10.4.2010 | 12:10
Undur Íslands
Að þessu sinni eiga helgarútgáfur Moggans og Fréttablaðsins það sameiginlegt að fjalla um furðuverur.
Fyrr á tíð virðast hvers konar furður hafa verið algengari en nú.
En kannski eru furðurnar bara öðruvísi á okkar tímum?
Undanfarið hef ég verið að lesa rit eftir Gísla Oddsson sem var biskup í Skálholti á árunum 1632 - 1638.
Annað ritið heitir Íslenzk annálabrot (Annalium in Islandia farrago) en hitt Undur Íslands (De mirabilibus Islandiae).
Er margt fróðlegt og forvitnilegt í skrifum biskupsins. Ber hann löndum sínum nokkuð vel söguna og tekur undir með hinum ágæta sagnaritara Saxa sem lét svo um mælt að Íslendingar bættu upp ruddahátt sinn með gáfnalipurðinni.
Hefur Íslendingum á tímum biskupsins verið margt til lista lagt. Þannig kann hann að segja frá manni einum á Austurlandi sem gert hefur í höndunum áttróinn bát, og stýrði skipstjórinn öllum árunum með hjólum og strengjum sitjandi í skutnum..."
Skálholtsbiskup heyrði um annan völund sem reynt hafði list Daidalosar, með því að safna fuglafiðri og fjöðrum, brugðið vængjunum undir sig og farið í þá eins og fat; hafi hann svo erfiðislaust getað flogið yfir Hvítá í Borgarfirði; niðjar manns þessa eru enn á lífi."
Ótrúlegust finnst mér samt sagan af manni sem var enn á lífi á dögum Gísla og með eigin höndum kveikti saman fleyga dúfu og spýjandi eld.
Og ekki vantar undrin í annálabrot biskupsins. Sum árin fá reyndar dapurleg eftirmæli. Árið 1374 til dæmis þessi:
Fátækir menn dóu af matarskorti og hungri.
Eða 1402:
Feiknamanndauði á Íslandi.
Loftsjónir alls konar voru tíðar á þessum árum. Sjóskrímsli skriðu á land, draugar riðu húsum og huldufólk ginnti fólk inn í hóla og kletta. Furðulegar plágur geisuðu. Árið 1605 varð fólk á Vestfjörðum bráðdautt. Menn dóu á hestbaki. Einn andaðist er hann var að leysa hey úr heygarði, annar datt niður á göngu, kona í Önundarfirði dó sitjandi við að mjólka kú og í Bolungavík önnur sem sat alheil við eldinn, féll fram á logann og dó.
Þetta hefur verið gósentíð fyrir áhugamenn um fljúgandi furðuhluti. Menn sáu hluti á lofti sem gætu hafa verið einhvers konar geimskip og fyrir kom að út úr þeim stigu einkennilegar verur. Glóandi spjót flugu um um himinhvolfin og skildu eftir sig rák á loftinu" eins og það er orðað.
Vanskapnaður virtist ekki hafa verið sjaldgæfur þótt enn hafi verið margar aldir í Tsjernóbilslysið.
Biskup greinir frá því að 16. október 1606 hafi borist fregnir af þriggja eða fjögra ára gömlu viðrini í koti nokkru nálægt Njarðvík. En ekki nóg með það:
Sömuleiðis er sagt, að á Flankastöðum sé fjögra eða fimm ára gamall drengur, sem hafi getnaðarfæri, skegg og kviðarhár sem fullorðinn karlmaður (haldið er, að hann sé umskiptingur). Sömuleiðis er sagt, að í hjáleigu hjá Hlíðarenda, sem heitir Nikulásarhús, sé sex ára gömul stúlka umskiptingur; liggur hún í vöggu, sem stendur undir hærra rúmi og geltir sem hundur, í því skyni að fá nokkurt æti í hvert sinn, sem einhver gengur um. Á Ey í Grímsnesi hefur umskiptingur nokkur lifað í nálega 15 ár og hefur allan þann tíma aldrei risið á fætur úr rúminu, - hræðileg ókind, herfileg og ferleg; stundum rekur hann upp hvínandi hljóð, svo að viðstaddir mega varla standast þau. Öðru hvoru hefur hann vaxið mjög á lengdina, og því lengri sem hann hefur orðið, því meira hefur hann grennzt fram yfir hæfi.
Ég enda þetta með annál fyrir árið 1619 úr riti Herra Gísla Oddssonar. Svona var nú fréttamennskan þá:
Vansköpuð fóstur fæddust víðs vegar. Kýr nokkur í Vestur-Landeyjum syðra er sögð 22. sunnudag eftir trínítatis að hafa borið kálfi með hundstrýni, en hann vantaði nasir, og augun lágu neðar en vant er að vera; hálsinn grannur eins og á fugli, ílangur og hlykkjóttur, framfætur engir né bógar né bógfyllur, hryggjarliðir snúnir að brjóstinu, harðir og yddir, maginn þröngur eða skroppinn, lærin bæði grönn og stutt; afturfætur voru fram úr hófi langir, klaufir íbognar, bæði fram á við og til hliðanna, rófan harla löng og alþakin burstum; náði hún fram eftir bakinu allt fram að eyrum. Hæna nokkur í Vestmannaeyjum klakti út ferfættum kjúklingi. Sama ár brann kirkjan á Hjaltabakka nyrðra til grunna með öllu, sem í henni var, en ókunnugt er um upptök. Í nóvember sama ár sást um hér um bil þriggja vikna tíma merkileg halastjarna; hali hennar eða stafur var slitróttur og teygði sig frá útsuðri beint upp á við; hún sást einnig um Danmörku og Þýskaland, og hennar getur líka lærður maður nokkur í Rauðstokki. Þann 29. júlí sama ár kom víðs vegar afskaplegt eldgos úr austurfjöllum.
Myndin: Vorvatn á Vöðlum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.