Lafa milli foto

fegatelli[1]

Egill Helgason er einn þeirra sem hefur húmor fyrir súrmetisgríni Símans en ekki athugasemdum landbúnaðarráðherra um auglýsinguna - þótt Jón Bjarnason sé miklu fyndnari en auglýsingin.

Verða ummæli ráðherrans Agli tilefni til að rakka niður okkar þjóðlega íslenska mat en ljúka lofsorði á evrópskt gúrmefæði.

Í athugasemd við eigin bloggfærslu segir Egill að þorramatur sé „ógeðslegur á bragðið, ljótur fyrir augað og slepjulegur viðkomu".

Svoleiðis matvæli fyrirfinnast auðvitað ekki í útlöndum.

Pasta í ostasósu er ekki slepjulegt. Sniglakássa er unaðslega útlítandi. Kolkrabbi með grænum baunum er hnossgæti.

Allt eru þetta ítalskar krásir - og til útskýringar skal tekið fram að síðastnefndi rétturinn, seppie con piselli, er eitthvert mesta ómeti sem ég hef smakkað.

En auðvitað er ekki sama hvort maturinn er þjóðlegur eða cucina tipica.

Vinur minn ítalskur sagði mér að margt væri sameiginlegt með ítölskum mat og íslenskum.

Ítalir hefðu lengst af verið fátækir eins og Íslendingar og þurft að éta allt ætilegt.

Einfaldleikinn og nýtnin er aðalsmerki ítalskrar matseldar, sagði þessi vinur minn.

Í Napolí nýttu þeir blóðið úr svínunum með því að blanda því saman við brætt súkkulaði svo úr varð það sem kallað er sanguinaccio Napoletano.

Miðjarðarhafsmatur getur tekið á sig ekki síður forvitnilegar myndir en lundabaggar.

Á Ítalíu tíðkast til að mynda fegatelli, svínslifur, vafin í líknarbelgsmör, en mynd af þeim fágætu kræsingum prýðir þessi skrif.

Ég man eftir því að fyrir mörgum árum lét hið fornfræga veitingahús Bautinn prenta þorramatseðil með ítölskuðum nöfnum á hinum umdeilda íslenska þorramat til að ljá honum evrókratískan blæ.

Heiti hrútspunga á þeim menú er fyrirsögn færslunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Það er auðséð  á holdafari Egils að hann borðar ekki mikið af íslenskum mat,heldur sig við innflutt kolvetni,verði honum að góðu.

Ragnar Gunnlaugsson, 2.3.2010 kl. 21:46

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þorramatur er hryllingur sem einungis afskekktar villiþjóðir geta lagt sér til munns.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.3.2010 kl. 22:18

3 identicon

Mér finnst súr hvalur ofsagóður enda verð ég extra þunglyndur í hvalveiðibönnum.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 23:05

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ef ég á að segja alveg eins og er, þá finnst mér ekki allt gott í þessum þorramat. Sumt er þó hnossgæti, eins og harðfiskur og hangiket, enda er það borðað allan ársins hring. Sviðum er ég ekkert sérstaklega hrifinn af, en mörgum finnst þau góð. Hrútspungaog hvalspik hef ég aldrei sett inn fyrir mínar varir.  Menn velja það sem þeim líkar af þessu hlaðborði og aldrei hægt að alhæfa um að mönnum þyki þorramatur vondur eða góður. Það er tómur barnaskapur.

Egill virðist vera mættur í hóp Íslendingahatara á borð við hin yfirdrepslegu  smámenni, Jónas Kristjánsson, Gunnar Smára og Þráinn Bertelsson sem telja sig svo mikla heimsmenn að þeir nota hvert tækifæriað gera lítið úr löndum sínum, þjóðerni voru og sögu.  Þeirtelja sig hafa umboðið og teljist ekki innan mengisins af því að þeir hafa sötrað Latte á frönsku kaffihúsi. 

Þeir mættu rannsaka franska og Ítalska matarmenningu í leiðinni, eins og þú bendir klókindalega á hér. Ég er ekki viss um að þeir kæmu því öllu niður, sem þar er í boði.

Annars eru þessar gömlu geymslu og matreiðsluaðferðir til í öllum löndumog hef ég kynnst snöggtum verri útgáfum á norðurlöndunum, svo maður nefni nú ekki Grænland.

Mér finnst það raunar vera toppur hallærislegheitanna þegar ég heyri Íslendinga tala um hve hallærislegir Íslendingar eru.  Ég er viss um að margir eru mér sammála þar.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.3.2010 kl. 00:51

5 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Svavar Alfreð, þetta er góður pistill hjá þér. Agli Helgasyni er frjálst að fyrirlíta þorramat, einhvern hollasta mat sem fáanlegur er. Súrsun er einhver besta verkun matvæla og í mjólkursýru geymast matvæli ekki aðeins mjög vel heldur eru öll nauðsynleg bætiefni vernduð til langs tíma.

Hinsvegar finnst mér Sjónvarsþættir Egils, Silfrið og Kiljan, einhverjir þeir bestu sem völ er á. Þess vegna finnst mér það dapurlegt að Egill sé að ganga frá heilsufari sínu (eins og augljóst er af útliti hans) með því að éta útlenskt ruslfæði, jafnvel þó það heiti ítölskum og frönskum nöfnum.

Það er aðeins eitt gott við þessa lágkúrulegu sjónvarpsauglýsingu Símans; þar er afurðin af hvölum nefnd sínu rétta nafni "RENGI"  en þessu nafni hafa verslunarmenn næstum útrýmt fyrir það hallærislega nafn "súr hvalur".

Er ég frekur ef ég biðla til verslunar- og matreiðslumanna að endurreisa þetta nafn  "RENGI" og segja og skrifa "súrsað rengi" en ekki "súr hvalur".

Ég er víst einn í fámennum hópi "geirfugla" sem látum okkur íslenskt mál einhverju varða.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 3.3.2010 kl. 10:46

6 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Mér finnst nú háðuglegast við þessa auglýsingu Símans að þessir menn sem leika þar eru greinilega allir ólæsir,þeir eru að velta því fyrir sér  hvaða matur þetta sé,þó að það standi við hvern rétt hvað hann heitir.

Sammála þér Sigurður að súrmeti er einhver besti matur sem ég fæ enda alin upp á honum ásamt góðu rúgbrauði en það er nokkuð sem maður fær ekki erlendis. Það vill svo til að í vetur hef ég gert mér það til dundurs að kaupa súrt hvalsrengi sem ég hef fengið í heildsölu á heilum tunnum og selt vinum og kunningjum á kostnaðarverði. Þetta hefur gert mikla lukku.

Ekki er ég nú eins hrifinn af Agli Helga fer reyndar eftir viðmælendum Bragi bóksali er góður.

Ragnar Gunnlaugsson, 3.3.2010 kl. 15:49

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Egill má vissulega hafa sína skoðun á mat. Verði honum að góðu. Íslenskur þorramatur er hins vegar herramanns fæða og slær við öllu psta og pissa sem ég hef smakkað. Það er vissulega til fleiri mtartegundir sem eru þokkalegar, en sennilega fáar jafn hollar.

Gunnar Heiðarsson, 3.3.2010 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband