Hestaheilsa og hrossamegrun

Hestur í Skálholti (2)

Nú þegar æseiv er lagst í dvala eru þær fréttir helstar að feitt fólk hefur skorið upp herör gegn eigin holdafari og bryður í því skyni töflur sem gefnar eru hrossum í andnauð.

Hvernig í ósköpunum datt fólki í hug að lyf ætluð hestum sem eiga erfitt með að anda gætu hugsanlega dugað gegn offitu hjá mannfólki?

Þótt ég efist ekki um að uppátækið sé stórvarasamt get ég ekki annað en hrósað þessum meðalaætum fyrir frjóa og skapandi hugsun.

Hrossaandnauðarmegrunarlyfin voru einnig til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins. Þar varaði læknir við þessum megrunarkúr og lét ekki þar við sitja:

Hún sagðist hvorki hafa trú á kúrum né einhverjum skyndilausnum.

Mikið gladdist mitt forherta og trénaða íhaldshjarta við að heyra það.

Skyndilausnir eru nánast aldrei góðar, hvort sem um er að ræða megrun eða annað.

Ef á annað borð þarf að breyta hlutunum er best að gera það hægt og bítandi til að maður fari ekki fram úr sjálfum sér.

Þegar konan mín biður mig um að hjálpa sér við að breyta í stofunni er ég sjálfum mér samkvæmur. Ég tek dræmt í tillögur um breytingar og er þeim andsnúinn nema sýnt sé fram á nauðsyn þeirra með skýrum rökum.

Og taki ég þeim rökum fer ég undurvarlega í breytingarnar fái ég nokkru ráðið - sem reyndar er sjaldnast.

Það er yfirleitt alltaf betra að gera hlutina hægt.

Allt gott í veröldinni verður enn betra fái það að þróast með hægðinni.

Allar nautnir eflast og auðgast ef maður treinar sér þær og dregur þær á langinn.

Það er gott að leggja af en enn betra er að grennast svo hægt að það sjáist varla.

Ég passa mig á að leggja bara pínulítið af í einu og ef vigtin sýnir óhófleg stökk gríp ég til viðeigandi ráðstafana með tertuáti og kyrrsetum.

Hrossalyfjafréttin minnir mig á að fyrir allmörgum árum var starfrækt lítil og snotur byggingavöruverslun hér á Akureyri.

Þar var meðal annars höndlað með veggfóður.

Veggfóðurslím var auðvitað líka selt í búðinni. Það var í duftformi.  Að sögn kaupmanns átti að leysa það upp í volgu vatni og bera það síðan á veggfóðrið með þar til gerðum kústi.

Fylgdu húsbyggjendur þeim leiðbeiningum út í haugahörgul en samt gekk bölvanlega að fá betrekkið til að tolla á veggjum.

Líminu fylgdu leiðbeiningar á þýsku. Einn pirraður viðskiptavinur leitaði til þýskumælandi vinar síns og bað hann að þýða fyrirmælin á límpökkunum.

Í ljós kom að kaupmaður hafði rétt fyrir sér. Duftið átti að hræra út í volgu vatni.

Meinið var að slepjan sem við það myndaðist var ekki ætluð til að líma veggfóður á veggi.

Það átti að bera hana á girðingarstaura til að forða því að hestar nöguðu þá.

Myndin: Ég hitti þennan hest í Skálholti síðasta haust og hann tók andköf af hlátri. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

, 11.3.2010 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband