4.2.2010 | 09:53
Af níðskrifum
Ég er með bjartsýnni mönnum en þó verð ég að viðurkenna að stundum fyllist ég ægilegri svartsýni.
Það er ekki efnahagshrunið sem gerir mig svartsýnan. Ekki risavaxtarkippurinn sem lánin mín tóku. Ekki lækkunin á laununum. Ekki ofurhækkanir á verði nauðsynja. Ekki bruninn á eignarhlutanum í íbúðinni okkar.
Þetta allt má harka af sér. Þrátt fyrir allt búum við Íslendingar við betri lífskjör en flestir aðrir og framtíðarhorfurnar eru góðar.
Það sem fyllir mig svartsýni eru stöðugar fréttir af því hvernig landið virðist vera meira og minna í eigu fjárglæframanna.
Skuldir þeirra eru afskrifaðar. Þeir halda fyrirtækjum sínum. Þeir treysta tök sín á fjölmiðlum landsins. Þeir eru sérlegir ráðgjafar stjórnvalda. Þeir njóta skattaívilnana. Þeir eru beðnir um að taka þátt í fjárfestingum ríkisins.
Og nær daglega fáum við fréttir af nánum kynnum auðvaldsins og stjórnmálamanna.
Í gær var það Bjarni Ben.
Í dag eru það þeir Össur Skarp. og Árni Þór.
Samt er rannsóknarskýrslan ekki komin út.
Um leið og þetta er að gerast vinna stjórnvöld að því hörðum höndum að velta óreiðuskuldum túrbókapítalismans yfir á herðar þess almennings sem hefur þurft að horfa upp á alla þessa spillingu.
Og þegar þjóðin leyfir sér að mótmæla eru kölluð út elítan í háskólum landsins.
Í Speglinum í gær fullyrti heimspekingur að þjóðin ætti ekkert að vera að skipta sér af Icesave. Samningurinn væri bara hluti af efnahagsáætlun og efnahagsáætlanir kæmu þjóðinni ekki við, skildist mér á manninum.
Í vikunni skrifar prófessor við eina helstu menntastofnun Íslands grein í eitt helsta blað í Noregi. Þar líkir hann þeim sem gagnrýna Icesave-samninginn við Bernard Madoff.
Til upprifjunar: Madoff þessi var bandarískur veðbréfabraskari sem talinn er hafa svikið billjónir dollara út úr fólki. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi sína.
Einhverjir urðu til þess að kalla þessi ummæli háskólaprófessorsins níðskrif en uppskáru mikla vandlætingu yfirálitsgjafa Íslands.
Honum finnst það ekkert eiga skylt við níð þegar prófessor við Háskóla Íslands líkir stórum hluta þjóðar sinnar við glæpamenn og dæmda stórsvikara í grein í víðlesnu erlendu blaði.
Og honum finnst líka alveg svakalega hallærislegt að vera þjóðhollur.
Samkvæmt minni málvitund er sá þjóðhollur sem lætur sér annt um hagsmuni og heill þjóðar.
Ef til vill er það tímanna tákn á hinu nýja Íslandi að þeim er hampað sem skara elda að eigin kökum en hinir teljast hallærislegir sem vilja taka hagsmuni fjöldans fram yfir hagsmuni fárra útvaldra.
Og þegar þannig er komið fyrir þjóð er ekki ástæða til bjartsýni.
Athugasemdir
Sammála þér, Svavar Alfreð. Þakka þér fyrir þessa grein.
Jón Valur Jensson, 4.2.2010 kl. 17:27
Hárrétt hjá þér Svavar. Maður fyllist mikilli reiði að heyra svona hluti hjá fólki sem eiga að teljast fræðimenn og með íslenskt blóð í æðum sinum, geti hreinlega látið svona hluti útúr sér. En ætli það sé bara ekki sá angi íslendinga sem á við stórvægilega siðbresti að stríða. Að fólk geti bara talað eins og þegnar þessa lands sem nota bene borgar þessum virtu mönnum laun sé bara réttlaus lýður og beri að hundsa. Megi þessir menn sem tala svona verða dæmdir í fjörbaugsgarð og kallaðir fjörbaugsmenn.
Elís Már Kjartansson, 4.2.2010 kl. 17:45
Sammála, þú ert aldeilis ekki einn um þassa tilfinningu. því miður.
Eyjólfur G Svavarsson, 5.2.2010 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.