16.4.2010 | 12:22
Siðferði þjóðar
Skýrslan góða staðfestir það sem oft hefur heyrst:
Siðferði Íslendinga er stórlega ábótavant.
Skýrslan er ekki bara áfellisdómur yfir útrásarvíkingunum og peningaglönnunum, pólitíkusunum og embættismönnunum, fjölmiðlunum og háskólasamfélaginu.
Þjóðin fær líka sinn dóm.
Þótt sú kenning hafi verið afsönnuð að hrunið stafi af flatskermakaupum almennings þarf þjóðin engu að síður að horfast í augu við sig sjálfa ef takast á að endurreisa samfélagið.
Og mér sýnist margt benda til þess að þjóðin ætli að axla ábyrgð.
Menn tala saman um hvernig eigi að bæta siðferðið á Íslandi.
Margir tala til dæmis um að efla þurfi kennslu í siðfræði í skólum landsins.
Ég tek undir það.
En það er ekki nóg.
Ég heyrði útundan mér að þeir voru að tala um bætt reglukerfi fyrir bankana á Alþingi. Ég tek líka undir það en er jafnframt sammála þeim sem bentu á að til hefðu verið alls konar reglur í hinum föllnu fjármálafyrirtækjum.
Það var bara enginn áhugi á að fara eftir þeim.
Og lausnin er heldur ekkert endilega sú að kenna börnum siðfræði.
Þau þurfa að hafa vilja og löngun til að fara eftir því sem þau læra.
Einhver sagði að ellefta borðorðið væri svona:
Haltu öll hin."
Í gær heyrði ég Vigdísi Finnbogadóttur segja að auka þyrfti agann í samfélaginu.
Agi felst í því að vilja fara að fyrirmælum, bera virðingu fyrir stjórnvöldum og síðast en ekki síst er agi fólginn í hæfileikanum til að breyta rétt.
Hrunið fólst ekki bara í glæpum og siðferðisbrestum. Það skýrist líka af agaleysi. Í skýrslunni sjáum við mörg dæmi um hinar skelfilegu afleiðingar sem skortur á sjálfsaga getur haft.
Einhvers staðar las ég sögu um ungan mann sem lærði járnsmíðar hjá frægum meistara. Sá kenndi lærisveini sínum alla leyndardóma iðnarinnar. Þegar ungi maðurinn kom heim eftir langt og strangt nám biðu allir í ofvæni eftir því að sjá hann leika listir sínar.
Því miður gat hann ekkert smíðað.
Það hafði nefnilega gleymst að kenna honum að kveikja eld og halda honum logandi.
Það nægir ekki að kenna börnunum siðfræði. Við þurfum líka að ala þau upp.
Og okkur sjálf.
Myndin: Þessi regnbogi tyllti sér yfir Þingvallastrætið síðasta sunnudag.
Athugasemdir
Sæll Svavar. Mig hefur lengi langað á námskeið í siðfræði. Það hefur ekki verið í boði svo ég viti en held að Endurmenntun H.I hafi verið með örfá slík. Ekki var það af því ég teldi mínu siðferði ábótavant umfram aðra heldur forvitni á fræðunum.
Ég vill líka meina að við séum að innprenta börnunum siðfræði frá unda aldri. Við kennum þeim mun á réttu og röngu en eins og þú segir þarf að fylgja því eftir og fá þau til að vilja.
Í gær var ég með litlu kútana mína í heimsókn og þegar sá eldri 3ja ára var búinn að tússlita einn vegg hjá mér sagði ég við hann. "Björgólfur ætlar þú í skammarkrókin"? "Nei nei" sagði hann " ég vill vera góður"
Þau þurfa einmitt að vilja og skilja. Það held ég að sé það sem málið snýst um.
Bestu kveðjur Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 16.4.2010 kl. 13:46
Ég kvitta fyrir lesturinn og thakka fyrir.
Guðmundur Pálsson, 21.4.2010 kl. 06:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.