Höfuðborgarhrokinn

DSC_0061

Þessi frétt er á margan hátt dæmigerð fyrir ástandið á landi voru.

Hún fjallar um mann sem situr beggja vegna borðs.

Hrunsagan einkennist meðal annars af því að sama fólkið kemur aftur og aftur við hana á sífellt nýjum stöðum.

Hann er í stjórn fyrirtæksins sem lánaði fyrirtæki sem kom með nýtt hlutafé í fyrirtæki sem skuldaði fyrirtækinu sem hann á.

Svo var Fjármálaeftirlitið að rannsaka málið og fól syni hans að gera það.

Mágkona hans skrifaði svo frétt um málið í blað þar sem hún vann og blaðið var aftur í eigu mannsins sem er í stjórn fyrirtæksins sem skuldaði ofangreindu fyrirtæki pening.

Og hann var skólabróðir þingmannsins sem er að flytja frumvarp sem á að koma í veg fyrir að sömu nöfnin séu allt í öllu.

Þræðirnir liggja þvers og kruss.

Og flestir eru þeir í Reykjavík og næsta nágrenni.

Í flestum siðmenntuðum löndum gera menn sér grein fyrir hættunni sem fylgir því að hafa valdið allt á einum stað.

Það eykur hættuna á of miklum tengslum. Þess vegna grípa menn til úrræða gegn henni. Þar á meðal eru aðgerðir til að dreifa valdinu um landið.

Íslendingar hafa aldrei gefið neitt fyrir þessa hættu. Þótt hún sé enn meiri hér en víðast hvar annars staðar vegna fámennisins höfum við nánast allt á sama blettinum á þessu landi.

Stjórnsýsluna alla, fjölmiðlana og stórfyrirtækin.

Ástæðan fyrir þessu er höfuðborgarhrokinn.

Menn telja sér trú um að ekki sé hægt að hafa þetta öðruvísi. Reykjavík sé eini staðurinn á landinu.

Úti á landi séu ekkert nema gjaldþrota kaupfélög og þær fáu hræður sem þar hírist eigi sér enga ósk heitari en að flytja á hraunskagann á suðvesturhorninu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Svavar. Þetta er stórpólitískur pistill hjá þér. Ég er auðvitað alveg sammála þó ég sé ein af þeim sem hef elt góðærisspillinguna til Reykjavíkur.

Það er erfitt að segja hvort kemur á undan hænan eða eggið, en að mínu mati er búið að gelda landsbyggðina þegar kemur að framtakssemi og hugmyndaauðgi, hvað varðar atvinnulífið. Það stafar af mörgu þó ég kenni yfirleitt kvótalögunum og þeim höftum um það. 

Stöðugt fækkar fólki og þá minnkar markaður fyrir framboð ýmiskonar af vörum og þjónustu. Félagslífið dofnar og samskiptin þar með.

Ég hef velt því fyrir mér hvort rétt væri að hafa lægri skatta á landsbyggðinni, allavega á þeim stöðum sem fjærst eru höfuðborginni , til að laða fólk út á landsbyggðina.

Það virðist vera gott innlegg í ferilskrá að hafa reynslu af fjármálasukki og siðblinda auðvitað kostur. Allavega eru alltaf sömu mennirnir sem veljast til starfa í þessum sukkfyrirtækjum. Allavega hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. :)  

Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.2.2010 kl. 12:13

2 identicon

Mannlífið er fagurt utan borgarmarkanna. Hrokinn er þar óþekktur. Landsbyggðarsólin baðar Sólnesana fögru ljósi. Þar er Hrifla í hverjum hreppi og allir svo afburðagáfaðir að rétt er að fela hverjum manni að fara með tvö til þrjú atkvæði í kosningum svo þjóðinn megi vel farnast. ,,Blessuð sértu sveitin mín, séstaklega Akur”.

Haukur Brynjólfsson

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 14.2.2010 kl. 13:09

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Það er orðið löngu tímabært að stofna samtök sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins til að verja hagsmuni landsbyggðarinnar og landsins alls.

Sigurgeir Jónsson, 14.2.2010 kl. 18:59

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Vissulega þarf að efla smærri staði út um landið og standa við bakið á smáfyrirtækjum hvers konar, allsstaðar. Þannig helst landið í byggð og þannig getur fólk skapað sér vinnu og unnið að sköpun og hagkvæmni. Reyndar finnst mér alveg nóg að samtök út og suður sem ekkert gagn gera sbr. ASI og verkalýðsfélög sem mér finnst vera eins og stofnanir með opinbera skoðun. En landið er mér kært og það er ekki mikils virði án gróskuríks mannlífs. Spurningin er hvernig má efla það. Þar er hrokanum ekki fyrir að fara svo langt sem ég þekki til . Kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 15.2.2010 kl. 20:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband