Höktandi lífsandinn

DSC_0083 

Því hefur verið haldið fram að rökrétt sé af þeim Jóhönnu og Steingrími að sitja heima í dag og gefa þjóðaratkvæðagreiðslunni langt nef.

Taka má undir það.

Verið er að greiða atkvæði um lög sem þau Jóhanna og Steingrímur mæltu eindregið með á sínum tíma.

Í desember síðastliðnum sagði Steingrímur þetta um lög nr. 1/2010 við 3. umræðu á Alþingi:

Frú forseti. Ég greiði þessu frumvarpi atkvæði og ég mæli með því að það verði samþykkt vegna þess að það er bjargföst sannfæring mín að það sé betri kostur fyrir Ísland og það firri meira tjóni en að gera það ekki. Í krafti þessarar sannfæringar minnar greiði ég atkvæði með góðri samvisku þótt ég viðurkenni um leið að því fylgir þung ábyrgð. Undan þeirri ábyrgð víkst ég ekki. Ég hef ekki eytt tæpum 27 árum ævi minnar hér til að víkjast undan ábyrgð eða flýja það (Gripið fram í: Snýst ekki um þig.) að taka erfiðar ákvarðanir þegar þær eru óumflýjanlegar. Ég hef engan mann beðið og mun engan mann biðja að taka neitt af mínum herðum í þessum efnum. Ég trúi því (Gripið fram í.) að sagan muni sýna að við séum hér að gera rétt, að endurreisn Íslands, sjálfstæðs og velmegandi í samfélagi þjóðanna, muni verða sönnunin. Ég mun reyna að leggja mitt af mörkum til að svo verði (Forseti hringir.) meðan lífsandinn höktir í nösum mér og ég má vinna Íslandi nokkurt gagn. [Háreysti í þingsal.] (Forseti hringir.)

Nokkrum dögum áður, 2. 12., sagði hann þetta á sama stað:

Ég er ekki að biðja nokkurn mann um að taka neina pólitíska ábyrgð af mínum herðum, ekki heldur í Icesave-málinu,en má ég þá ekki bara bera ábyrgð á því, má ég ekki bara fá að gera það? Mega ekki bara þeir þingmenn sem eru komnir að þeirri niðurstöðu að lengra verði ekki komist og þessu máli verðum við einhvern veginn að ljúka til að komast áfram almennt séð í okkar verkefnum, okkar erfiðu glímu við erfiðleikana, er ekki dálítill réttur á ferðinni þar að við fáum þá bara að gera það?

Nú, nokkrum mánuðum eftir að Steingrímur lét hin stóru orð falla um ágæti laganna og nauðsyn, treystir hann sér ekki til að samþykkja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá er kannski ekki um annað að ræða en sitja heima.

Þau Jóhanna og Steingrímur vilja telja okkur trú um að nú sé annar og betri samningur á borðinu en sá sem þau mæltu svo sterklega með í desember, að þau voru viss um að lengra yrði ekki komist.

Í Kastljósi í gær bar Steingrímur þetta til baka.

Þar spurði Helgi Seljan Steingrím að því hvort ekki hefði verið rétt af forsetanum að vísa lögunum til þjóðarinnar fyrst fyrir liggi betri samningur en þá átti að samþykkja.

Svar Steingríms var:

Nú er það því miður þannig að við erum ekki búin að ná þessum samningum en við skulum vona að það takist.

Síðar í þættinum var Steingrímur spurður að því sama og þá áréttaði hann að nýr samningur lægi ekki á borðinu. Málefni Íslands væru enn í mikilli óvissu, engin niðurstaða væri komin í málið og enn ætti eftir að brúa bil  eða eins og hann orðaði það:

Ef við náum fram farsælli niðurstöðu og það tekur ekki of langan tíma en málið lenti inn í mikla óvissu og málefni Íslands eru í mun meiri óvissu af þessum sökum. Við erum ekki komin í höfn með niðurstöðu. Við skulum bara vera bjartsýn og trúa á að það takist. Við munum reyna allt sem við getum til þess - og ég - en það er auðvitað ekki í höfn og við vitum að það er erfitt að brúa þarna ákveðið bil sem er milli aðila.

Steingrímur og Jóhanna keppast við að gera lítið úr lýðræði þjóðaratkvæðagreiðslunnar á morgun. Þau segja að best sé að sitja heima því fyrir liggi betri samningur.

Nú hefur Steingrímur borið það til baka.

Betri samningur liggur ekki fyrir þótt vel hafi miðað í samningaviðræðunum.

(Og NB samningaviðræðum sem aldrei hefðu orðið að veruleika ef Jóhanna og Steingrímur hefðu fengið að ráða.)

Lögin nr. 1/2010 eru enn í fullu gildi.

Æðstu ráðamenn þjóðarinnar gefa lýðræðinu langt nef til þess að breiða yfir þá staðreynd að þau geta ekki með nokkru móti stutt lög sem þau sjálf á sínum tíma börðust fyrir með kjafti og klóm.

Og lögðu sig að veði í þeirri baráttu. 

Myndin er úr Glerárgili


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sammála. Lítil er lýðræðisástin þegar á hólmin er komið.

Kveðja úr Naustahverfi

Arinbjörn Kúld, 6.3.2010 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband