7.1.2010 | 22:40
Fyrsta bókmenntamessan

Bókmenntamessur eru nýjung í kirkjulegu starfi.
Í þeim velur presturinn sér bók sem hann styðst við í prédikun. Ritningarlestrar eru valdir með hliðsjón af bókinni og lesnir eru stuttir kaflar úr henni í messunni. Bænir tengjast efni bókarinnar, sálmar og tónlistin einnig.
Fyrirmyndin að þeim er frá Þýskalandi.
Næsta sunnudag, 10. 1. kl. 11, verður fyrsta bókmenntamessan hér á landi í Akureyrarkirkju.
Biskup Íslands, Herra Karl Sigurbjörnsson, leiðir hana.
Bókin sem hann valdi heitir Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards.
Dagskrá bókmenntamessa í vetur:
Sunnudagurinn 10. janúar kl. 11
Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands: Dóttir myndasmiðsins eftir Kim Edwards
Sunnudagurinn 14. febrúar kl. 11
Sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur á Miklabæ í Skagafirði: Brasilíufararnir eftir Jóhann Magnús Bjarnason
Sunnudagurinn 14. mars kl. 14
Dr. Hjalti Hugason, prófessor: Enn er morgunn eftir Böðvar Guðmundsson
Sunnudagurinn 18. apríl kl. 11
Sunna Dóra Möller, guðfræðingur, og sr. Bolli Pétur Bollason, sóknarprestur í Laufási: Saga Þernunnar eftir Margaret Atwood
Sunnudagurinn 31. maí kl. 11
Sr. Jón A. Baldvinsson, vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal: Glíman við Guð eftir Árna Bergmann
Boðið er upp kaffisopa og spjall í Safnaðarheimili eftir messurnar.
Leikarar frá Leikfélagi Akureyrar lesa úr bókunum í messunum.
Bækurnar eru fáanlegar á Amtsbókasafninu.
Þá er að drífa sig í bókmenntamessur. Ákjósanlegt er fyrir utanbæjarfólk að nýta ferðina til skíðaiðkunar - en myndin með þessari færslu er af skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Hún er nýleg og nægur snjór í fjallinu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.