hverfist um þetta eina mál", aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þar er hann að vísu að meina þau sem eru andvíg aðild Íslands að ESB.

Líklega hefur Egill lesið þessa einu grein gegn aðild Íslands að ESB sem birtist í Fréttablaðinu á sama tímabili og allar ofangreindar.

Spuninn utan um aðildarferli Íslands að Evrópusambandinu er ná metsnúningi. Fylgismenn þess keppast við að telja þjóðinni trú um að einungis sé verið að skoða í pakkann.

Ríkisstjórnin segist vera að endurreisa Ísland. Verkefni hennar er að leiða Ísland út úr einhverri verstu efnhagskreppu sem lýðveldið hefur lent í, vernda velferðarkerfið, slá skjaldborg um heimilin í landinu, auka jöfnuð og koma á meira réttlæti en áður tíðkaðist. Síðast en ekki síst ætlar ríkisstjórnin að forða þjóðinni frá því að vond öfl nái hér yfirhöndinni.

Drjúgur helmingur ríkisstjórnarinnar telur öll ofangreind verkefni þó ekki jafn mikilvæg og „skoðunin" í pakka ESB og hótar því að fái menn ekki að halda henni áfram verði stjórnarsamstarfinu umsvifalaust slitið.

Þessi helmingur stjórnarinnar er með öðrum orðum tilbúinn að fórna öllum þeim brýnu verkefnum sem hann ætlaði að sinna fyrir þetta eina mál.

Þó er þar ekki nema um skoðun að ræða. Hún er mikilvægari en velferðarmálin, jöfnuðurinn, endurreisnin, skjaldborgin, heimilin og fólkið í landinu.

En talandi um einsmálsfólk, þá er því auðvitað ekki að neita að Eygló skrifaði grein.

Myndin er úr undurfögrum Héðinsfirði.


Þögnin um fátækt á Íslandi

DSC_0303 

Eins og bókaflóð bendir á nánd jóla er fartölvuflóðið fyrirboði þess að skólastarf sé að hefjast eftir sumarfrí.

Ekki fá öll börnin tölvur fyrir skólann en þurfa samt eitt og annað til að fara ekki í skólaköttinn, þar á meðal ritföng, bækur, skólatöskur og ný föt.

Alltof margar íslenskar fjölskyldur eiga mjög erfitt með að veita börnunum ofangreint. Sum þeirra verða að hefja skólagöngu sína án þess alls. Á mörgum heimilum eru heldur ekki peningar til að leyfa börnunum að taka þátt í tómstundastarfi.

Nýlega talaði ég við einstæða móður sem hafði ekki efni á bíómiðum handa börnunum sínum allan síðasta vetur. Hún sér fram á enn verra ástand á komandi vetri. Hún hefur ekki nema örfáa tugi þúsunda á mánuði til að framfleyta sér og þremur börnum. Þessi duglega og stolta kona safnar stundum flöskum og fer með í endurvinnsluna til að eiga fyrir mat.

Sumir hópar í þessu ríka landi búa við skammarleg kjör. Skrýtin þögn ríkir um aðstæður þessa fólks. Ein orsök þess er kannski sú, að fátækt fólk á Íslandi hefur gjarnan verið notað sem barefli í pólitískri umræðu. Menn hafa nýtt sér kröpp kjör þess til að koma höggi á stjórnvöld. Stjórnvöld vilja á hinn bóginn helst sem minnsta umræðu um fátækt í landinu því það er ekki góð auglýsing og allra síst þegar stutt er í kosningar.  

Þá er betra að kalla út talnaspekinga og áróðursmeistara sem telja landslýð trú um að allt sé í besta lagi. Þeir sem minna á ömurleg skilyrði lítilmagna eru sakaðir um neikvæðni og fjandskap við ríkisstjórnina.

Umræða sem ekki nær lengra og ekki ristir dýpra mun ekki breyta þessu ástandi.

Í gær heyrði ég í einstæðri  móður sem ekki á fyrir mat. Bankinn hennar neitaði henni um 10.000 króna yfirdrátt til að hún gæti skrimt fram að mánaðamótum.

Ég er sammála þeim sem bent hafa á siðleysi okurlána. Þó vantar inn í umræðuna, að slík starfsemi hefur ekki einungis peningagræðgi lánveitendanna að forsendu heldur einnig neyð þess sem grípur til öþrifaráða frekar en að horfa upp á börn sín svelta.

Í síðasta mánuði kom fram að frá Hruni hefði  Íslandsbanki afskrifað og leiðrétt skuldir hjá 18.200 einstaklingum og 3.000 fyrirtækjum, samtals um 370 milljarða króna. Ég þekki ekki upphæðirnar hjá hinum bönkunum en spyr:

Hvert hafa allar þessar afskriftir og leiðréttingar farið? Af hverju er sama þögnin um þær og ömurleg kjör alltof margra Íslendinga sem ekki geta einu sinni fengið 10.000 kall í yfirdrátt?

Myndin er tekin á Súlutindi og horft fram í Glerárdal.


Perlur á perlustað

DSC_0844 

Fyrstu fyrirboðar haustsins hjá mér eru ferðir með tilvonandi fermingarbörnum Akureyrarkirkju á Vestmannsvatn í Aðaldal. Við reynum að fara það snemma í þessar ferðir að hægt sé að njóta þess sem staðurinn hefur upp á að bjóða.

Vestmannsvatn er mikil náttúruperla. Því miður er Þjóðkirkjan ekki alveg að fatta staðinn. Hann hefur ekki fengið að vaxa og dafna sem skyldi þótt þar hafi verið starf á vegum kirkjunnar allt frá árinu 1964. Ég vona að ein þeirra breytinga sem framundan eru í Þjóðkirkjunni sé í því fólgin að þar verði lögð aukin áhersla á barna- og æskulýðsstarf. Þá munu menn gera sér grein fyrir mikilvægi Vestmannsvatns og þeim möguleikum sem þar er að finna.

Tilgangurinn með dvöl fermingarbarna á Vestmannsvatni er margþættur. Þar er börnunum veitt fræðsla, hópurinn hristist saman og kynnist leiðtogum, fræðurum og prestum. Börnin komast í snertingu við yndislega náttúru. Mesta áherslan er þó lögð á góða upplifun og að ferðin sé ánægjuleg byrjun á fermingarvetrinum.

Vestmannsvatn á að gefa góða minningar.

Undanfarin ár hefur sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir haft veg og vanda af skipulagi og framkvæmd fermingarskólans á Vestmannsvatni. Hún á mikið hrós skilið fyrir þá vönduðu vinnu. Að þessu sinni hófst dagskráin á því að farið var í göngu þar sem tveir fóru saman og urðu að deila sjón eins. Róið var á bátum og vaðið í vatninu. Eitt verkefnið var að skrifa hrós á pappadiska sem búið var að hengja aftan á börnin. Dagskráin endaði á heilmiklum ratleik. Sigurliðið fékk lakkrískúlu ofan á skúffukökusneiðina sem boðið var upp á með kaffinu.

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér  og myndin með færslunni er frá dvölinni í síðustu viku en þá voru krakkar úr Brekkuskóla á Vestmannsvatni, algjörar perlur á algjörum perlustað.


ESB gerir grín að aðildarumsókn Íslands

DSC_0435

Íslensk umræða um Evrópusambandið er eins og margar aðrar umræður á þessu landi: Einhver býður þér í skák og þegar þú sest við borðið er keppinautur þinn búinn að stilla upp mönnunum eins og honum hentar best.

Í hinni „upplýstu" umræðu um Evrópusambandið má helst ekki efast um aðild Íslands að því. Þegar slíkir efasemdarmenn setjast að tafli eru málshefjendur snöggir að raða skákinni sér í hag og staðhæfa, að ekki  sé hægt að tala af viti um aðild Íslands að ESB nema búið sé að ganga frá samningi Íslands um aðild að ESB.

Til að flækja málin gildir reglan um að ekki séu forsendur til að mynda sér skoðun á aðild að ESB nema fyrir liggi aðildarsamningur aðeins um efasemdarmenn. Önnur regla gildir um aðildarsinna. Slíkt fólk þarf ekki aðildarsamning til að mynda sér skoðun á málinu og þegar það er annarsvegar er taflmönnunum í skyndingu endurskipað  og sagt:

Þeir einstaklingar sem styðja Já Ísland hafa margar og ólíkar skoðanir en eru sammála um að framtíð okkar Íslendinga sé betur borgið í samfélagi þjóðanna innan Evrópusambandsins en utan þess,

eins og segir hér.

Nú er það þannig, að helmingur þeirrar ríkisstjórnar, sem sótti um aðild að ESB, vill alls ekki að Ísland gangi í ESB.

Þá er refskákin þannig tefld, að enda þótt Ísland hafi sótt formlega um aðild að ESB, sé í raun ekki verið að sækjast eftir aðild. Umsóknin sé könnun. Það sé verið að skoða í pakkann.

Ísland sótti um aðild að ESB aðeins til að kíkja inn um ESB-dyrnar og sjá hvernig samningi væri hægt að ná.

Með því að stilla taflmönnunum þannig upp telur flokkur sem er á móti því að ganga í ESB sig geta réttlætt það að sækja um aðild að ESB.

Hér væri hægt að setja á langa færslu um  aðild Íslands að ESB, kosti þess og galla. Hér væri líka hægt að skrifa mikinn texta um ástandið í Evrópusambandinu og ríkjandi óvissu um hvernig sambandið verður í framtíðinni.

Ég læt það ógert að sinni. Það sem liggur mér mest á hjarta í þessum pistli er hin sérkennilega framkoma Íslands í þessu máli. Það er nefnilega ekki nóg með að íslenska þjóðin sé beitt blekkingum með því að telja henni trú um að aðildarumsókn sé einhvers konar könnun eða athugun.

Íslensk stjórnvöld virðast telja að þau geti gert Evrópusambandið að peði í pólitískri refskák á Íslandi. Hér var á sínum tíma mynduð ríkisstjórn þannig, að annar ríkisstjórnarflokkanna hótar hinum stjórnarslitum ef hann heldur tryggð við þá stefnu sína, að Ísland eigi ekki heima í Evrópusambandinu.

Þótt ég efist stórlega um að Ísland eigi að ganga í ESB ber ég mikla virðingu fyrir sambandinu. Ég tel mig vera Evrópusinna. Ég sótti menntun til álfunnar og sæki mikið þangað enn. Og Evrópusambandið er auðvitað alvörusamband. Þeir sem óska eftir inngöngu í slík félög gera það af alvöru. Þú sækir ekki um inngöngu í virðulegan golfklúbb með því skilyrði að klúbburinn lagi starf sitt að þér - og hætti jafnvel að iðka golf vegna þess að þú kannt það ekki.

Evrópusambandið á sér ákveðna grunnlöggjöf. Heilar 90.000 síður. Um þær verður ekki samið eins og Evrópusambandið segir sjálft (bls. 6).

Svonefndar aðildarviðræður, sem ESB sjálft varar við að kalla samninga, ganga út á tímasetningar og hvernig staðið verði að upptöku á þessum reglum.

Aðildarferlið er ekki fólgið í því að ESB lagi sig að ríkjunum sem sækja um aðild. Þetta ætti að vera öllum ljóst sem kynnt hafa sér stækkunarreglur sambandsins. Í gær sá talsmaður stækkunarstjóra ESB sig engu að síður knúinn til að árétta þetta við Íslendinga. Hann minnti á að það hefði ekki verið ESB sem óskaði eftir aðild Íslendinga.

The European Union didn't apply for Iceland to become a member,

sagði talsmaðurinn, Peter Stano í viðtali við Bloomberg fréttaveituna og þarf enga stórhúmorista til að fatta skensið í ummælunum.

Til að árétta þetta bætti Stano við, að aðildarferli Íslands hefði hafist þegar Íslendingar hefðu ákveðið að þeir vildu ganga í Evrópusambandið.

When Iceland "decided that they wanted to join we started the process and the member countries agreed with beginning Iceland's accession process,

stendur í fréttinni.

Eðlilega reikna talsmenn Evrópusambandsins með því, að þegar Íslendingar sendu Evrópusambandinu formlega umsókn um aðild, hafi þeir viljað ganga í það. Þannig er það yfirleitt  í samfélagi siðaðra manna. Menn eru ekki að senda félögum umsóknir um inngöngu nema að baki búi vilji til að gerast þar meðlimir.

Ofangreind skilaboð stækkunarstjórans má skilja sem sneið til Íslendinga - með áleggi. Sennilega veit hann, að Íslendingar sóttu ekki um aðild að ESB á þeim forsendum að þeir vildu ganga í sambandið. Umsóknin var liður í pólitískri refskák heima fyrir. Mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur inngöngu og er þar á sama máli og helmingurinn af ríkisstjórninni sem sótti um aðild að sambandinu fyrir hönd þjóðar sinnar.

Þessi framkoma íslenskra stjórnvalda, að sækja um aðild að sambandi án þess að vilja þangað inn, ætti að vera þeim áhyggjuefni, sem láta sér annt um orðspor Íslands í útlöndum og tiltrú manna á stjórnarfari hér.

Þær áhyggjur minnka ekki þegar íslensk stjórnvöld láta ekki nægja að sækja um aðild að ESB á fölskum forsendum heldur hafa þau samþykkt að þiggja milljónir evra í styrki frá ESB. IPA-styrkirnir (Instrument for Pre-Accession Assistance) eru ætlaðir til að laga íslenskt stjórnkerfi að kröfum og grunnreglum Evrópusambandsins.

Íslensk stjórnvöld ætla á hinn bóginn að nota styrkina til að „skoða í pakkann".

Myndin er af Holárfossi í Skíðadal.


Rakaðir pungar

Bárður (2)

Ein árátta nútímafólks er að raka af sér líkamshárin. Karlar skafa af sér höfuðhárin og vilja helst hafa skallana spegilgljándi eins og sólbaðaðan sveskjugraut í búrglugga. Í sturtum sundlauga lyfta þeir höndum svo við blasa hárlausir handarkrikar en á milli læra sveiflast nauðrakaðir pungar.

Einu sinni þótti konum ekki kvenlegt að rétta fram kafloðna sköflunga og þessa dagana fjalla fjölmiðlar landsins um gagnsemi þess að konur „fjarlægi skapahárin" eins og það er orðað. Sýnist þar sitt hverjum og er umræðan hin líflegasta.

Ég veit ekki hversu margar og miklar ályktanir er unnt að draga af þessum ímigusti sem fólk virðist hafa á hárvexti neðan höfuðs. Lengi var það svo að flestum fannst eftirsóknarvert að hafa hár á hausnum og karlar vildu gjarnan vera loðnir sem víðast. Bringuhár þóttu til að mynda afar kynæsandi og mikið karlmennskutákn.

Ég er að lesa í annað sinn bókina „Iron John" eftir bandaríska ljóðskáldið Robert Bly.  Bókin kom út árið 1990 og vakti mikla athygli. Ég held að óhætt sé að segja að hún sé grundvallarrit í karlafræðum. Þar leggur Bly út ævintýrið um Járn-Hans (Iron John) sem er að finna í sögusafni þeirra bræðra Jakobs og Vilhjálms Grimm. Lengi hefur mannkynið notað sögur sem geymslustaði fyrir djúpa visku um mannlegt eðli. Í bókinni afkóðar Bly sögur og miðlar okkur visku þeirra.

Ein persónan í sögunni um Járn-Hans er „wild man" sem ég veit ekki alveg hvað ætti að kalla á íslensku. Þar er ekki um „villimann" að ræða heldur fremur karlmann sem er frjáls, ótaminn og náinn náttúrunni. Helsta útlitssérkenni hins ótamda manns er að hann hefur hvorki skert höfuðhár sitt né brugðið rakhnífi á andlit sér - hvað þá á aðra líkamshluta.

Hinn ótamdi karl er goðsöguleg persóna. Hin biblíulega og kristna útgáfa hans er sennilega Jóhannes skírari.

Hér er ekki hægt að gera grein fyrir kenningum Bly en til þess að gera langa sögu stutta telur hann karla nútímans glíma við mjög alvarlega sjálfsmyndarkreppu. Karlarnir hafa misst sjálfumleika sinn. Þeir vita ekki hvað þeir eru og eru óvissir um til hvers er af þeim ætlast. Konur hafa verið duglegar að skoða sig sjálfar og skilgreina kvenmennskuna. Karlar hafa verið eftirbátar þeirra í þeim efnum. Stundum hafa þeir brugðið á það ráð að tileinka sér skilgreiningar kvenna á því hvernig karlar eigi að vera. Bly bendir á að það leysi ekki tilvistarkreppu karlmennskunnar. Karlar verði sjálfir að leggjast í naflaskoðun og finna sig. Einn þáttur í því er að uppgötva hinn ótamda karl í sjálfum sér.

Kannski má að hluta skýra hræðslu karla við líkamshár sem hræðslu þeirra við karleðlið?

 Karlmennska hefur á sér dálítið óorð. Í  margra hugum tengist hún kvennakúgun, yfirgangi og drottnunargirni. „Hinum ásakandi fingri femínismans hefur verið bent á marga mismunandi líkamshluta karla en fyrirlitlegastir hafa þótt hinn vélræni karlheili, steinhjörtu þeirra og það sem karlar hafa á milli fótanna," er það orðað á einum stað.

Þótt aldarfjórðungur sé liðinn síðan bókin um Járn-Hans kom út og umræðan um karlmennskuna hófst virðast karlar enn vera í miklum vandræðum með sig. Hugmyndir um karlmennskuna eru mjög á reiki. Karlar eru óvissir um sig  og feimnir að ræða þessi mál. Hugmyndir kvenna um karlmennskuna eru líka afar óskýrar. Meðal annars þess vegna ættu karlmenn ekki að láta konur ákvarða karlmennskuna.

Í menningarútgáfu þýska fréttatímaritsins Der Spiegel (7/2012 bls. 17 - 19) er mjög athyglisverð úttekt á karlmanninum eins og hann birtist í einni nýjustu og vinsælustu grein kvennabókmennta, „Chick Lit" . Verk á borð við Bridget Jones´s Diary eftir Helen Fielding og Sex and the City eftir Candace Bushnell eru þekktar pútnabækur hér á landi.

Samkvæmt  þeim kvenrithöfundum heimsins sem þessa dagana eru víðast lesnir og mestra vinsælda njóta meðal kvenþjóðarinnar er karlskepnan margháttuð og sett saman úr mörgum ólíkum þáttum.

Karlinn kann sig, hann hjálpar konunni í kápuna, borgar reikninginn á veitingastaðnum og tekur utan um hana þegar henni er kalt. Hann er góður við mömmu sína og stendur upp fyrir gömlu fólki í strætó.

Karlinn er líka villtur. Hann er með þriggja daga skeggbrodda sem rispa hana í framan í kjassi, hann treður upp í sig fimm brjóstsykursmolum í einu, reykir filterslausar sígarettur og þegar þau ætla að eiga saman nótt mætir hann ekki með flösku af freyðivíni heldur vodka.

Í þessum kvennabókum er fyrirmyndarkarlinn mjög meðvitaður um sig, dálítið hrokafullur og jafnvel drottnunargjarn. Í einni sögunni er sagt að þróun mannsins hafi ekki gert ráð fyrir körlum sem eru sætir í sér.

Mörgum finnst karlmennskan vera hálfgert bannorð. Á meðan svo er þarf enginn að vera hissa á að enn eigi karlar erfitt með að átta sig á hvað sé í því fólgið að vera karl. Gömlu karlmannsímyndirnar duga ekki lengur og skorturinn á nýjum er tilfinnanlegur. Ef til vill má skýra mörg karllæg vandamál með hliðsjón af því.

Aukin og vönduð umræða um karlmennskuna er því af hinu góða. Hana eigum við karlar að leiða sjálfir og á okkar forsendum en ekki kvenna.

Myndin: Bárður Snæfellsás var mikið karlmenni.


Peningasaga

DSC_0017 

Rætur peninganna eru þrennskonar: Í fyrsta lagi þær efnislegu, jarðnæði, korn, búfénaður eða málmar. Í öðru lagi yfirvöld eða samfélag sem innleiðir peninginn og ábyrgist virði hans. Í þriðja lagi eru peningar af trúarlegum toga, í fórninni, þar sem komið var með fórnargjafir handa guðunum í helgidóminn.

Eitt sinn voru flestir gjaldmiðlar á svonefndum gullfæti en þá voru þeir tryggðir með gullforða. Á sjöunda áratug síðustu aldar var endanlega búið að kippa gullfætinum undan flestum myntum heimsins. Þá runnu upp tímar fjármálamarkaðakapítalismans. Í þeirri tegund kapítalisma urðu fjármálastofnanir, hlutabréfamarkaðir, fjárfestingasjóðir og matsfyritæki helstu áhrifavaldar efnahagslífsins með þeirri afleiðingu, að það fjármagn sem nú streymir um heiminn, er aðeins að hluta til grundvallað á raunverulegum verðmætum.

Dollar-Sign

Verðmæti gullsins á sér trúarlegar skýringar. Í Babýlon reiknuðu menn út virði góðmálma með hliðsjón af helgum lögmálum. Gullið hafði á sér lit sólarinnar en silfrið mánans. Eftir að prestarnir höfðu skoðað gang himintunglanna ákváðu þeir að gull skyldi vera 13 og 1/3 dýrara en silfur. Sú regla var í gildi fram á miðaldir og að nokkru leyti fram undir okkar tíma. Verðmæti gullsins á sér því himneskan uppruna og gullfóturinn stendur að hluta í heimi trúarinnar.

article-new_ehow_images_a08_92_s2_make-euro-sign-firefox-800x800

Upphaflega voru peningar nátengdir hinni trúarlegu fórn. Peningurinn kom í stað fórnargjafarinnar. Í fórninni gafst þú hluta af þér sjálfum. Þú brenndir korni sem þú hefðir getað bakað úr brauð eða slátraðir dýri sem hefði nýst þér lifandi eða til fæðu. Hver fórn var ákveðin sjálfsfórn. Þannig hugsuðu menn peningana líka. Hver greiddur eyrir var fórn. Þar neitaðir þú þér um einhver ákveðin gæði og afhentir öðrum hluta af þér sjálfum. Í gamla daga var nautið einhver dýrasta fórn sem hægt var að færa. Nautið varð því tákn fórnarinnar.

pixmac-vector-87127746

Enn má sjá nautstáknið á helstu gjaldmiðlum heimsins. Strikin tvö í merkjum dollarans, jensins, pundsins og evrunnar, eru nautshorn. Þau minna á þá hugsun að hver peningur sé fórn, þar séu á ferðinni ákveðin gæði og verðmæti, sem fólk munar um.

Margt bendir til þess að peningar okkar tíma hafi aftengst öllum raunverulegum verðmætum. Þeirra er ekki aflað með fórnum, með því að gefa af sjálfum sér, tíma sínum, kröftum eða gæðum. Nú á dögum eignast menn peninga eftir öðrum leiðum. Þeir eru búnir til úr engu, eru „samsafn af núllum" 1).

Yen_sign

Undanfarin misseri höfum við Íslendingar orðið vitni að stórkostlegum skuldauppgjöfum. Líklega var megnið af þeim peningum aldrei til í rauninni heldur hluti af bóluhagkerfi. Menn ætluðu að verða ríkir á peningum sem aldrei voru til. Ætli sé ekki auðveldara að afskrifa þannig skuldir en skuldir sem til var stofnað vegna raunverulegra verðmæta?

Christina von Braun, prófessor í menningarvísindum við Humboldt Háskólann í Berlín, sendi nýlega frá sér sögu peninganna. Þessi stutta samantekt er byggð á viðtali við hana í þýska tímaritinu Der Spiegel (nr. 26 / 25. 6. 12 bls. 128 - 130) sem tekið var í tilefni af útkomu bókarinnar.

1) „eine Anhäufung von Nullen" eins og von Braun orðar það í viðtalinu.

Myndin er tekin í friðlandi Svarfdæla.


Hjólaferð um Mósel, 9. og síðasti kafli

Eftir fjórðu nóttina blasti við Móseldalurinn í allri sinni dýrð og framundan var lengsti hluti ferðarinnar. Takmarkið var bærinn Cochem en áður en þangað kom fengum við að hjóla í gegnum marga skemmtilega staði.

 PICT0241

Umferðin eftir hjólaveginum var ekki mikil því ferðamennskan í Mósel hafði enn ekki náð hámarki. Enn voru til dæmis skólar starfandi í Þýskalandi. Mig langaði mikið að koma við á svonefndu Strausswirtschaft en þannig nefnast greiðasölur á bóndabæjum þar sem hægt er að smakka á framleiðslunni og kaupa afurðir beint frá bóndanum. "Strauss" er sveigur eða vöndur og þessi starfsemi er kennd við sveig því þeir sem hana stunduðu fléttuðu sveiga úr vínviði og festu á hurðir til að gefa til kynna að þar væri Strausswirtschaft.

PICT0249

Skömmu áður en við komum til Cochem sá ég Strausswirtschaft auglýst og við ákváðum að ráðast til inngöngu. Þar tók á móti okkur öldungur. Hann var orðinn einn á bænum. Konan hans var dáin og börnin farin að heiman. Ekkert þeirra vildi taka við vínekrunni sem var orðin nokkuð sjoppuleg hjá blessuðum gamla manninum. Hann vildi endilega gefa okkur svokallaða Rohsekt að smakka, einhverskonar hráfreyðivín. Það var nú dálítið gerbragð að því. Sama mátti segja um annað sem hellt var í glösin í móttökustofunni hjá karli. Samt var gaman að spjalla við hann. Þessi heimsókn var líka sorgleg því ekkert virtist framundan á þessum gamla bæ nema endalokin eftir aldalanga vínrækt á jörðinni. Forgengileikinn og hrörnunin gerir því vart við sig í allri þeirri grósku sem einkennir Móseldalinn.

PICT0256

Síðla dags sáum við inn til hins fagra bæjar, Cochem. Þar eru íbúar ekki ýkja margir en meðal þeirra sem eiga ættir sínar að rekja þangað er dansmærin Joy Vogelsang (Gleði Fuglasöngur). Sonur hennar heitir Nicolas Cage. Í Cochem biðu okkar góðir vinir sem dvalið höfðu í bænum nokkra daga. Urðu miklir fagnaðarfundir sem enduðu ekki fyrr en seint um kvöldið, á ítölskum matsölustað. Þar sáum við Ítalíu vinna Þýskaland í fórbolta. Ítölsku þjónarnir kunnu sig fyrir framan þýska gesti sína og stilltu fagnaðarlátum mjög í hóf þegar þeirra menn skoruðu og úrslit lágu fyrir - en þetta kvöld öðlaðist ég djúpan skilning á fyrirbærinu  "skítaglott".

PICT0021

Daginn eftir lauk frábærri hjólaferð. Við hjónin tókum lest til Koblenz, þaðan til Kölnar þar sem við skiptum aftur um lest og fórum til borgarinnar Aachen. Í Aachen stigum við upp í strætisvagn sem ók okkur yfir landamærin til borgarinnar Maastricht í Hollandi. Þar hófst ferðin og þar endaði hún, hjá syni okkar og kærustu hans, sem þar eru við nám. Hér er mynd af þeim skötuhjúum á einni af brúnum yfir fljótið Maas. Við áttum nokkra daga í Maastricht. Sú borg er ljómandi falleg og svo sannarlega heimsóknar virði.

PICT0215

Hjólaferðin var gjöf til Bryndísar minnar sem fagnar hálfrar aldar afmæli sínu á þessu sumri. Með henni hafa allar ferðir verið indælar. Ég lýk sögunni af þessari hjólaferð með mynd af sómahjónum sem heiðruðu okkur með návist sinni á einum áningarstaðnum við Mósel sumarið 2012.


Hjólaferð um Mósel, 8. kafli

Pünderich reyndist vera snoturt þorp með mörgum krúttlegum húsum og þröngum götum. Ekki var mikið um að vera í bænum en gaman þótti okkur að rölta um hann. Gististaðurinn okkar var inni í miðjum bæ. Þar var hreint og þrifalegt. Við keyptum okkur kvöldmat á staðnum og snæddum m. a. Flammkuchen eða tarte flambée, sem er þýsk-franska útgáfan af pítsu. Um kvöldið fylgdumst við með leik í Evrópumótinu í knattspyrnu með hópi heimamanna.

PICT0230

Í Pünderich fyrir framan gistihúsið okkar.

PICT0223

Eftir kvöldmatinn fengum við okkur labbitúr um bæinn. Yndislegir píanótónar bárust frá þessu húsi út í kvöldkyrrðina.

PICT0232

Eftir góða næturhvíld í Pünderich  var haldið af stað. Framundan var síðasti hluti ferðarinnar og sá lengsti. Margar brýr eru yfir Mósel og einnig ganga ferjur yfir ána. Þessi er í Pünderich.


Hjólaferð um Mósel, 7. kafli

Eins og fram hefur komið var þriðji gististaðurinn okkar hjá þeim Oster-hjónum í vínbænum Ürzig. Við kvöddum þau með miklum trega. Það var huggun harmi gegn að hjóla út í góðviðrið í Mósel, finna hlýja golu leika við andlitið og gróðurangan fylla vitin.

PICT0234   

Hjólavegurinn eftir Mósel liggur yfirleitt nálægt ánni. Hann er aðeins ætlaður reiðhjólum og ekki nema stuttir kaflar eru samhliða bílvegum. Stundum þarf að hjóla yfir brýr og fyrir kemur líka að unnt er að hjóla beggja megin árinnar. Þá völdum við leiðina sem hafði fleiri fýsilega viðkomustaði.

PICT0197

Á þriðja degi ferðarinnar hjóluðum við styst og gátum því leyft okkur óvenju mikið hangs og slór. Hér erum við á einum áningarstaðnum, litlu kaffihúsi við hjólaveginn þar sem hægt var að sitja úti, hressa sig á vínglasi og fylgjast með umferðinni, reiðhjólum og prömmunum sem sigldu eftir ánni.

PICT0220

Hér erum við komin á fjórða gististaðinn okkar, þorpið Pünderich. Ekki vorum við svikin af honum frekar en öðrum viðkomustöðum í þessari ferð okkar.


Hjólaferð um Mósel, 6. kafli

Engin vanþörf er á að nota tvo kafla í að lýsa heimsókninni til þeirra sómahjónanna Ingiríðar og Bertholds Oster, slíkar voru móttökurnar. Þau voru hápunktur ferðarinnar. Ingiríður hefur mikinn hug á að ferðast til Íslands en vegna anna við vínrækt og móttöku ferðamanna getur hún ekki brugðið sér af bæ nema yfir vetrartímann. Ég sagði henni að Ísland væri líka fallegt í snjó og frosti en við hjónin værum alveg til í að passa heimagistinguna og vínekruna fyrir þau einhverjar sumarvikur ef þau vildu.

PICT0179

Þegar Berthold hafði sýnt okkur vínræktina í hlíðunum ofan við Ürzig fór hann með okkur á annan stað. Þar var kryddjurtagarður bæjarins, til afnota fyrir veitingastaðina. Hér er hann staddur í garðinum. Stuttu áður hafði hann bent mér á að strjúka flötum lófa eftir einhverjum plöntum og þefa síðan af honum. Ég gerði það og komst í áramótaskap því plönturnar reyndust vera salvía sem er ómissandi á gamlárskvöldskalkúnann. Berthold sagði okkur að á svona kvöldum væri gott að setjast niður á bekk í angan garðsins með góða bók og eðalvín í glasi.

PICT0182

Á myndinn hér fyrir ofan eru hjólagarparnir Ortwin Pfläging, Bryndís Björnsdóttir, Svavar Alfreð Jónsson og Annette Pfläging (talið frá vinstri). Við erum í kryddjurtagarðinum og Berthold bóndi tók myndina af okkur. Eftir skoðunarferðina með honum fórum við heim til hans og þar var Ingiríður húsfreyja búin að grilla fyrir okkur heil ósköp af kræsingum. Berthold bóndi bar hróðugur í okkur afurðir sínar og gaf okkur að smakka. Hann var fullur eftirvæntingar að sjá hvernig okkur líkaði og hróðugur mjög af framleiðlsunni enda gat hann alveg verið það. Vænst þótti okkur samt um að þau hjónin skyldu gefa sér tíma til að sitja úti á verönd með okkur fram undir miðnætti og spjalla  um heima og geima.

PICT0184

Vel fer á því að enda þennan kafla með því að líta úr kryddjurtagarðinum niður með Móselánni en þangað lá fyrir að hjóla að morgni þegar við höfðum vaknað og snætt árbít hjá hinum elskulegu Oster-hjónum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband