Tíðindi dagsins

DSC_0838 

Hér skorti ekki tíðindin í dag.

Stærst eru auðvitað þau að forseti lýðveldisins ákvað að staðfesta ekki lög um ríkisábyrgð á skuld vegna Icesave-reikninganna.

Í umræðum síðustu mánaða hafa stjórnvöld hamrað á því að andstæðingar þessara laga vilji ekki borga skuldir, séu að víkja sér undan ábyrgð, vilji ekki að þjóðin standi við skuldbindingar sínar og séu í raun sviksamir óreiðumenn.

Nú þegar ljóst er að það verður að minnsta kosti einhver dráttur á að lögin verði að veruleika blasir við stjórnvöldum það verkefni að sannfæra umheiminn um að Íslendingar vilji borga skuldir, séu ekki að víkja sér undan ábyrgð, vilji að þjóðin standi við skuldbindingar sínar og séu ekki sviksamir óreiðumenn.

Stjórnvöld þurfa m. ö. o. að vinda ofan af eigin málflutningi um þjóð sína.

Merkileg umfjöllun morgunvaktarinnar á RUV féll í skuggann af synjuninni.

Þar var sagt frá því að hvernig útrásarfyrirtæki kostuðu rannsóknir háskólasamfélagsins á útrásinni - sem komst að því að útrásin íslenska væri algjörlega einstök og íslenski útrásarvíkingurinn væri engum líkur.

Þannig áttu auðmennirnir bæði fjölmiðlana, sem fjölluðu um þá, og voru á góðri leið með að eignast háskólana, sem rannsökuðu þá.

Myndin er af krossinum á Höfðanum þar sem kirkjugarðurinn á Akureyri er, tekin í frosthörkum síðustu daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Í umræðum síðustu mánaða hafa stjórnvöld hamrað á því að andstæðingar þessara laga vilji ekki borga skuldir
Ætlarðu virkilega að halda því fram að það eigi ekki við um fjölmarga andstæðinga þessa laga að þeir vilji ekki borga þessar tilteknu skuldir?

Matthías Ásgeirsson, 5.1.2010 kl. 17:36

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Matthías, ég held að Íslendingar séu yfirleitt heiðarlegt fólk sem vill standa við skuldbindingar og sýna ábyrgð. Þó eru á því undantekningar eins og hjá öðrum þjóðum en ég efast stórlega um að andstæðingar fyrirliggjandi Icesave-samnings séu óheiðarlegri en hinir.

Svavar Alfreð Jónsson, 5.1.2010 kl. 17:56

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er sennilega nokkuð um að fólk haldi virkilega að hægt sé að kjósa sig frá þessari skuld. Málfluttningur stjórnarandstöðunnar hefur oft á tíðum verið með þeim hætti að slíkur möguleiki væri í stöðunni, því miður. Ég tek ekki undir með þér um að stjórnarflokkarnir hafi túlkað málið með þeim hætti að þjóðin vildi ekki borga, heldur að ákveðin öfl hafi ekki vilja ljúka samningum um málið.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.1.2010 kl. 23:58

4 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þú svaraðir ekki spurningunni en ég skal gera það fyrir þig.

Fjölmargir andstæðingar Icesave vilja ekki borga skuldir einkafyrirtækis eða óreiðumanna eins og þeir hafa orðað það.

Matthías Ásgeirsson, 6.1.2010 kl. 00:37

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég held, Matthías, að enginn vilji borga skuldir einkafyrirtækis og óreiðumanna, en fólk greinir ef til vill á um hver sé skuldbinding Íslands í þessu máli.

Því miður, Hólmfríður, hafa stjórnvöld haldið því fram að þeir sem séu á móti fyrirliggjandi samningi séu á móti því að Ísland standi við skuldbindingar sínar. Þannig er það auðvitað ekki.

Svavar Alfreð Jónsson, 6.1.2010 kl. 09:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband