Ólafur með björgum fram

DSC_0802 

Nú er vel við hæfi að rifja upp þessa þjóðsögu úr safni Jóns Árnasonar.

Útleggingar læt ég eiga sig. Þær verður hver að annast fyrir sig.

 

Svo er sagt að þá Ólafur kóngur Haraldsson var fimm vetra fór hann á skipi með fóstra sínum og sigldu þeir með björgum fram. Þá kom tröllkona fram á bjargið og spurði hvort skáld væri á skipi. En þeir sögðu ei vera. Þá kvað kerling vísu þessa:

 

„Komi sótt,

kveini drótt,

kyngi hríð

og gjöri sult víða;

hrynji mjöll,

hylji fjöll,

hatist menn.

deyi fé skatna.

 

Gremjist hauður,

glatist sauður,

gjöri hregg,

tapist fé seggja;

fáist hatur,

firrist matur,

farist her

og gjörist enn ver."

 

Ólafur Haraldsson kvað:

 

„Gjöri regn,

gefi logn,

gefi gott fang,

og komist menn þangað;

firrist snjór,

falli sjór,

fargist hatur,

fái byr skatnar.

 

Grói hauður,

gleðjist sauður,

gjörti gott ár

og færi baut vora;

linni nauð,

lifni þjóð,

líði vetur,

og gjöri enn betur."

 

Þá sprakk tröllkonan.

 

Myndin: Mjöllin hefur heldur betur hrunið á blessaðan fjörulallann pater Nonna inni í Aðalstræti.

ES:

Að gefnu tilefni tek ég fram að orðið "baut" er samkvæmt handriti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir allar fallegu myndirnar þínar.  Og hugleiðingarnar er líka oft gaman að lesa.

Vala G (IP-tala skráð) 6.1.2010 kl. 19:06

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Frábærlega skemmtilegt að rifja upp svona sögur annað slagið. Ég túlka þetta sem nýja tíma með nýrri ríkisstjórn og nú séum við að "sprengja" hræðslubandalagið og gera nýja samninga sem eru á eðlilegum basis miðað við þær aðstæður sem uppi eru og sýna að íslenska þjóðin vill borga það sem henni ber án þess að verða ánauðarþrælar fjárglæframanna inn-og erlendra.. Besta kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.1.2010 kl. 20:24

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

"færi baut vora" Gæti þetta ekki ekki gengið rakleitt inn í þetta ákall um bættan hag; færi baut- fresti ævilokum?= bautasteinn, "Svo skulum vér bauta björnuna ef þer ber(j)ið hundana," sagði Þórir hundur forðum er hann hjó Björn banahögg. (Heimskringla, eftir minni, en þá bók hef ég ekki lesið síðan ég var 9 ára gamall og margt hefur líklega brenglast í forritinu á fáeinum árum!"

Árni Gunnarsson, 13.1.2010 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband