Prestur brýtur hurð

DSC_0881 

Séra Jón Jónsson var prestur í Möðrufelli á fyrri hluta 19. aldar og hafði viðurnefnið hinn lærði.

Einhverju sinni var hann í verslunarferð á Akureyri. Þá var þar aðeins einn kaupmaður, Erasmus nokkur Lynge, danskur maður.

Kaupmanni leiddist margmennið og hleypti ekki nema einum og einum í senn inn í búð sína. Hinir urðu að standa úti. Þá voru harðindi og ill útiveran. Segir sagan að sumir hafi verið nær kali.

Þegar séra Jón ber þar að var "hinn mesti kurr í lýðnum" segir séra Benedikt Þórðarson í Sagnaþáttum fjallkonunnar (Reykjavík, 1953).

Séra Jón biður kaupmann að ljúka upp búðardyrum svo fólk komist inn úr óveðrinu en Lynge harðneitar.

Svo segir séra Benedikt frá framvindu atburða:

Og er prestur fékk ekki af honum utan hroka og gaguryrði, sló í heitingar og við það skildu þeir. Litast prestur nú um og nefnir til nokkra menn úr flokknum, sem hann treysti bezt, og býður þeim að fylgja sér að búðardyrum, og ef svo ólíklega yrði, að hann kæmist inn um þær, skyldu þeir ganga djarflega inn og gera hark nokkuð. Mennirnir hétu því fúslega. Búðin var rammlega læst með sterkri, plægðri hurð úr þykkum borðum. Prestur hikar ekki, hleypur skeið að hurðinni og setur við öxlina, og í einni svipan klofnar hurðin og brotna tvær miðfjalirnar úr henni. Kemst prestur inn um gáttina og mennirnir á eftir; fara nú æstir mjög og prestur í broddi fylkingar. Kaupmanni brá mjög við hurðarbrotið, og enn meira er hann sá, hversu hvatskeytlega um var gengið, og skalf af hræðslu og drengir hans, en þó reyndi hann að hreyfa hótunum um lögsókn og dóm yfir prestinum um húsbrotið, en prestur kvað hann sjálfan skyldu sæta lögsókn og dómi fyrir lokun búðarinnar, og skuli hann nú velja um, hvort hann vilji lögsækja sig eða þegja og bæta skemmdirnar sjálfur, gefa öllum fylgjurum prests góða hressingu og láta búðina framvegis standa opna eins og lög gera ráð fyrir.

Lýsing séra Benedikts á viðbrögðum kaupmanns er snilldarleg:

Kaupmaður sýndist að taka síðari kostinn og eru síðan tvær fjalirnar í hurðinni nýlegri en hinar.

Frásögninni lýkur á þessum orðum:

Þetta þótti mikið þrekvirki, bæði að brjóta hurðina og odd af oflæti kaupmannsins, því fáir þorðu í þá daga að mæla í miðjum hlíðum við kaupmennina.

Myndin: Horft úr tóftum fram í fjörð, í átt að Möðrufelli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Óttinn hefur löngum verið notaður til stjórnunar. Þetta hefur verið prestur að mínu skapi.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 27.1.2010 kl. 23:56

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Auðvitað verða menn að fá útrás öðru hverju gegn ofríki bölvalda almennings, annað kemur nú ekki til greina! Ég ætla bara rétt að vona, að þið prestarnir þegið ekki um það hróplega ranglæti bresku og hollenzku ríkisstjórnanna, sem rjóminn af lögfræðistétt okkar hefur sannað upp á lögleysu og óheimila valdbeitingu.

En Jón Jónsson lærði í Möðrufelli var stórmerkur prestur og laus við alla líberalistíska útvötnun á evangelíi Guðs. Þið norðanprestar mættuð gjarnan halda minningu hans meira á lofti.

Með þakklæti fyrir góða sögu og beztu kveðju,

Jón Valur Jensson, 28.1.2010 kl. 10:36

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Auðvitað eigum við norðanprestar og aðrir að setja við axlir og hlaupa skeið að hurðum og hroka.

Svavar Alfreð Jónsson, 28.1.2010 kl. 11:25

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott svar, Svavar!

Jón Valur Jensson, 28.1.2010 kl. 11:36

5 identicon

Mínn kæri klerkur, ef þú þarft menn til að fylgja þér að einhverjum hurðum þá lætur þú mig vita, hef fínar axlir í svona lagað.

Jón Óðinn Waage (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband