4.5.2010 | 15:20
Sérfræðingarnir tala - lömbin þagna
Íslensk þjóðareinkenni, ef til eru, eiga ekki upp á pallborðið nú til dags.
Íslendingar eru nánast óalandi og óferjandi, agalaus, rýtandi, lýður sem ekki hefur stjórn á neinu, hvorki gráðugum og óseðjandi bankamönnum né öskuspúandi og flugstoppandi eldfjöllum.
Eitt af því sem varð þess valdandi að hér fór allt á hausinn er sú ónáttúra Íslendinga að trúa ekki sérfræðingum og fyrirlíta alla fagmennsku.
Á þetta hafa sérfræðingar og fagmenn bent.
Íslendingar þurfa alltaf að vita allt best.
Samkvæmt þeirri kenningu eru íslenskir sérfræðingar og fagmenn verstir allra því þeir þurfa að vita enn betur en allir besservisserarnir í kringum þá.
Og svo trúir enginn neinum því allir vita betur.
Þannig er sá vítahringur.
Ég er nú samt ekki viss um að alltaf sé slæmt að taka orðum sérfræðinga með hæfilegum fyrirvörum.
Í tilvísaðri grein bendir Eiríkur Bergmann á að samkvæmt Skýrslunni sé tregðan við að trúa sérfræðingum ein af þeim þjóðarmeinsemdum sem til hrunsins leiddi.
En Skýrslan bendir líka á að ekki sé allt heilagur sannleikur þótt það komi frá sérfræðingum og fagmönnum.
Hún heldur því raunar fram að ein skýringin á Hruninu sé ákveðið gagnrýnisleysi á kenningar og skýrslur sérfræðinga.
Þar segir:
Fyrr á tímum herjuðu einkum pólitísk og trúarleg öfl á vísindamenn og reyndu að hafa áhrif á viðfangsefni fræðimanna og niðurstöður þeirra. Í nútímanum hafa tengsl efnahagslífs og háskólastarfs orðið meira áhyggjuefni, meðal annars vegna þess að mun erfiðara er að henda reiður á áhrifum á fræðimenn, ekki síst í andrúmslofti þar sem mikil viðskiptavild er ríkjandi. Það fer yfirleitt ekki á milli mála þegar valdið kemur að ofan, en það getur auðveldlega farið framhjá manni þegar það smýgur inn í formi styrkja eða kostunar og einstaklingar laga hegðun sína ósjálfrátt að því án þess að þurfa nokkurn tíma að lúta valdboði. Hér er því um að ræða áhrif af því tagi sem nefnd var sjálfsritskoðun hjá fjölmiðlamönnum.
Rannsóknarskýrslan nefnir tvær skýrslur, unnar af fræðimönnum og undir yfirskini fagmennsku, sem fegruðu stöðu íslensku bankanna stuttu áður en þeir fóru allir á hvínandi hausinn.
Önnur var unnin árið 2006 af þeim Tryggva Þór Herbertssyni, þáverandi forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, og Frederic Mishkin, prófessor við Columbia-háskóla. Hin var verk þeirra Richard Portes, prófessors í alþjóðlegri þjóðhagfræði og alþjóðafjármálum við London Business School, og Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.
Framgöngu hins virta hagfræðiprófessors lýsir Skýrslan þannig:
Richard Portes tók þátt í viðskiptaráðstefnunni 11. mars 2008 í Kaupmannahöfn með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Sigurði Einarssyni, stjórnarformanni Kaupþings banka hf. Í frásögn RÚV af fundinum kemur fram að Portes sagði íslenska banka og íslenskan efnahag hafðan fyrir rangri sök hjá erlendum aðilum. Að mati Portes gætti fjandsamlegs viðmóts í garð íslenskra viðskiptamanna í Bretlandi, meðal annars vegna sögu ríkjanna. Óvönduð blaðamennska og níð keppinautanna hefði einnig sitt að segja. Portes gagnrýndi jafnframt matsfyrirtækin Moody's og Fitch fyrir óvönduð vinnubrögð. Þetta var liður í samhentum leiðangri stjórnmálamanna og bankamanna til þess að bæta ímynd íslensku bankanna erlendis og um tíma leit út fyrir að sú viðleitni bæri árangur: "Við nýjan tón kveður í erlendri umfjöllun," segir í Fréttablaðinu 27. mars 2008 og er sérstaklega vitnað til jákvæðrar umfjöllunar í Financial Times þar sem meðal annars er viðtal við Richard Portes. Þar segir Portes ekkert í rekstri eða aðstæðum íslenskra banka réttlæta skuldatryggingarálagið (CDS) sem þeir búa við. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNBC 25. mars 2008 sagði Portes síðan íslenska banka vera mjög vel rekin og heilbrigð fyrirtæki: "Þá sagði Portes, að margt hefði verið ofsagt um "íslenska bankavandamálið". Íslensku bankarnir væru traustir og vel reknir og stoðir þeirra væru mun traustari en margra þeirra norrænu banka, sem þeir væru bornir saman við og þeir ættu enga "eitraða pappíra"." Portes gekk því vasklega fram fyrir hönd íslensku bankanna á erlendum vettvangi og varði þá af hörku.
Þetta minnir okkur á að prófskírteinin eru ekki endilega rétti mælikvarðinn á það sem menn segja.
Við ættum kannski frekar að gefa því gaum hvað mennirnir segja?
Myndin: Vinsælasti myndatökustaðurinn á Akureyri er á kaupfélagshorninu. Þar stilla ferðamenn sér upp og taka myndir upp kirkjutröppurnar. Hér er þessu snúið við. Ég brá mér upp í turn og tók myndina út um skemmd á skífu kirkjuklukkunnar.
Athugasemdir
Er alveg sammála,mér hefur fundist fullmikil dýrkun í gangi á sérfræðingum ýmiss konar síðustu árin. Minnir um margt á öfgarnar t.d. í Bandaríkjunum...
Skemmtilega tekin mynd:)
Elínborg, 4.5.2010 kl. 21:50
Tek undir það þessi mynd er mjög flott... gaman að sjá kirkjutröppurnar frá þessu sjónarhorni... en ég er nú ekki neinn sérfræðingur svo sem...
Brattur, 4.5.2010 kl. 22:59
Skemmtileg mynd ur turninum.
Islendingur (IP-tala skráð) 5.5.2010 kl. 01:32
Það er ánægjulegt að þú skulir tala um sérfræðinga í þessari grein sem og að taka mynd úr kirkjunni okkar af fyrrverandi höfuðstöðvum KEA - er þetta er hrein tilviljun? Kannski er allt nær okkur en við höldum.
Rannsóknarskýrslan er ekki tæmandi. Ég lít á hana sem hvatningu til okkar allra að láta sannleikann koma í ljós. Þetta er bara spurning um hver þorir.
Ég er ennþá að bíða eftir að réttu aðilarnir gefi sig fram. Ungur nemur það sem gamall temur.
Sumarliði Einar Daðason, 8.5.2010 kl. 23:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.