Stöndum saman!

DSC_0807

Viðtalið við Þórólf Þórlindsson, prófessor, í Kastljósi kvöldsins var það jákvæðasta og uppbyggilegasta í fjölmiðlum síðustu daga - ásamt viðtalinu við Evu Joly.

Svo sannarlega er von en til þess að hún rætist þurfum við að standa saman.

Íslensk flokkapólitík er stundum hreint djöfulleg. Hún sundrar og spillir og dregur fram það versta í fari annars ágætra manna.

Við höfum oft sýnt aðdáunarverða samstöðu. Þótt okkur hafi orðið á megum við ekki láta telja okkur trú um að við séum vonlausir asnar. Við getum vel verið skynsöm og snúið saman bökum. Það höfum við til dæmis sýnt í náttúruhamförum og stórslysum.

Við megum ekki missa móðinn eins og Eva Joly áminnti okkur um.

Nú hafa dunið yfir efnahagsleg stóráföll. Ábyggilega hafa margir gert mistök og vitleysur. En til þess að komast í gegnum þau þurfum við að sýna sömu samstöðuna og í öðrum hamförum.

Og þá þarf stjórnmálastéttin að sýna fordæmi.

Það eru forréttindi að hafa kynnst Íslendingum þegar hörmulegir atburðir verða. Nú verðum við að koma okkur upp úr skotgröfunum og sýna á okkur þá góðu hlið.

Ég tek undir allt sem Þórólfur sagði í kvöld. Guð blessi hann fyrir það.

Myndin: Vetrarfriðsæld við Minjasafnskirkjuna á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Það þarf einmitt að þjappa þjóðinni saman en pólitík undangengins árs hefur þvert á móti sundrað henni. Gott að fá smá áminningu um mikilvægi þess að okkar litla þjóð standi saman þegar á okkur reynir.

, 9.1.2010 kl. 02:16

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hef því miður enga trú á því í mínu harðsvíraða raunsæi að stjórnmálamennirnir komi upp úr skotgröfum sínum. Þeir eru dreggjar þjóðarinar enda fyrirlítur þjóðin þá álíka mikið og bankamennina eins og Þórólfur benti á.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.1.2010 kl. 11:04

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér hér. Takk fyrir þessa grein.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.1.2010 kl. 11:10

4 Smámynd: Brattur

Því miður Svavar þá er þjóðin klofin í þessu Icesave máli. Okkur er nú kastað út í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem við tökumst á innbyrðis. Það verða átök á næstu vikum.
Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað við erum sundurlaus þjóð. Það helgast mest á óréttlæti. Eignum hefur verið misskipt í landinu og bilið milli þeirra sem eru ríkir og fátækir hefur aukist.

Spilling á líka stóran þátt í því að við tökumst á. Tveir stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa í gegnum tíðina verið þar í fremstu röð. T.d. með ráðningu dómara, sýslumann og annarra embættismanna sem hafa verið teknir fram yfir hæfari umsækjendur vegna vensla eða þá að þeir eru í þeirra flokki. Traust margra til dómkerfisins er ekki mikið.

Að ógleymdu kvótakerfinu... pabbi minn, sjómaður allt sitt líf, sagði einu sinni... Aldrei datt mér það í hug að örfáir einstaklingar myndu eignast fiskinn sem syndir í sjónum... þeir eiga hann áður en þeir veiða hann !

Það er langt í land þar til við verðum sameinuð sem þjóð.

Brattur, 9.1.2010 kl. 11:20

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samstöðu er þörf í að leysa þetta mál en ekki svona úrtölur eins og hér hjá Bratti.  Brattur: Er hugsanlegt að ranghugmyndir þínar séu vegna þess að þú ert í sértrúar og bölmóðshópi Samfylkingarinnar, sem hefur spáð heimsendi út í eitt í 15 mánuði?

Ekkert af þessu sundurlausa tali þínu kemur umræðunni við. Hér er verið að tala um hugrekki, réttlæti og sanngirni. Ef þú hefur gefið það upp á bátinn, þá ert þú í hópi afar fárra. Hresstu þig nú við og gangtu í lið með þjóð þinni!

Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2010 kl. 16:39

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Já, Gísli minn, ranglætið, misskiptingin, ójöfnuðurinn, ráðningar dómara og sýslumanna að ógleymdu kvótakerfinu, um þetta er hægt að rífast endalaust.

Sú þjóð er illa stödd sem engin á deiluefnin. Ekki vildi ég búa í landi þar sem allir eiga alltaf að vera sammála.

Enn verr er samt fyrir þessari litlu þjóð komið ef hún getur ekki staðið saman í hörmungum.

Svavar Alfreð Jónsson, 9.1.2010 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband