1.2.2010 | 22:23
Úr hverju dó Heródes?
Stíflan er ein fallegasta sveit á Íslandi.
Oft ók ég um hana þegar ég var á Ólafsfirði og leysti af á Sigflufirði í sumarfríum. Ætíð var tilhlökkunarefni að komast í Stífluna. Mér er sagt að hún hafi verið enn fegurri áður en Skeiðsfossvirkjun var reist. Þá fóru margar jarðir í Stíflu undir vatn.
Í Stíflu er elsta timburkirkja landsins. Hún er á Knappsstöðum og var reist árið 1840.
Á 19. öld þjónaði þar Páll Tómasson. Hann var sérkennilegur maður og eru til af honum ótalmargar sögur.
Ári eftir útskrift sína úr Bessastaðaskóla, 1828, vígðist Páll til Grímseyjar og var því einn af forverum mínum. Þá hafði verið slysasamt þar úti. Margir höfðu hrapað til bana við eggjasig í Grímseyjarbjargi.
"Er sennilegt, að það hafi stafað af ófullkomnum útbúnaði, en Grímseyingar kenndu það illvættum þeim, sem í bjarginu byggju, og töldu sig nú illa vanta Guðmund biskup," segir Jón Jóhannesson á Siglufirði í ritgerð um Pál sem birtist í fimmta bindi Blöndu (Reykjavík 1932).
Séra Páll bauðst til að vígja bjargið, að sjálfsögðu gegn hæfilegri þóknun og var gengið að því tilboði prests.
Þannig var sú vígsla samkvæmt frásögn Jóns:
Prestur fékk nú trausta festi, sem hann þaulvígði. Safnaði hann svo saman flestu fólki eyjarinnar ákveðinn dag, og gekk hempuskrýddur í broddi fylkingar út á bjargið. Lét hann binda sig í festina og búa vel um. Tók latneska málfræði út barmi sér og las í henni lítið eitt í hálfum hljóðum. Skipaði hann svo að láta sig síga, en fólkið skyldi syngja sífellt, meðan hann væri í bjarginu og svo hátt sem það hefði róm til, en þá allra hæst, ef það heyrði högg og hávaða í bjarginu, því nú mundi alls við þurfa. - Prestur seig nú í bjargið, og á meðan söng fólkið af öllum lífs og sálar kröptum. Prestur söng einnig, en strax þegar hann var úr augsýn fólksins, dró hann hamar upp úr hempuvasa sínum, og braut með honum hvassar brúnir, sem áður höfðu skorið lélegar festar sigmanna, jafnframt og hann ruddi niður lausu grjóti. Varð af þessu hinn mesti glumrugangur. Héldu Grímseyingar hávaðann stafa af harðri viðureign prests við illvættina. Studdi það og þá skoðun þeirra, að prestur, sem var í hempunni utanyfir fötum sínum, var sveittur mjög.
Fleira hefur varðveist í Fljótum en þær listilegu skálaræður sem þar hafa verið fluttar. Þar kunna menn enn búta úr stólræðum séra Páls á Knappsstöðum. Til dæmis þennan sem fluttur var á jólum og er birtur í fyrrnefndri ritgerð Jóns:
Jesús kallar á börnin sín. Hann kallar á mig og hann kallar á þig, - si svona: Komdu hingað ekkjan mín með börnin þín. Sýndu þeim ljósin. Segðu þeim að það séu jólin og því sé kveikt. - Komið hingað volaðir og hrjáðir. Komdu hingað gamla kona, sem gekkst á járnskóm sunnan af landi, þú, ert mædd og hrjáð; þú, með þitt eina auga.
Séra Páll gekk hart fram við yfirheyrslur á tilvonandi fermingarbörnum. Hlýddi hann þeim yfir í messum að viðstöddum söfnuðinum eins og þá tíðkaðist. Þótti mörgum sérkennilega spurt. Hefur Jón ritgerðarsmiður eftirfarandi sögu eftir konu sem var til spurninga hjá séra Páli þegar hún var barn:
Það var á fyrsta sunnudag í janúar, að hann spurði hana: Geturðu sagt mér rýjan mín, úr hverju hann dó hann Heródes? Henni varð ógreitt um svarið. Þá segir prestur: "Það er varla von, að þú vitir það, en eg get sagt þér það: Hann drap sig á kálfskjötsáti."
Myndina tók ég í dag frammi í firði.
Athugasemdir
Það var oft sagt að áður en Stíflan fór undir vatn þá hafi hún einfaldlega verið fallegasta sveit á landinu. Ég á alltaf landakort sem teiknað var áður en þetta varð og þá er jafnvel eins og maður sjái sveitina fyrir sér. Ég hef komið þarna og með hjálp kortsins og imyndaraflsins er hægt að sjá sveitna fyrir sér eins og hún var. Þaar var falleg og bugðótt á og birkikjarr á bökkunum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.2.2010 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.