5.4.2010 | 20:06
Upphafning hversdagsleikans
Fyrir nokkrum mánuðum fékk aldraður en furðu ern karl faðir minn sér feisbúkksíðu eftir þrálátar áeggjanir.
Til að byrja með hafði hann sig lítt í frammi en þótti afskaplega vænt um allar vinarbeiðnirnar.
Eftir að hafa safnað sér kjarki og móð og þegar mesta feisbúkkfeimnin hafði rjátlast af honum skrifaði hann sinn fyrsta status.
Þar lýsti hann því yfir að hann hygðist sjóða sér hafragraut.
Ekki stóð á viðbrögðum.
Hamingjuóskum rigndi yfir gamla manninn.
Fólk af fjarlægum landshornum átti ekki orð til að lýsa aðdáun sinni á uppátækinu.
Aðrir fundu fyrirætlunum föður míns allt til foráttu.
Að þeirra mati var um afleitan tíma að ræða til slíkra athafna.
Svo fór að gamla manninum þótti vissara að sleppa grautargerðinni í það skiptið.
Og hann hefur heldur ekki sett inn fleiri statusa.
Myndin er af hversdagslegu mannvirki ofan Akureyrar.
Athugasemdir
Það er svona að lifa fyrir opnum tjöldum...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 5.4.2010 kl. 20:34
Svakalegir þessir Innbæingar, það sem þið finnið upp á. Takk fyrir frábæra feisbúksögu og eigðu gleðilega hátíð!
Sveinn Ólafsson í vesturbænum í Reykjavík.
Sveinn Ólafsson, 5.4.2010 kl. 20:49
Já fésbókin er hættulegt rugl, því miður. M.b.kv. Anna
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.4.2010 kl. 23:16
Sæll Svavar Alfreð,
Ég skrifaði smá gagnrýni á páskaprédikun þína á bloggi mínu sem þú gætir haft gaman af að lesa og gagnrýna á móti.
Sjá: Prédikun sr. Svavars Alfreðs á páskadag - ekki þjóðinni sæmandi?
mbk,
Kristinn Theódórsson, 6.4.2010 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.