Amma og Icesave

DSC_0055

Prófessor Þórólfur Matthíasson segir íslenska kjósendur bera ábyrgð á Icesave.

Það má til sanns vegar færa. Enginn deilir held ég um það lengur að ófullnægjandi eftirlit er ein ástæða þess að svo fór sem fór.

Þeir sem áttu að sjá um eftirlitið voru valdir af stjórnmálamönnum og stjórnmálamennirnir voru kosnir af kjósendum.

Íslenskir kjósendur bera því sinn skerf af ábyrgð í þessu máli.

En fleira verður að taka með í reikninginn.

Í fyrsta lagi hafa málsmetandi menn, innlendir sem erlendir, bent á að eftirlitið hafi ekki alfarið átt að vera á ábyrgð Íslendinga.

Því er haldið fram að breska og hollenska eftirlitið hafi líka brugðist.

Sé það rétt er má nota rök Þórólfs til að benda á ábyrgð breskra og hollenskra kjósenda á Icesave. Í þeim löndum eru sömu lögmálin virk og hér; eftirlitsmenn eru valdir af stjórnmálamönnum og stjórnmálamenn kosnir af kjósendum.

Engu að síður særir það réttlætiskennd mína að hægt sé að gera fólk ábyrgt fyrir mistökum sem það átti engan þátt í að gera og hafði ekki hugmynd um fyrr en þau voru orðin að veruleika.

Íslenskir kjósendur vissu fæstir um þær hættur sem fólust í Icesave-reikningunum.

Hvorki hætturnar né lélegt eftirlit voru í umræðunni hér á landi.

Vissulega vöruðu einhverjir við veikri stöðu bankanna en stjórnmálamenn og fjölmiðlar kepptust við að bera til baka slíkar efasemdir - auk bankanna sjálfra.

Og ekki bárust beinlínis háværar aðvörunarraddir frá hagfræðingum þjóðarinnar.

Mig minnir að einhverjir þeirra hafi meira að segja átt þátt í að veita Icesave-snilldinni markaðsverðlaun.

Og þá er ég að tala um háskólahagfræðinga á borð við prófessor Þórólf sem núna skrifar í blöðin að ég og hún amma mín beri ábyrgð á Icesave.

Svo verð ég líklega afi þeirra sem borga brúsann.

Þetta hlýtur að teljast glæsileg niðurstaða.

Myndin er úr Naustaborgum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Einar glæsileg niðurstaða og prófessorinn hnýtur illilega um gáfur sínar.

Kveðja úr Naustahverfi.

Arinbjörn Kúld, 17.2.2010 kl. 00:00

2 Smámynd: Óttar Felix Hauksson

Íslenskir kjósendur halda aftur á móti að stjórnendur hlutafélagsins Landsbankans hafi borið ábyrgð á Icesavereikningum í Englandi sem og öðrum viðskiptum sem Landsbankinn hefur stofnað til og nú, þegar hlutafélagið er komið í þrot, beri að fara með það eins og önnur þrotabú samkvæmt lögum um hlutafélög.

Óttar Felix Hauksson, 17.2.2010 kl. 00:12

3 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Margir vilja halda því fram að kenna kjósendum um hvernig komið er fyrir hér á landi sé eins og kenna konu um að henni hafi verið nauðgað . . .

Magnús V. Skúlason, 17.2.2010 kl. 10:08

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Verstu minningarbrotin sem hægt er að tína til í mankynssögunni tengjast sameiginlegri refsingu. Einhverjir gyðingar höfðu gert eitthvað og það þurfti að refsa gyðingum. Í gettóinu í Varsjá voru til forréttindahópar gyðinga sem unnu náið með hernámsliðinu. Þeir héldu forréttindum sínum allt þangað til uppreisnin var gerð. Hér á landi eru þeir til sem græða á hruninu s.s. stjórnarmenn, slitastjórnarmenn, ráðgjafar.  Þórólfur er einn helsti ráðgjafi ríkisstjórnarinnar og sem slíkur einarður stuðningsmaður  ESB/AGS/ICESAVE pakkans.

Sigurður Þórðarson, 17.2.2010 kl. 11:16

5 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Amen á eftir efninu hjá þér séra Svavar. Ég verð, þó ég sé nú ein af þeim sem held því fram að fólk hafi átt að sjá ýmislegt fyrir, að vera sammála þér með að erfitt var fyrir almenning að spyrna á móti öllum helstu gúrúum og stjörnum í íslensku efnahagslífi. Þeir sem voru að agnúast út í ósanngjarna viðmiðun í vísitölunni, innflutningi á ódýru vinnuafli og óðum neyslumarkaði voru álitnir nöldurseggir og sérvitringar og jafnvel rasistar. Icesave er bara einn partur af þessu sukki og sá endi sem þarf að hnýta núna til að komast inn í ESB. Ég er auðvitað á móti því eins og flestir.  

Magnús þessi samlíking er alveg út í hött maður.

Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 17.2.2010 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband