28.5.2010 | 22:45
Vögguljóð
Nýlega rakst ég á þetta magnaða kvæði eftir vesturíslensku skáldkonuna Jakobínu Johnson. Fimm ára fluttist hún frá Íslandi vestur um haf, bjó fyrst í Kanada en síðan í Seattle í Bandaríkjunum þar sem hún lést árið 1977, komin á tíræðisaldur.
Ég held um smáa hendi, því gatan hér er grýtt,
þá get ég líka fundið, hvort þér er nógu hlýtt.
Ég veit mér skylt að ráða og rata fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem leiðir mig.
Æ snertir þú við þyrni? - Hann fól hin fríða rós,
og fögur tárin myrkva þitt skæra hvarmaljós.
Mér rennur það til hjarta og reyni að gleðja þig,
- en raunar ert það þú, sem huggar mig.
Þú spyrð um svarta skýið, sem skyggir fyrir sól,
og skrælnuð mösurblöðin, er fjúka um laut og hól.
Ég leitast við að ráða þær rúnir fyrir þig,
- en raunar ert það þú, sem fræðir mig.
Nú þreytast smáir fætur, svo faðminn þér ég býð.
Ég fel þig ljúft að hjarta, og stundin sú er blíð.
Þú andar hægt og rótt og þín rósemd grípur mig,
- svo raunar ert það þú, sem hvílir mig.
Athugasemdir
Mikið svakalega er þetta falleg...
Brattur, 29.5.2010 kl. 00:52
Thetta er fallegt kvaedi, thakkir fyrir ad lofa okkur ad sja thetta.
Bestu kvedjur
Islendingur (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 10:03
Þetta er eitt það fegursta ljóð sem ég hef séð. Ástarþakkir fyrir mig.
Inga Sælad (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 08:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.