Pöddulaust Nýja Ísland

Ut um gluggann a Bruciano 

Sumarið 2000 dvöldum við hjá vinum okkar í Toskana á Ítalíu. Þau eiga sér sumarafdrep á eldgömlum herragarði, Bruciano, sem var einu sinni slíkt höfuðból að hann átti næsta þorp.

Forfaðir þess sem leigði vinum okkar hluta af sveitasetrinu vann það í fjárhættuspili.

Jarðhiti er á þessum slóðum og á setrinu voru rústir af laugum frá tímum Etrúska og aðrar minjar um þá.

Etrúskar voru á Ítalíu áður en Rómverjar urðu þar allt í öllu.

Nálægt Bruciano er ein merkasta borg Etrúska, Volterra.

Við fengum hrörlega íbúð yfir gamla fuglahúsinu. Þar var mjög fjörugt skordýralíf. Kvikindin fóru á kreik á kvöldin þegar ró hafði færst yfir. Fyrir svefninn var ég sendur af stað til skordýramorða vopnaður níðþungri fægiskóflu. Hana notaði ég á þúsundfætlur á stærð við SS-pylsur, köngulær sem minntu á skríðandi hamborgara og pattaralega sporðdreka.

Toskana-vínið er engu líkt og fékk ég mér duglega af því áður en ég lagði af stað í hernaðinn.

Síðasta kvöldið kramdi ég tarantúllu undir vopni mínu en þá var ég líka búinn að fá mér tvö staup af rauðvíninu.

Þetta rifjast upp fyrir mér núna því ég er að lesa bók um þessa fornu og stórmerku þjóð.

Etrúskar voru miklir smiðir og lögðu glæsilega vegi. Þeir voru snillingar í leirkeragerð og gullsmíði.

Etrúskar kenndu Rómverjum bæði víngerð og stafrófið.

Fáar þjóðir báru meiri virðingu fyrir trúarlegum siðum og gildum en Etrúskar. List þeirra sýnir að þeir kunnu að njóta lífsins. Etrúskar voru veisluglaðir og höfðu mikla unun af íþróttum og leikjum.

Sennilega var þeim ekkert dýrmætara en tónlistin. Þeir voru síspilandi. Jafnvel við hversdagslegustu störf var leikið undir á lútur og flautur.

Ég legg til að Nýja Ísland verði eins og hin forna Etrúría.

Þó án skorkvikindanna.

Myndina tók ég á gamlan filmuhjall út um gluggann á pödduíbúðinni okkar í Bruciano.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Fáar þjóðir báru meiri virðingu fyrir trúarlegum siðum og gildum en Etrúskar.

Ég legg til að Nýja Ísland verði eins og hin forna Etrúría.

Þannig að hið Nýja Ísland á að vera alveg eins og hið gamla, allir jafnir en sumir jafnari en aðrir

Matthías Ásgeirsson, 12.2.2010 kl. 07:53

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll skemmtilegur pistill hjá þér. Mér datt í hug, rétt si svona,  hvort þú hafir ekki verið búinn að fara ótæpilega með vínið góða, miðað við lýsingu á stærð þessara skordýra.

Þessi ágæta þjóð hefur

Sæll skemmtilegur pistill hjá þér. Mér datt í hug hvort þú hafir ekki verið búinn að fara ótæpilega með vínið góða miðað við lýsingu á stærð þessara skordýra.

Þessi ágæta þjóð hefur líklega sungið sitt síðasta

Sæll skemmtilegur pistill hjá þér. Mér datt í hug hvort þú hafir ekki verið búinn að fara ótæpilega með vínið góða miðað við lýsingu á stærð þessara skordýra.

Þessi ágæta þjóð hefur líklega sungið sitt síðasta

Sæll skemmtilegur pistill hjá þér. Mér datt í hug hvort þú hafir ekki verið búinn að fara ótæpilega með vínið góða miðað við lýsingu á stærð þessara skordýra.

Þessi ágæta þjóð hefur líklega sungið sitt síðasta út af trúarkreddum eða hvað?

Bestu kveðjur Kolla.

Bestu kveðjur Kolla.

eða hvað?

Bestu kveðjur Kolla.

líklega sungið sitt síðasta.

Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 12.2.2010 kl. 21:24

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

hahah ertu enn í þessu ágæta víni Svanur.hahaha kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 12.2.2010 kl. 22:38

4 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Þú ert frábær, Kolla!

Svavar Alfreð Jónsson, 12.2.2010 kl. 23:53

5 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir það Svavar. Ég er ekki alveg að átta mig á hvað skeði með þetta komment en líklega hefur það dobblast og ruglast út af því að ég var að fara á milli þess að skrifa athugasemd og yfir á netið til að lesa mér til um þessa umræddu, útdauðu, en þó áhugaverðu þjóð. Svo var auðvitað upplagt að nota ruglið og stríða þér smávegis, hélt reyndar að þú hefðir gert eitthvað við það þegar þú samþykkir. Leyfum því að standa en eflaust halda einhverjir að ég hafi neytt ótæpilega einhvers gjörningadrykks en ég er bindindismanneskja á allt nema golf, þar er ég alveg "hooked".  Besta kveðja til þín Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 13.2.2010 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband