22.1.2010 | 21:54
Karl á hálfri brókinni
Í dag byrjaði þorrinn og þegar búið er að þreyja hann kemur góa. Vetri lýkur síðan með einmánuði en sumar hefst með hörpu, svo rifjuð séu upp hin gömlu íslensku mánaðaheiti.
Í þjóðtrúnni er þorri húsbóndinn en góa húsfreyjan. Þeirra sonur var einmánuður en dóttir harpa.
Húsfreyjur áttu að bjóða góuna velkomna hinn fyrsta góudag með því að drífa sig á lappir fyrir allar aldir fáklæddar harla. Síðan skyldu þær labba sér þrisvar í kringum bæinn hafandi yfir þessa vísu:
Velkomin sértu, góa mín,
og gakktu inn í bæinn;
vertu ekki úti í vindinum
vorlangan daginn.
Að því búnu var þess vænst að húsfreyjur efndu til kvennapartía.
Öllu flóknara var það fyrir húsbændur að fagna þorranum.
Þeir áttu líka að verða fyrstir á fætur hinn fyrsta þorradag. Síðan áttu þeir að drífa sig út á skyrtunni eða bolnum eins og það heitir líklega núna en vera bæði berfættir og berlæraðir. Þeir skyldu klæða sig í aðra brókarskálmina en draga hina á eftir sér. Þannig til fara áttu þeir að ljúka upp útidyrum, ganga út, hoppa á öðrum fæti í kringum húsið dragandi á eftir sér brókarskálmina og biðja þorrann að koma fagnandi.
Eftir allt það stapp var gert ráð fyrir að þeir héldu veislur með öðrum körlum. Ekki veit ég hvaða samkvæmisklæðnaðar var krafist í þeim samkvæmum en sé að sjálfsögðu fyrir mér brókarskrýdda og skálmardragandi kappa.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er ennfremur tekið fram að á bóndadegi eigi húsfreyja að "halda vel til bónda síns" og er þeim eindregnu tilmælum hér með komið á framfæri þótt seint sé.
Myndin er úr Krossanesborgum en þar mun vera mikil álfabyggð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.