24.2.2010 | 21:40
ESB-fréttamennska Ríkisútvarpsins
Það er hægt að segja satt með ýmsu lagi og sennilega hefur maður ekki um færri möguleika að velja ef segja á ósatt.
Það fannst mér sannast í fréttum RÚV í kvöld af ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hvort Ísland væri tækt til aðildarviðræðna við sambandið.
Strax í kynningu fréttarinnar er tvennt athugavert. Kynningin hófst á þessum orðum:
Ísland uppfyllir öll skilyrði um aðild að Evrópusambandinu...
Þetta er í fyrsta lagi ekki rétt. Hér er um að ræða skilyrði til aðildarviðræðna eins og sést í fréttinni sjálfri.
Í öðru lagi: Eftir að fréttakona hafði í kynningu fullyrt að Ísland uppfyllti öll skilyrði um aðild að Evrópusambandinu hófst upptalning á þeim skilyrðum sem landið uppfyllir ekki eða eins og það var orðað:
...en þarf að breyta lögum um fiskveiðar og landbúnað vilji landið ganga í sambandið.
Þarna er með öðrum orðum sagt að Ísland þurfi að breyta lögum um fiskveiðar og landbúnað vilji landið ganga í sambandið - sem er ekki alveg það sama og að uppfylla öll skilyrði.
En þessu var ekki lokið. Eftir kynninguna og staðhæfinguna um að öll skilyrði væru uppfyllt - nema þessi um fiskveiðar og landbúnað - var vitnað í Fuele, stækkunarstjóra ESB, sem segir markaðshagkerfið íslenska ráða við að vera á innri markaði ESB (eins og íslensku bankarnir sönnuðu, mitt innsk.), að því gefnu að regluverk hér verði lagfært".
Ísland uppfyllir sumsé öll skilyrði - nema um fiskveiðar og landbúnað - og svo þarf reyndar líka að lagfæra regluverk hér á landi eigi landið sem uppfyllir öll skilyrði um aðild að ESB að vera tækt í ESB.
Ef til vill lítur fréttastofa RÚV þannig á að fiskveiðar, landbúnaður og regluverk um íslenskt hagkerfi sé slíkur tittlingaskítur að ekki taki að telja það með í skilyrðum fyrir aðild að ESB?
En fréttin hélt áfram og áfram hélt fréttastofa RÚV að éta ofan í sig fréttina sem hún flutti þjóðinni um að Ísland uppfyllti öll skilyrði um aðild að ESB. Næst voru rakin ummæli stækkunarstjórans, sem lét ekki nægja að bæta lagfæringum á regluverki á listann yfir óuppfyllt skilyrði landsins, heldur hélt áfram og sagði að
...ýmislegt annað þurfi að bæta á Íslandi, eigi landið að ganga í sambandið..
Eða með orðum stækkunarstjórans sjálfs:
Þessi svið spanna allt frá sjálfstæði dómstóla til markaðs- og efnahagsmála, landbúnaðar, fiskveiða og umhverfismála svo fátt eitt sé nefnt.
Samkvæmt fréttinni ætlar ESB ekki að tengja Icesave-deiluna umsókn Íslands en þó segir stækkunarstjórinn þetta í sömu frétt:
þá tel ég að framkvæmdastjórn ESB kveði skýrt á um afstöðu sína að hún fylgist mjög nákvæmlega með því að Íslendingar sýni bæði getu sína og vilja til að taka upp og fara að lagasetningu Evrópusambandsins í þessu samhengi.
Enga spekinga þarf til að sjá hvað það þýðir á mannamáli:
Hér er um að ræða enn eitt skilyrðið sem Ísland á eftir að uppfylla til að verða tekið í söfnuð réttlátra.
Það er margt athugavert við þessi vinnubrögð fréttastofu RUV. Mikilvægt er að umsókn Íslands um aðild að ESB fái heiðarlega umfjöllun í fjölmiðlun til að þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi frétt gefur ekki tilefni til bjartsýni um slíka umfjöllun.
Sannleikurinn í málinu er sá að Ísland á eftir að uppfylla fjölda skilyrða áður en landið getur gerst aðili að ESB, þvert ofan í það sem fréttastofan fullyrðir.
Myndin: Horft suður yfir ísilagt Ólafsfjarðarvatn.
Athugasemdir
Ef þú hefðir eytt meiri tíma í að lesa þér til um málefni ESB, í staðinn fyrir að eyða tímanum í að finna upp leiðir til þess að snúa útúr fréttaflutningi Rúv. Þá vissiru að ESB setur þetta svona fram vegna þess að íslensku lögin eru ekki samhæf löggjöf ESB á þessum sviðum, og því þarf íslenska löggjöfin að breytast til samræmingar við löggjöf ESB. Þetta er gert til þess að tryggja samræmi í ESB löggjöfinni á milli aðildarríkjanna, og það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það. Þetta er í raun sama regla og íslendingar hafa lifað við síðan árið 1994, þegar EES samningurinn tók gildi og íslendingar þurftu þá að taka upp löggjöf ESB á sviði innri markaðarins.
Til að létta þér lífið, tilveruna og leitina á google. Þá er hérna stækkunarvefsíða ESB sem útskýrir allt ferlið í heild sinni, og hvaða stuðning umsóknarríki hjá ESB fá.
Ég er síðan með gott ráð fyrir þig. Bullaðu minna og ég mun taka mynd af þessu svari, svo að þú farir nú ekki að eyða því.
Jón Frímann (IP-tala skráð) 24.2.2010 kl. 22:39
~ myndirnar þínar eru meiriháttar ~ !
Vilborg Eggertsdóttir, 24.2.2010 kl. 22:44
Alveg heilan helling og þar á meðal, vona ég, upptöku heiðarleika í sálartetur landans og innleiðingu réttlætis í samfélagsgerðina.
Kveðja úr Naustahverfi.
Arinbjörn Kúld, 24.2.2010 kl. 23:25
Svo eigum við að treysta þessari fréttastofu til að upplýsa okkur um gang mála og innihald væntalegs samkomulags um inngöngu í ESB!!!!
Gunnar Heiðarsson, 25.2.2010 kl. 06:21
Það var heldur ekki verið að blása það upp að Evrópusambandið ætlar sér að fá sanngjarnan hlut á því svæði sem enn telst til fiskveiðilögsögu Íslendinga en myndi falla undir fiskveiðilögsögu EB ef til inngöngu kæmi.
Sigurður Þórðarson, 25.2.2010 kl. 09:05
Hvaða máli skiptir landbúnaður og sjávarútvegu þetta lið.
Ragnar Gunnlaugsson, 25.2.2010 kl. 15:51
Takk fyrir þessa þörfu og vönduðu ádrepu!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 27.2.2010 kl. 01:46
Mikið afskaplega er þetta rétt!
Hallmundur Kristinsson, 27.2.2010 kl. 10:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.