9.2.2010 | 23:18
Hjálp í augnhæð
Fyrr eða síðar hneigjast öll kerfi til þess að vera til fyrir sig sjálf.
Kerfi verða til vegna mannlegra þarfa en í tímans rás fjarlægjast þau gjarnan þann uppruna sinn og fara að snúast um sig sjálf. Markmið þeirra verður að viðhalda sér sjálfum. Manneskjurnar sem þau voru búin til fyrir fara að verða til fyrir kerfin en þau ekki fyrir þær.
Kerfi eiga að veita þeim skjól sem skjól þurfa.
Skjólstæðingur er fallegt orð.
Stundum snýst þetta við og fólkið sem á að fá skjól af kerfunum verður skjól fyrir kerfin.
Fólk verður að viðfangsefnum. Vandamálum. Próblemum.
Kerfið sviptir það mennskunni, tappar af því mannhelginni.
Hér á öldum áður var velferðarkerfið ólíkt því sem við nú þekkjum. Þó var ekki síður til fólk sem þurfti skjól þá en nú.
Þá var skjólið ekki veitt á jafn kerfisbundinn hátt og nú.
Stefán Þorvaldsson halti var einn þeirra manna sem ekki gat verið á eigin framfæri. Hann gat ekki unnið vegna fötlunar og var þar að auki talinn einfaldur og lítill fyrir sér. Hans björg var að flakka á milli bæja í heimasveit sinni, Miðfirðinum, í þeirri von að hann nyti velvilja fólksins sem hann heimsótti, fengi húsaskjól og matarbita.
Sá velvilji var velferðarkerfi þess tíma.
En þótt Stefán væri bæði draghaltur og skrítinn virðist hann hafa gert sér grein fyrir eigin gildi; að hann væri manneskja eins og hinir sem gengu um óhaltir og voru eins og fólk er flest.
Þegar Stefán kom á bæ hafði hann fyrir sið að setjast niður á þröskuld eða pallskör og lesa upp úr Biblíunni. Jafnan byrjaði hann á sömu klausunni:
Hér er hvorki grískur né Gyðingur, þræll né frelsingi, karl eður kona, heldur erum vér allir eitt í Jesú Christo!
Þannig heilsaði þessi lítilmagni fólkinu sem hann leitaði ásjár hjá.
Hann minnti það á að sönn hjálp er ávallt veitt í augnhæð.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.