Það vorar

DSC_0203 

Löng var biðin eftir rannsóknarskýrslunni. Hún reyndist þeirrar biðar virði þótt ekki hafi komið til óeirða á útgáfudaginn.

Þjóðin er að melta niðurstöðurnar og fróðlegt er að fylgjast með viðbrögðum valdablokkanna í samfélaginu.

Önnur talar um mistök og vanrækslu stjórnsýslunnar en hin um siðleysi og glæpi peningaaflanna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að hvort tveggja brást. 

Orsaka bankahrunsins er í fyrsta lagi að leita í bönkunum sjálfum. Þeim var ekki viðbjargandi. Þeir voru gangandi lík. 

En þeir sem eiga að gæta hagsmuna almennings brugðust líka. Viðbrögð þeirra - eða réttara sagt skortur á þeim - gerði hrunið enn brattara og erfiðara fyrir þjóðina.

Skýrslan dregur upp mynd af úldnu og gegnspilltu viðskiptalífi, vanhæfri stjórnsýslu og blindri og heyrnarlausri stjórnmálastétt.

Árin fyrir hrun ríkti hér „mannfjandsamleg hugmyndafræði", svo notuð séu orð Steingríms J. Sigfússonar í ræðu hans á Alþingi.

Er það síst ofmælt hjá Steingrími og efni í mergjaða stólræðu.

Þetta er vönduð skýrsla og efnismikil. Þjóðin hefði gott af því að ræða hana af yfirvegun en því miður virðast margir á leið ofan í gömlu skotgrafirnar.

Við búum svo sem ekki við merkilega umræðuhefð á Íslandi. Gapuxar og sorakjaftar þykja flottir í umræðunni; hinni margrómuðu íslensku hvatvísi hefur verið hampað. Stjórnmál eru persónugerð, allt snýst um einhverja tiltekna einstaklinga og að vera með þeim eða á móti. Reynt er að leiða fram sem andstæðust sjónarmið til að umræðan selji vel með þeim afleiðingum að þjóðin heyrir helst í öfgamönnunum.

Þeir ráða sem mest vilja í gegn gangast.

En um leið bendir ýmislegt til að þjóðin sé að endurmeta sig, vilji særa út illu andana en blása inn þeim góðu.

Ég gladdist til dæmis mjög að frétta af gagngerum breytingum á námskrá míns gamla skóla, Menntaskólans á Akureyri.

Að sögn skólameistara, Jóns Más Héðinssonar, verður  eitt markmiðið með námi í MA að „búa nemendur betur undir lífið í lýðræðisþjóðfélagi".

Íslenskir fjölmiðlar fengu þunga dóma í skýrslunni. Þeir þurfa að vanda sig betur. Huga þarf að eignarhaldi og bæta þarf menntun blaðamanna.

En hversu góðir sem fjölmiðlarnir eru þurfa þeir alltaf lesendur, áheyrendur og áhorfendur sem kunna með þá að fara.

Ég er þeirrar skoðunar að taka þurfi upp kennslu í fjölmiðlalæsi í skólum landsins. Við þurfum mynduga neytendur fjölmiðla.

Og við þurfum hugsandi og virka þegna sem láta sér ekki nægja þau þjóðfélagslegu afskipti að grilla um helgar.

Ég held að breytingarnar í MA séu í rétta átt.

Eða svo notuð séu orð meistara:

Við teljum að með breytingunum náum við að tengja nám nemenda Menntaskólans á Akureyri mun betur en áður við þjóðfélagið, umhverfi þeirra og nærsamfélag. Það á að efla hugsun þeirra og enda göngum við út frá þeirri meginhugsun að hlutverk okkar sé að búa nemendurna undir líf í lýðræðisþjóðfélagi, jafnframt því að þeir séu tilbúnir að takast á við háskólanám. Gleggsta vitni þess að við séum á réttri leið hafa verið þær áherslur sem hafa komið út úr þjóðfundum að undanförnu, en þar hefur kveðið við sama tón og er hljómurinn í nýrri námskrá Menntaskólans á Akureyri.

Ég finn indælan vorilm af þessari mannvinsamlegu hugmyndafræði.

Myndin: Litið til Sigurhæða


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband