Nýr Dagur

DSC_0198 

Vinur minn einn íhugaði búferlaflutning. Hann var að spá í að flytja úr plássinu þar sem hann hefur átt heima síðustu hálfu öldina og tékkaði því á hvað hann fengi fyrir fallega einbýlishúsið sitt þar.

Um er að ræða snoturt hús í fyrirmyndarástandi á prýðilegum stað.

Hann fengi heilar 11 milljónir fyrir húsið sem þau hjónin lögðu ævistarf sitt í.

Svona hús væri sennilega hátt í þrisvar sinnum dýrara hér á Akureyri og ég þori ekki að hugsa um hvað það kostar fyrir sunnan.

Annar vinur minn sem er í fasteignabransanum hér í bæ segir mér að hér sé fátt að gerast á því sviði. Fólk haldi að sér höndum.

Þó sé ekki óalgengt að fólk að sunnan kaupi hér einbýlishús til að nota sem orlofsíbúðir.

Sífellt sannfærist ég betur um að tvær þjóðir búi í þessu landi þótt ábyggilega séu þvílíkar staðhæfingar í sumra augum dæmigert landsbyggðarnöldur.

Þriðji vinur minn er í veitingabransanum. Hann segist borga 16 sinnum meira í flutningskostnað en kollegar hans fyrir sunnan.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um málefni sem snerta hag landsbyggðarinnar en er sárasjaldan minnst á í fjölmiðlum.

Það er kannski ekki nema von því fjölmiðlarnir eru allir fyrir sunnan.

Við þurfum nýjan fjölmiðil á Íslandi. Nú er pláss fyrir hann.

Það er brýn þörf fyrir fjölmiðil á landsvísu sem er í hæfilegri fjarlægð við elítukraðakið í Reykjavík.

Fjölmiðlar eru að störfum vítt og breitt um landið. Héraðsblaðafánan er fjölskrúðug. Af hverju ekki að virkja hana í þessu skyni?

Öflugur netmiðill væri fín byrjun.

Myndin: Þessi stolti hundaeigandi er innbæskur Akureyringur frá Patreksfirði. Hundarnir hans, Lady og Prins, fengu sér labbitúr í góðviðrinu sem verið hefur hérna fyrir norðan að undanförnu - og er nánast alla daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú, afhverju stofnið þið Akureyringar ekki öflugan netmiðil í stað þess að vera með þetta landsbyggðanöldur! En mikið er annars næs að vera í elítunni. Það er ekki búandi í landinu nema fyrir sunnan Holtavörðuheiði. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.3.2010 kl. 09:10

2 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ég er einmitt að hvetja til þess að stofnaður verði öflugur netmiðill úti á landi, Sigurður.

Og hvernig væri svo að kveðja rigninguna, elítukvakið og borgarbölmóðinn og koma í margboðaða heimsókn í hið stöðuga blíðviðri hérna fyrir norðan?

Svavar Alfreð Jónsson, 12.3.2010 kl. 09:21

3 Smámynd: Anna

Góður pistill hjá þér Svavar.  Landsbyggðin þarf öflugan fjölmiðil, ekki spurning, vonandi stíga einhverjir skrefið og láta slíkt verða að veruleika. 

Anna, 13.3.2010 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband