Færsluflokkur: Bloggar

Allt almenningi að kenna

DSC_0588 

Á árunum fyrir Hrun kepptust fjölmiðlar og ráðandi öfl í þjóðfélaginu við að örva neyslu fólks. Fólk var hvatt til að kaupa. Dagblöð landsmanna voru dulbúnir auglýsingabæklingar, kostuð af þeim sem skenktu í glösin á neyslufylleríinu. Auðdýrkun og efnishyggja urðu meðal helstu dyggða þjóðarinnar.

Þegar svo allt þetta andstyggilega samfélag hrundi beindu margir vísifingrunum að fólkinu í landinu. „Þetta er ykkur að kenna," sögðu eigendur fjölmiðlanna sem um árabil spönuðu fólk upp í óhófið. „Ykkur var nær að taka þessi lán," sögðu bankarnir sem á árunum fyrir Hrun lögðu að fólki að taka þessi sömu lán. „Þetta er mátulegt á ykkur fyrst þið kusuð hina en ekki okkur," sögðu stjórnmálamennirnir.

Og á sama hátt og almenningi er kennt um  Hrunið á Íslandi vilja margir meina að þessi sami almenningur eigi sök á því hvernig umræðumenningin er að þróast á þessu landi. Hún er eins og hún er vegna þess að fólk er svo ofboðslega reitt.

Að sjálfsögðu er reiðin algjörlega tilefnislaus.

Elíta Íslands er saklaus í þessum efnum sem öðrum. Þar er aldrei við yfirvöld og helsta áhrifafólk samfélagsins að sakast.

Æðstu embættismenn þjóðarinnar mega halda áfram að ausa hver annan svívirðingum. Þingmenn eiga endilega að viðhalda þeim góða og þjóðlega sið að nota drjúgan part úr ræðutíma sínum á Alþingi til að kalla ráðamenn ónefnum. Fjölmiðlarnir mega ekkert gefa eftir í því að leggja menn í einelti og auðmennirnir og þeirra talsmenn mega ekki hlífa sér í því þjóðþrifaverki að moka undan réttarkerfinu.

En almenningur má ekki vera reiður og við skulum endilega hneykslast á því hvernig fólkið  í landinu leyfir sér að tala.

Orðbragðið sem líðst í ræðustóli Alþingis má ekki heyrast við eldhúsborð heimilanna eða í heitu pottum sundlauganna.

Og það er stórvarasöm þróun ef börn í íslenskum grunnskólum taka að stunda einelti á sama hátt og tíðkast hjá fullorðna fólkinu í íslenskum fjölmiðlum.

Myndin er af Fjörunni í akureyskum hauststillum.


Kenndur klerkur dansar

209095_1950422249825_1520687938_2088035_6349919_o 

Síðastliðið vor efndum við til dansmessu í Akureyrarkirkju. Þar dansaði prestur í fullum skrúða eins og sést á mynd Þórhalls Jónssonar hér að ofan. Á henni stígur undirritaður dans við danshöfundinn Sigyn Blöndal - og söfnuðurinn allur er á iði.

Danshefð íslenskra presta er ekki rík. Þó hafa þeir fengið sér snúning og þá helst í öðru samhengi en við helgihald í kirkju.

Á fyrri hluta 19. aldar gerði enski grasafræðingurinn William Jackson Hooker vísindaleiðangur hingað til lands. Ritaði hann bók um ferðina, Journal of a Tour in Iceland, sem út kom árið 1811.

Í ritinu Ísland framandi land frá 1996 sem Sumarliði Ísleifsson skrifaði, er eftirfarandi endursögn á kafla úr bók grasafræðingsins (bls. 127):

Hooker segir ýmsar sögur af kynnum sínum af landsmönnum, sumar grátbroslegar. Ein þeirra er af prestinum í Miðdal í Laugardal og fjölskyldu hans. Fyrir utan prestskap var klerkur eftirsóttur járnsmiður og reyndi á þann hátt að drýgja lúsarlegar tekjur sínar. Hvorugt prestshjóna var heilt heilsu. Karl var veikur í mjöðm og taldi að Hooker gæti ef til vill veitt sér hjálp vegna þekkingar sinnar á grösum. Hooker taldi alla annmarka á því en var tilleiðanlegur að gefa honum romm til að þvo brjóst sjúkrar konu sinnar. Þegar þvottinum var lokið reyndist vera afgangur af romminu og drakk klerkur það sem eftir var. Varð hann þá svo kátur að hann tók að dansa fyrir framan bæinn, þrátt fyrir ónýta mjöðm, heimilisfólki til mikillar skemmtunar, að undanskilinni prestsfrúnni. Klerkur vildi fá hana til að dansa við sig en hún koma honum í rúmið, og hafði brátt betur.

Þessi litla saga segir okkur til dæmis það um dansinn, að við dönsum þegar við erum kát og okkur líður vel. Í dansinum gefum við öðrum af gleði okkar. Dansinn gerir ekki mannamun. Menn dansa ekki eftir stéttum eða mannvirðingu. Svo berskjölduð erum við í dansinum og svo afhjúpandi er hann, að sumum getur þótt nóg um - hvort sem við dönsum drukkin af rommi eða heilögum anda.


Afglöp stjórnmálanna

DSC_0716 

Þótt ég sé lýðræðissinni sé ég galla á slíku stjórnarfari. Sá ljóður er til dæmis á þingbundnu lýðræði að þar freistast stjórnmálamenn til að kaupa sér atkvæði kjósendanna og veigra sér við að taka óvinsælar ákvarðanir því þær eru ódrjúgar til atkvæðaveiða.

Ég er þeirrar skoðunar að á síðustu áratugum hafi myndugleika vestrænna kjósenda hrakað. Þeir eru sífellt verr að sér. Með hverju árinu sem líður verða þeir ónæmari á þjóðfélagið sem þeir lifa í en um leið er markvisst unnið að því að gera þá að öflugum og helst óseðjandi neytendum. Kjósendurnir verða því stöðugt auðkeyptari og þann veikleika hafa stjórnmálamennirnir nýtt sér.

Þýski viðskiptablaðamaðurinn Thomas Tuma vekur máls á þessu í nýjasta tölublaði þýska tímaritsins Der Spiegel (nr. 43. 2011 bls. 82). Þar segir hann að enda þótt hin alþjóðlegu mótmæli síðustu vikna gegn bönkum og fjármálafyrirtækjum séu skiljanleg megi ekki gleymast að fleiri beri ábyrgð á ástandinu. Tuma bendir á að hagfræðingar hafi brugðist. Þeir hafi hvorki séð fyrir kreppuna 2007 né 2011 og séu ofan í hugmyndafræðilegum skotgröfum.  Að mati Tuma bera fjölmiðlarnir ennfremur sök. Þeim hafi mistekist að greina og útskýra kreppuna.

Mestu sökina er þó að finna hjá stjórnmálamönnunum, staðhæfir blaðamaðurinn. Um áratuga skeið hafi þeir eytt meiru en aflað var, vítt og breitt um heiminn. Skiptir engu máli hvaða stjórnmálaflokkar voru við völd í löndunum. Í Þýskalandi hafi skuldasöfnunin t. d. byrjað fyrir alvöru í stjórnartíð jafnaðarmannsins Helmut Schmidt.

Skuldasöfnunin sé gríðarleg. Fyrir gjaldþrot Lehman haustið 2008 uppfylltu 11 af 18 ESB-ríkjum ekki skilyrði Maastricht samkomulagsins um stöðugleika.

Mörgum finnst endurreisnin á Íslandi ganga hægt. Ein skýringin á þeim hægagangi kann að vera sú að hreinsunin, sem er forsenda endurreisnarinnar, hefur ekki farið fram. Enn eru leiddir fram sömu hagfræðingarnir og töluðu fyrir Hrun, af sömu blaðamönnunum sem skrifa illa um  sömu suma og vel um sömu aðra. Þeir sem áttu eiga enn og hinir halda áfram að skulda sem skulduðu.

Og enn sitjum við uppi með sömu gömlu stjórnmálamennina ofan í sömu gömlu skotgröfunum. Þeir beita gömlu klækjunum á okkur auðkeypta kjósendur með dyggri hjálp sauðtryggra blaðamanna.

Stjórnmálamennirnir halda áfram að lofa okkur gulli og grænum skógum. Þeir viðurkenna aldrei mistök og ástandið er annað hvort fólkinu í hinum flokkunum að kenna eða einhverjum öðrum.

Mér segir svo hugur að margir stjórnmálamenn taki því fegins hendi að mótmælin nú beinist að bönkum og fjármálastofnunum - en ekki að þeim sem áttu að setja þeim reglur og skorður.

Myndin er af fjalli einu svarfdælsku.


Og ég er lítill foss

DSC_0093 

Laugardaginn 22. október næstkomandi, fyrsta vetrardag, opna ég ljósmyndasýningu í Náttúrufræðistofu Kópavogs í Hamraborg 6a. 

Opnunarathöfnin hefst kl. 14 með ávarpi Hjálmars Hjálmarssonar, forseta bæjarstjórnar Kópavogs. Tónlistarflutning annast þau Andrea Gylfadóttir og Kjartan Valdemarsson.

Sýningin nefnist Eyjafjarðarfossar. Þar eru myndir af 42 fossum úr 25 eyfirskum vatnsföllum. Talnaglöggir menn hafa reiknað út að samtals sé fallhæð þessara fossa hátt í 300 metrar.

Í sýningarskrá segir:

Fossasýningin í Náttúrufræðistofu Kópavogs er þriðja uppsetningin á sýningunni, þó aukin og endurbætt. Fyrsta sýningin var í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju í október 2010 og sú næsta í febrúar 2011 í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Nú hefur fossunum verið safnað saman suður yfir heiðar í því skyni að veita fólki á höfuðborgarsvæðinu sýn á þessa rennblautu dýrgripi Eyjafjarðar. Að lokinni sýningunni í Náttúrufræðistofunni ferðast fossarnir til Bochum í Þýskalandi þar sem þeir verða hengdir upp fyrir aðdáendur náttúru Íslands og góðrar ljósmyndunar.

Myndirnar verða til sýnis til 1. desember. Sýningarstjóri er dr. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Titill þessarar færslu er fenginn úr ljóði eftir Birgittu Jónsdóttur. Myndin er af smáfossum í Gilsglili í Öxnadal.


Þjóðkirkjuþankar

DSC_0200 

Samband ríkis og kirkju

Ég tel að tengsl Þjóðkirkjunnar við ríkið eigi að mótast af hagsmunum íslensku þjóðarinnar.  Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag í tengslum við ríkið. Síðustu árin hefur verið unnið að því að minnka þau tengsl og endurskoða. Ekkert er því til fyrirstöðu að ríkið eigi áfram gott samstarf við Þjóðkirkjuna ef það kýs svo og telur það vera í þágu borgaranna. Ef ríkistengsl kirkjunnar torvelda henni að starfa fyrir þjóðina eða að sinna erindi sínu þarf að endurskoða tengslin. Prestar Þjóðkirkjunnar eiga að vera embættismenn kirkjunnar en ekki ríkisins.

Samband skóla og kirkju

Starfsfólk kirkjunnar á ekki að heimsækja skólana nema að ósk þeirra og á þeirra forsendum.

Að sjálfsögðu þurfa íslensk grunnskólabörn að þekkja Biblíuna og þá ekki síst Nýja testamentið. Engin bók hefur mótað vestræn samfélög meira en Biblían og enginn getur skilið vestræna menningararfleifð án lágmarksþekkingar á henni. Engin evrópsk þjóð getur kallað sig bókaþjóð ef hún kann ekki skil á Biblíunni.

Fjölmenning setur sífellt meiri svip á íslenskt samfélag. Þess vegna hefur aldrei verið meiri þörf en nú fyrir markvissa uppfræðslu um mismunandi trúarbrögð, viðhorf og siði. Umburðarlyndi og tillitssemi vex ekki í jarðvegi fáfræði, skilningsleysis og fordóma.

Kirkjan og kynferðisofbeldi

Enginn líður meira fyrir kynferðisofbeldi en þau sem fyrir því verða. Þó eru fórnarlömbin fleiri í slíkum málum. Þeir sem nota kirkjuna og embætti hennar sem skálkaskjól fyrir ofbeldi eru líka að níðast á þeirri stofnun sem þeir eiga að þjóna. Þjóðin öll er í sjokki eftir það sem á hefur gengið í kirkjunni og röngum viðbrögðum kirkjunnar við því. Kirkjan þarf að læra af mistökum sínum, rangindum og valdníðslu. Hún endurheimtir ekki traust og tiltrú þjóðarinnar nema hún sýni að iðrun hennar sé einlæg og hafi áþreifanlegar afleiðingar.

Kirkjan og lýðræðið

Efla þarf lýðræði innan Þjóðkirkjunnar og leikmenn eiga þar að fá aukna ábyrgð. Þjóðkirkan á ekki að taka sér stöðu með valdinu. Hún stendur ekki undir nafni nema hún sé með fólkinu og í þágu þess. Hún á að vera samfélag jafningja.

Staða biskups 

Þjóðkirkjan hefur lent í mörgum erfiðum málum á embættistíma þess biskups sem nú situr. Hann er ekki valdur að þeim en ber ábyrgð á mistökum sem gerð voru þegar við þeim var brugðist. Hann hefur líka gert margt vel þótt ekki sé hann óskeikull frekar en páfinn. Að minni hyggju er ekki skynsamlegt að biskupar sitji of lengi í embættum.

Framtíð kirkjunnar

Ég er bjartsýnn á framtíð kirkjunnar.  Þrátt fyrir allt er víða uppgangur í kirkjulegu starfi. Það finn ég til dæmis í kirkjunni minni, Akureyrarkirkju, en þar þekki ég best til. 

Það, að fólk hafi orðið fyrir vonbrigðum með Þjóðkirkjuna, segir okkur að það hafi haft til hennar væntingar. Mörgum fannst kirkjan bregðast þegar síst skyldi, á einhverjum mestu átakatímum í sögu lýðveldisins.

Þjóðkirkjan er sögð njóta forréttinda sem henni eru tryggð í stjórnarskrá. Mestu forréttindi Þjóðkirkjunnar eru þó væntumþykja og traust íslensku þjóðarinnar.

Það eru einu forréttindin sem Þjóðkirkjan á að reyna að halda í.

Myndin: Sr. Sólveig Halla Kristjánsdóttir talar við nemendur fermingarskólans á Vestmannsvatni.


Dvergakastarar

DSC_0372 

„Þeir voru álíka vanbúnir að fjalla um þessi mál og þeir voru til að horfa með gagnrýnum augum á íslenska efnahagsundrið þrjátíu árum síðar."

Þannig er álit  Egils Helgasonar á frammistöðu fjölmiðla í svonefndu Geirfinnsmáli á sínum tíma. Egill tekur ennfremur undir það sem fram kemur í hinni frægu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis:

Fjölmiðlar brugðust í aðdraganda Hrunsins.

Augljósasta skýringin á afstöðu íslenskra fjölmiðla til „íslenska efnahagsundursins" er að sjálfsögðu sú, að fjölmiðlarnir voru að miklu leyti í eigu íslensku efnahagsundrabarnanna.

Nú, þegar verið er að moka flórinn eftir herlegheitin, skyldi maður ætla að fjölmiðlarnir gegndu þar mikilvægu hlutverki.

Samt hefur í raun ósköp lítið breyst. Enn eru fjölmiðlar að miklu leyti í eigu sömu manna og fyrir Hrun.

Um mitt sumar bárust fregnir af fundi ritstjóra DV og eins helsta helsta útrásargoða Íslands. Þá var á allra vörum að verið væri að leita að auknu hlutafé í blaðið. Þegar ritstjórinn var spurður að því hvort athafnamaðurinn væri að kaupa sig inn í blaðið neitaði hann því hvorki né játaði en sagði:

Ég veit ekkert hvað Jón Ásgeir kaupir eða kaupir ekki.

Á að giska einum og hálfum mánuði síðar fá landsmenn af því fréttir að DV skuldi tugi milljóna króna í staðgreiðslu skatta og tryggingagjald.

Enn leið um það bil mánuður og það næsta sem gerist í málinu er margra síðna drottningarviðtal við athafnamanninn í helgarútgáfu DV.

Þar kemur ekki fram hvort búið sé að gera upp skuldir DV en hitt liggur fyrir að athafnamaðurinn þvertekur fyrir að hafa kastað dvergum.

Sumir hafa lesið eitt og annað úr þessari atburðarrás, þar sem ritstjórinn sver af sér tengsl við þann sem vísar því á bug að hann sé dvergakastari.

Ég á hinn bóginn harðneita því að ég sé sögusmetta.

Myndin: Endurkast


Ofbeldismenn Íslands

DSC_0373 

Ofbeldismenn gærdagsins grýttu eggjum í þingmenn og hrópuðu ókvæðisorð og svívirðingar að fólki.

Fórnarlömb þessara ofbeldismanna voru annarsvegar þau sem fengu yfir sig dembu af dónaskap og eggjum.

Hinsvegar leið  meirihluti mótmælendanna sjálfra fyrir þetta ofríki hinna fáu úr þeirra röðum. Friðsamleg skilaboð þeirra köfnuðu því miður í óhróðri og eggjarauðum.

Ofbeldi er hægt að beita án þess að egg fljúgi eða gangstéttarhellur. Ofbeldismenn gærdagsins er ekki bara að finna í eggjakösturunum. Þegar eggin höfðu tvístrast og hrópin þagnað tóku hinir andlegu og pólitísku ofbeldisseggir við.

Þeir eru enn að og hamast á mótmælendum.

Frelsi til skoðana og tjáningar er ein meginstoð  mannréttinda. Það frelsi þarf sínar reglur til að það virki, skrifaðar og óskrifaðar. Rétturinn til að mótmæla, til að láta óánægju sína í ljós og reiði, er hluti af þessu frelsi.

Þeir sem vilja þagga niður í mótmælendum eru ofbeldismenn sem vilja afnema þennan þátt frelsis og mannréttinda.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að þöggunin hafi verið ein orsök þess að svo fór sem fór á Íslandi. Vegna þöggunarinnar veitti samfélagið ekki það aðhald sem þurfti. Nú kemur þessi þöggun berlega í ljós.

Það er veist að mótmælendum með ýmsum hætti. Nærtækasta vopnið til að þagga niður í þeim er að gera alla þessa mótmælendur að eggjakösturum og spellvirkjum, trylltum skríl sem ekki alls ekki má hlusta á.

Vopn þöggunarinnar eru fleiri. Ofbeldismenn þöggunarinnar beita líka því, að mótmæli eigi aldrei rétt á sér nema verið sé að mótmæla einhverju sérstöku og skýrt afmörkuðu.

Það er mikill misskilningur að mótmælaaðgerðir snúist alltaf um einhvern einn hlut eða beinist alltaf að einhverju einu. Oft beinast mótmæli að ástandi og ástand er gjarnan margbrotið og á sér margar orsakir.

Sú reiði sem kraumar í þjóðfélaginu á sér jafn margar orsakir og hrunið sem reiðinni olli. Ekki get ég lesið hug allra sem finna fyrir reiði eða óánægju og sjá ástæðu til að tjá það í mótmælum en ég held að það fólk sé í fyrsta lagi mjög þreytt á stjórnmálastéttinni og finnist hún hafa brugðist sér. Þó að þjóðin hafi mætt einhverri mestu ógn af mannavöldum í sögu lýðveldisins gátu stjórnmálamennirnir ekki snúið bökum saman til að vinna saman að heill almennings. Þess í stað héldu þeir áfram sama sandkassaleiknum. Fólk er óánægt með ríkisstjórnina og stjórnarandstöðuna og traust þess til Alþingis er í lágmarki eins og kannanir sýna.

Í öðru lagi finnst fólki finnst lítið hafa breyst. Enn virðast þeir ráða ferðinni sem réðu henni fyrir hrun. Enn sitja þeir að sínu sem mestu stálu. Enn eru þeir ósnertanlegir sem ekki mátti snerta. Enn stjórna þeir umræðunni sem stjórnuðu henni.

Í þriðja lagi horfir fólk upp á að byrðar kreppunnar leggjast misþungt á fólk. Sumir halda áfram að græða, hjá sumum hækka launin og sumir fá afskrifaðar skuldir. Aðrir horfa upp á lánin sín bólgna út, eignarhluta í húsnæði hverfa og sparifé brenna upp á meðan allar nauðsynjar stórhækka í verði. Aðrir missa vinnuna og eiga ekki fyrir mat. Það er ekkert nýtt að ranglæti og misskipting séu fylgifiskar kreppu.

Hið andlega og pólitíska ofbeldi gegn mótmælendunum felst líka í því að kalla mótmælendurna ónefnum og gera þeim upp skoðanir. Mótmælendurnir er vælukjóar, grenja yfir því að komast bara í eina sólarlandaferð á ári eða vegna þess að þeir þurftu að selja reinsinn og fá sér rav fjóra. Dregin er upp mynd af mótmælendunum sem nautnasjúkum eyðslufíklum. Slík ofbeldisummæli miða að því að þagga niður í fólki: Þú mátt ekki mótmæla ranglæti og misskiptingu því  þar með ertu orðinn hluti af þessu óráðsíuliði sem keypti sér of stór hús og of dýra bíla.

Enn ein ofbeldisþöggunin felst í því að gera mótmælendurna hluta af samsæri pólitískra andstæðinga. Einstæða móðirin - sem mótmælir því að hafa þurft að betla mat reglulega alveg frá hruni - þessi móðir er allt í einu orðin þáttur í yfirvofandi valdaráni og stórhættulegt fyrirbæri.  Konan sem hefur skriðið betlandi á milli góðgerðarstofnana til að hafa mat handa börnunum sínum á meðan stjórnmálamennir sem áttu að gæta hagsmuna hennar voru uppteknir við að berja á andstæðingum sínum, þegar þessi kona loksins rís upp til að krefjast réttar síns og mannsæmandi lífs, þá er hún umsvifalaust gerð að barefli þessara sömu stjórnmálamanna til að þeir geti haldið áfram að slást.

Þeir stjórnmálamenn sem þjóðin þarfnast núna eru ekki þeir sem tala lengst. Heldur ekki þeir sem tala klúrast og virðist líða best þegar þeir geta nítt andstæðinginn mest og niðurlægt.

Þeir stjórnmálamenn sem þjóðin þarfnast núna eru vitrir, varkárir en staðfastir, réttsýnir, sanngjarnir, góðviljaðir, víðsýnir, hugrakkir og umfram allt, stjórnmálamenn sem kunna enn betur að hlusta en tala.

Myndin er af fossi í Fossá á Þelamörk.


Von og óvon

DSC_0494 

Stundum er talað um vonina sem líkindareikning.

Ég sæki um vinnu, kynni mér aðra umsækjendur og eftir mikla yfirlegu tel ég mig geta átt 57% von á starfinu. Ég veikist og læknirinn segist hafa reiknað út að það sé 75% von um bata.

Samkvæmt þessu þarf vonin helst að vera yfir 50% til að teljast von. Ef vonin er ekki nema 49% eru meiri líkur á að hún rætist ekki. 49% von er orðin neikvæð og í raun óvon.

Þannig er það ekki í veruleikanum.

Manneskja sem er alvarlega veik og hefur ekki nema 10% von um bata (og þá 90% um ekki bata) heldur í þessi 10% og vonar. Fólk heldur í vonina þótt skynsemin sé búin að sýna henni rauða spjaldið. Fólk vonar þótt það geti ekki teflt fram nema 1% von gegn 99% óvon.

Vonin þarf ekki nema örlítinn neista til að geta lifað.

Ég þekki fólk sem hvert kvöld biður sömu bænanna, leggur sömu óskirnar í hendur Guðs og hvíslar sömu þrána út í þögn næturinnar. Það hættir ekki þrátt fyrir áratuga langa sögu þrotlausra vonbrigða. Það heldur áfram að vona þótt tölurnar sýni að vonin sé orðin að óvon.

Við skulum takast á við veruleikann í stað þess að flýja hann, við skulum horfast í augu við það óumflýjanlega og við skulum ekki afneita gangi tilverunnar heldur finna leiðir til að bregðast við aðstæðum okkar.

En við megum samt vona. Vonin er ekki bara fyrir þau sem fá góða útkomu úr líkindareikningsdæmunum.

Og enda þótt vonir bregðist er ekki þar með sagt að fólk sé dæmt til vonleysis.

Vissulega geta vonir brugðist. Þær geta líka breyst. Ef þú missir vonina má finna aðra.

Nassim Nicholas Taleb skrifaði bók um Svarta svaninn. Þar heldur hann því fram að það óvænta og ólíklega hafi miklu meiri áhrif á veröld okkar en hingað til hefur verið haldið.

Atburðir eru ekki óvæntir vegna þess að þeir gerðust ekki. Óvæntir atburður nefnast svo vegna þess að þeir gerðust en enginn bjóst við þeim.

Verum veruleikatengd:

Í veruleikanum er það óvænta alltaf að gerast.

Myndin: Úr gönguferð dagsins um Naustaborgir ofan Akureyrar. Kaldbakur í allri sinni dýrð.


Sælir eru hógværir

DSC_0471 

Ef til vill er ekki nema von að hógværð sé dyggð sem tíðarandinn hvorki metur né skilur. Stundum heyrist talað um hógværðina eins og sakbitna minnimáttarkennd, sjálfsbælingu og aumingjaskap.

Helsta ástæða þess að hógværðin á ekki upp á pallborð ríkjandi menningar er kannski sú, að hógværðin er andstæða hrokans, gamals lastar sem þessi sama menning hefur gert að einni af sinni mestu dyggð.

Latneska orðið yfir hógværð er humilitas. Það er dregið af humus sem þýðir jörð.  Hógværð er moldvitund. Sá hógværi veit að hann er mold.

Samkvæmt gömlum kenningum er hrokinn upprunasyndin en ef til vill má orða það þannig, að hógværðin sé hjarta trúarbragðanna. Hógværðin er vitundin um eigin smæð, eigin takmarkanir, eigin synd, eigin veikleika.

Sá hógværi veit að hann er sjálfum sér ekki nógur. Hann gerir sér grein fyrir að hann kemst ekki af án Guðs. Hann er upp á aðra kominn. Hann er öðrum háður. Hann er hluti af umhverfi sínu.

Þess vegna er hógværðin forsenda samfélags manna. Samfélag byggist á því að ég viðurkenni aðra.

Samfélag hrokans, þar sem hverjum er gert að ota sínum tota endar í hruni en þar sem hógværðin ríkir og gagnkvæm virðing, þar mun samfélagið blómstra.

Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.

Myndin er af haustlaufi sem býr sig undir að verða mold.


Demanturinn í ormsbælinu

DSC_0669

Ole Bull fæddist árið 1810 í Björgvin í Noregi. Hann var undrabarn, ekki orðinn fimm ára þegar hann gat spilað á fiðluna sína allt sem mamma hans kunni á hljóðfærið. Níu ára var hann fiðluleikari í hljómsveit borgarleikhússins í Björgvin. Tónlistarferill hans var glæstur. Tónleikarnir sem hann hélt skiptu þúsundum. Hann er talinn meðal mestu fiðlusnillinga sögunnar.

Bull var líka tónskáld. Frægasta verk hans er hið ljúfa lag, Sunnudagur selstúlkunnar (Sæterjentens søndag) sem oft heyrist við útfarir á Íslandi. Hér er það í flutningi Annar Follesø og hljómsveitar norska ríkisútvarpsins.

Listaverkið á myndbandinu er eftir franska málarann William-Adolphe Bouguereau  (1825 - 1905) og sýnir stúlku hvíla sig eftir vinnu við uppskeruna. Ekki leynir sér að hún er ástfangin.

Til er kvæði við lagið. Íslenska þýðingu gerði Steingrímur Thorsteinsson og birtist hún í Skírni árið 1905.

Fyrsta erindið er svona:

Á dagsólar horfi ég hækkandi skeið,

að hámessu fer nú að líða:

Með kirkjufólkshópnum mér ljúf væri leið,

mig langar svo ákaft til tíða.

Þá sól yfir kambskarðið beint þarna ber,

það boðar mér fjalls upp í salinn,

í kirkjunni samhringt að klukkunum er,

svo kveður við hljómur um dalinn.

Lagið hans Ole, I ensomme stunde (La Mélancolie), er eitt það hjartnæmasta sem ég heyri. Hér er sú fagra depurð í flutningi sömu listamanna og spiluðu fyrir okkur Sunnudag selstúlkunnar. Listaverkið á myndbandinu þekki ég því miður ekki.

Ég hef verið að lesa kvæðabók eftir Benedikt Gröndal. Hún kom út í Reykjavík árið 1900 og er tileinkuð „hinum lærða og skáldlega Íslands vini J. C. Poestion keisaralegum yfirbókaverði í Vínarborg í Austurríki" eins og tilkynnt er á upphafssíðum bókarinnar.

Benedikt heyrði Ole Bull spila í Kaupmannahöfn og orti skömmu síðar um hann ljóð sem er í bókinni. Í neðanmálsgrein er saga um fiðlusnillinginn sem skýrir ljóðið:

Hann var frægur um alla Evrópu og Norður-Ameríku. Hann lék og í Algier eða Túnis. Hann hafði látið festa demant í fiðlubogann, og gekk sú saga um hann þar í Afríku, að hann hefði náð demantinum úr ormsbæli, svæft orminn með fiðluhljóminum.

Ég efast ekki um demantinn í fiðluboga Ole Bull. Hvernig sem sá steinn hefur verið fær enginn þroskað hæfileika sína án þess að taka sénsa og tefla fram sér sjálfum.

Hver snillingur þarf að sækja eðalstein ofan í holu nöðrunnar.

Myndin: Grímsey úr Vámúla


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband