Spuninn gegn lýðræðinu

DSC_0187

Nú eru allar líkur á að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, þeirrar fyrstu í minnum miðaldra manna.

Alls konar spuni er í gangi um atkvæðagreiðsluna.

Sumir segja að málið henti illa. Það sé of flókið.

Því er ég ekki sammála. Valkostirnir eru tveir. Annað hvort segir maður já eða nei.

Ef ég segi já vil ég að lög nr. 1/2010 haldi gildi.

En segi ég nei vil ég að sömu lög falli úr gildi.

Svo er auðvitað hægt að skila auðu.

Ef allir skiluðu auðu yrði sú þögn skilin sem samþykki.

Lögin eru ekkert sérstaklega flókin ef maður hefur fyrir því að kynna sér þau.

Það má til dæmis gera hér.

Um þessi lög sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í andsvari á Alþingi 22. október síðastliðinn:

Hér er málið hins vegar komið í skýran og endanlegan og einfaldan búning.

Ekki ætti að vera neinni sæmilega skynsamri þjóð ofviða að taka afstöðu til máls í skýrum og einföldum búningi

En engu að síður spretta upp menn sem finna þessari atkvæðagreiðslu allt til foráttu.

Þeir segja að heimskulegt sé að kjósa um lögin þar sem annar betri samningur sé í boði.

Því er best að svara með því að benda á enn hefur ekki verið samið - nú þegar þessar línur eru skrifaðar.

Þess vegna eru lögin sem kjósa á um enn í gildi.

Og hvað er svona heimskulegt við að kjósa um lög sem eru í gildi?

Aðrir halda því fram að fólk viti ekki hvað það sé að kjósa um.

Ég leyfi mér að mótmæla því.

Spurningin á kjörseðlinum er skýr. Spurt er hvort tiltekin lög eigi að halda gildi eða falla úr gildi.

Skilja ekki jafnvel öflugustu fábjánar þannig spurningu?

Andstæðingar kosningarinnar saka kjósendur um að misskilja málið. Þeir haldi t. d. að með því að segja nei geti Ísland sloppið við að borga Icesave.

Þar eru held ég sjónarmið á ferðinni sem eru hættuleg lýðræðinu.

Kjósendur geta haft ýmsar ástæður til að hafna lögum nr. 1/2010.

Hluti þeirra telur að Ísland eigi að borga en samningurinn sé ekki nógu góður.

Aðrir telja að kanna verði betur hver ábyrgð Íslands sé áður en gengið verði frá samningum.

Enn aðrir telja að Íslandi beri ekki að borga neitt.

Til eru þeir sem ætla að segja nei til að gera útaf við heimskapítalismann.

Og ábyggilega vilja einhverjir fella lögin úr gildi bara til að freista þess að fella stjórnina um leið.

Þeir sem vilja að lög nr. 1/2010 haldi gildi geta líka skýrt það með ýmsum rökum.

Sumir vilja bara klára málið.

Aðrir meta kostnað við töfina meiri en hugsanlegan ávinning.

Enn aðrir segja já af ótta við að annars falli stjórnin.

Svo gæti einhverjum bara þótt ofboðslega vænt um kapítalismann.

Í lýðræði fær fólk að velja og fær að hafa ýmsar ástæður fyrir vali sínu, jáum og neium.

Og fólk réttlætir það að skila auðu með ýmsu móti.

Ég get kosið stjórnmálaflokk af tilteknum ástæðum og svo getur einhver annar maður séð eitthvað allt annað aðlaðandi við sama flokk.

Hver hefur sína ástæðu fyrir vali sínu, jái, neii eða þögn.

Þannig er lýðræðið í skýrum og einföldum búningi.

Myndin: Þessi snjókorn komu sér saman um að falla á þennan stubb og þröngt mega sáttir sitja.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér þetta góða innlegg - sem ég er 100% sammála -.

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 4.3.2010 kl. 07:04

2 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Sammála Þórhalli. Gott innlegg.

Marinó Már Marinósson, 4.3.2010 kl. 12:29

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi kosning hefur fjölþætt gildi langt umfram þaðað hafna þessum samningi per se. Það er kominn tími til aðstaðfesta þetta forsetavald og stjórnarskrárrétt og fá neyðarbremsu fyrir þjóðina ef enn einn fullur órangútinn sest við stýriðá rútunni.  Tala nú ekki um þegar þeir eru tveir.

Glöggt og gott inlegg hjá þér síra minn. 

Jón Steinar Ragnarsson, 4.3.2010 kl. 14:16

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Sem kristin sál er ég náttúrulega ekki sammála síðustu ræðumönnum. Lýðræði einsog við rekum það í dag og enginn véfengir er "framsal fullveldis einstaklingsins" til stjórnmálamanna. Þegar það salt jarðar (stjórnmálamennirnir) dofnar, með hverju á þá að salta ? Eina svarið er raunverulega nýjar kosningar. Þegar stjórnmálamenn hafa afsalað sér valdi sínu til þjóðarinnar til að kjósa um einstök lagafrumvörp að maður tali nú ekki um breytingar á lagafrumvarpi sem mun formlega öðlast aftur gildi er staðan í raun status quo og "lýðræðissinninn" hefur ekki fengið að taka neina marktæka afstöðu aðra en senda málið aftur til "stjórnmálamannanna". Þetta er illa gert við kjósendur og getur valdið skaða til lengri tíma litið ef menn bregðast ekki við með breytingum á stjórnarskrá þar sem svona kjánaskapur verður ekki endurtekinn. Já þetta segi ég sem skírður og svo fermdur í Akureyrarkirkju mér til mikillar sáluhjálpar.

Gísli Ingvarsson, 4.3.2010 kl. 16:33

5 Smámynd: Brattur

Sammál Gísla hér á undan.

Það er illa farið með lýðræðið þegar ekki er verið að kjósa um neitt.

Alþingi verður óþarft, forsetinn hefur tekið völdin... hann er allt í einu orðinn besti vinur íhaldsins...

Guð blessi Ísland.

Brattur, 4.3.2010 kl. 21:37

6 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Gísli I: Skilgreiningin "lýðræðið er framsal fullveldis einstaklingsins til stjórnmálamanna" hljómar ekki vel í mínum eyrum.

Gísli II: Verið er að kjósa um lög nr. 1/2010. Ef mönnum finnst að ekki sé verið að kjósa um neitt, eru þeir þá ekki að segja að lögin séu þetta "ekki neitt"? Og eru erlendu blaðamennirnir þá ekki komnir hingað til að fylgjast með þessu sama ekki neinu?

Svavar Alfreð Jónsson, 4.3.2010 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband